Samhæfing í fjölþjóðlegum gagnasettum (109)

Með INSPIRE tilskipuninni kom fram stefna Evrópusambandsins á sviði stafrænna landupplýsinga, byggð á hugmyndum um grunngerð landrænna gagna eða SDI (Spatial Data Infrastructure). Hugmyndafræðin tekur fyrst og fremst til stafrænna gagna og gagnasetta allt frá hnattrænum gögnum niður í mjög sértæk gögn af afmörkuðum svæðum. INSPIRE er því í raun tilskipun um það hvernig eigi að innleiða þessa hugmyndafræði með samræmdum hætti í öllum löndum Evrópu. Þegar fór að hilla undir tilskipunina á fyrstu árum aldarinnar höfðu verið í umræðunni þau vandkvæði sem snerta það að eignast hnattræn gagnasett af allri jörðinni í formi staðfræðikorta og síðar með þekju gervitunglamynda. Í Evrópu höfðu verið gerðar tilraunir með samsetningu staðfræðigagna á vektor formi (s.s. hæðarkerfis, vatnafars, vega, örnefna og ýmissa yfirborðsþátta) og síðan stjórnsýslugagna frá evrópskum kortastofnunum (Cerco og síðar EuroGeographics). Þeim var síðan komið á markað, enda hafði Eurostat  sem er eins konar hagstofa Evrópusambandsins, kallað eftir slíkum samræmdum gagnasettum. Þessi samsetning gagna leiddi ótal vandamál fram á sviðið enda gögnin afar ólík. Þau gátu til dæmis verið í mismunandi mælikvarða frá hinum ýmsu löndum, sýndu ef til vill aðliggjandi landamæri sem ekki höfðu verið stillt saman og hæðarkerfi sem ekki féllu saman svo eitthvað sé nefnt. Sá aðili sem tók að sér að safna saman gögnunum vann á einum stað að samsetningunni. Ef gera þurfti breytingar á gögnunum varð að gera þær miðlægt hjá þeim sama aðila og dreifa nýrri útgáfu.

Með INSPIRE hugmyndafræðinni snerist þessi ferill við. Þegar birta á gögn með heildrænni framsetningu í kortasjám á netinu er ætlast til að notaðar séu vefþjónustur í hverju landi, sem séu byggðar á samræmdum stöðlum þannig að gögn frá mörgum ólíkum aðilum í mismunandi löndum geti birst í einni kortasjá sem samræmd gagnasett.

Ein af þeim tilraunum sem gerðar hafa verið í þessa veru er verkefnið OneGeology (onegeology.org). Verkefnið miðaðist við að hægt væri að skoða tiltölulega einfalda framsetningu á jarðfræðikortum af jörðinni í mælikvarða nálægt 1:1 000 000. Með því að skoða kortasjána sést hvernig mismunandi flekar af gögnum birtast eftir því sem þysjað er nær ákveðnum löndum. Af einhverjum ástæðum var Ísland ekki með í þessu verkefni, en líklega hefði ekki verið mikið mál að koma íslenskum gögnum inn í svo litlum mælikvarða.

Reynt var á sama hátt að birta upplýsingar á svipuðum sviðum í verkefninu EGIP (European Geothermal Information Platform), einu af gagnaverkefnum í ERA-NET Geothermal verkefninu, en það tókst ekki sem skyldi þar sem staðla um jarðhitagögn fyrir slíka framsetningu vantar og ekki hefur farið fram nein vinna við að útbúa þá á sama grunni og tæknilýsingar í öðrum málaflokkum tilskipunarinnar.

Í einu verkefni til viðbótar, Thermo Map, sem unnið var m.a. með þátttöku ÍSOR, voru gögnin sett saman á einum stað erlendis og birt á vef. Ekki er vitað til að orðið hafi til eitt heildargagnasett sem dreift hafi verið til þátttökulandanna. Það er því ekki víst að vinnan og niðurstaða hennar skili sér í formi landfræðilegra gagnasetta til þátttakendanna í hinum ýmsu löndum. Þegar fjárveitingar þrýtur í slíkum verkefnum hefur á endanum verið slökkt á kortasjánni sem sýnt hefur gögnin og því er birtingarmynd vinnunnar þar með horfin fyrir fullt og allt.

Þessi þróun í samstarfsverkefnum og þau viðmið sem INSPIRE tilskipunin hefur komið með, koma til með að breyta ýmsu í vinnubrögðum. Eftir er að semja staðla á einhverjum öðrum sviðum en tæknilýsingar hinna 34 efnisflokka tilskipunarinnar taka til.

Það hefur örugglega stundum verið pottur brotinn í því þegar sótt er um styrki til fjölþjóðlegra samtaka og stofnana í verkefnum sem meðal annars innihalda landfræðileg gögn, að í verkskilum sé ekki skilað skilgreindum landfræðilegum stafrænum gagnasettum, heldur einungis látið nægja að skila skýrslum. Það er þá hugsanlega ákveðið kæruleysi í gangi af hálfu aðila (styrkveitendur/sjóðir), sem fjármagna slík verkefni sem unnin eru af fyrirtækjum og stofnunum hvar sem þau eru staðsett, því eignarhald samsettra gagnasetta er oft ekki á hreinu. Þá getur sá sem setti gögnin saman frá öllum hinum þátttakendunum gert tilkall til að vera sá sem á samsetta gagnasettið og þeir sem lögðu til einstaka hluta eigi ekki lengur aðkomu að eignarhaldinu.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...