Framboð landrænna gagna í kortasjám á Netinu hefur vaxið gríðarlega á síðustu tveimur áratugum. Á þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í hugbúnaðargerð og lausnir til birtingar taka stöðugum framförum. Ekki er öllum ljóst hve mikið þarf til að búa þannig um hnútana að hægt sé að birta landræn gögn með þessum hætti, en áður en að því kemur þarf að hafa farið fram mikil skipulagsvinna og gagnasöfnun, sem endar venjulega í gerð þeirra landrænu gagnasetta sem kortasjárnar birta. Kortasjár eru annað hvort reknar af einni stofnun/ sveitarfélagi/ fyrirtæki eða í samstarfi fleiri aðila. Í fyrra tilfellinu hefur ákvarðanataka um allt fyrirkomulag, útlit og virkni reynst auðveldari heldur en þegar um samstarfsverkefni er að ræða. Þar geta ólík sjónarmið þátttakenda hreinlega orðið til þess að gagnleg og samfélagslega mikilvæg verkefni missi flugið og séu lögð af löngu áður en ætlað var.
Lokun Gagnavefsjár (2004-2011) og Náttúruvefsjár (2008-2011) leiðir hugann að því hvers vegna kortasjár sem samstarfsverkefni margra stofnana gangi verr en slík verkefni þar sem ein stofnun ræður ferðinni. Nú þegar komið er að innleiðingu á hugmyndafræði INSPIRE tilskipunarinnar (Infrastructure for Spatial Information in Europe) í löndum Evrópu, um grunngerð stafrænna landupplýsinga, þar sem samstarf, samnýting og skilvirkni eru höfð að leiðarljósi, er nauðsynlegt að leiða hugann að þessari staðreynd og læra af henni. Ástæðurnar fyrir þessari stöðu eru margvíslegar. Ólík markmið stofnana í gagna- og vefmálum og ólík staða stofnana á sviði landupplýsingamála hefur án efa mikil áhrif, auk þess sem þarfir og kröfur um virkni hugbúnaðarlausna eru mismunandi. Þá hefur ólík stærð og fjármálaleg staða stofnana einnig áhrif, þar sem velja þarf á milli þegar fjármagn dreifist milli eigin kortasjárvinnu stofnunar og samstarfsverkefnisins og hugsanlega skortur á fjármagni fyrir hvort tveggja. Gæði gagna geta verið mjög mismunandi milli stofnana og upp geta komið ólík sjónarmið varðandi það hvaða gögn eiga að fá meira vægi en önnur. Þá getur komið upp mismunandi sýn á valdsvið ákvarðanatöku í samstarfsverkefnum, sem sumir gætu talið eiga að fara eftir vægi eða innleggi stofnana í verkefni. Þá er rétt að minna á að samstarfsverkefni draga athyglina að gögnunum burtséð frá því hvaða stofnun ber ábyrgð á þeim, stofnanirnar fá minni athygli og þar með dregur úr möguleikum þeirra til að sýna sérstöðu, sem er oft hluti ímyndar og getur til dæmis haft áhrif í stjórnkerfinu á möguleika þeirra til að fá fjármagn.
Samstarfsverkefnin Gagnavefsjá og Náttúruvefsjá voru brautryðjendaverkefni hér á landi, hvort á sinn hátt, og byggðu upp mikla reynslu hjá þátttakendum. Hugmyndirnar bak við verkefnin miðuðu að því að notendur gætu fengið aðgang að upplýsingum úr ólíkum gagnasettum frá mörgum stofnunum gegnum eina og sömu kortasjána og meðal annars borið þar saman eða skoðað samtímis gögn úr ólíkum gagnasettum, ásamt því að sjá þar ýmiss konar ítarefni. Verkefnin hafa hins vegar ekki átt langan líftíma eftir að kortasjárnar birtust fyrst á Netinu og hafa ef til vill ekki nýst sem skyldi. Fyrir utan það að þátttökustofnanir drógu sig út úr Gagnavefsjárverkefninu á sínum tíma, hafði einnig áhrif að framleiðandi hugbúnaðar kom með nýja hugbúnaðarlausn og hætti að viðhalda þeirri eldri. Í tilfelli Náttúruvefsjár, tókust hins vegar á ólíkir hagsmunir stofnana. Sjónarmiðið um stofnanasamstarf og rekstrarfélag fyrir kortasjána varð undir og því fór sem fór. Orkustofnun, sem ekki var talin hafa gögn sem féllu að þrengri skilgreiningu verkefnisins eftir að það fór með Vatnamælingum inn í nýja Veðurstofu Íslands og undir umhverfisráðuneyti 2009, tók þá stefnu að þróa áfram þá hugbúnaðarlausn sem stofnunin hafði átt þátt í að fjármagna að hálfu og nýtti þannig fyrri fjárfestingu í íslenskum hugbúnaði. Það er miður að hugmyndafræði þeirra sem unnu að og skipulögðu verkefnið um Náttúruvefsjá skuli ekki hafa fengið framgang í kerfinu. Lok samstarfsverkefnanna eru umhugsunarefni, bæði varðandi sjónarmið einstakra stofnana og ráðuneytis sem komu að verkefnum og um æskilega forgangsröðun mikilvægra landupplýsingaverkefna í stjórnkerfinu.
Þorvaldur Bragason