Samtök kortasafna, LIBER Map Group/MAGIC (44)

Kortasöfn sem stofnanir eiga sér langa sögu. Þekktasta kortasafn fornaldar var stofnað í Alexandríu í Egyptalandi nokkru fyrir Krists burð og áttu áhrif safnsins eftir að verða mikil um aldir. Klaustur voru síðan lengi mikilvægir varðveislustaðir korta og kortasöfn fylgdu valdabrölti og stjórnsýslu konunga og keisara víða um heim. Með þróun prentlistarinnar fóru kort að koma út í kortabókum eða Atlösum og jókst dreifing þeirra og notkun mjög þar með. Kort gegndu síðan lykilhlutverki í siglingum, landafundum og nýlendukapphlaupinu svo eitthvað sé nefnt og hin aukna útgáfa leiddi jafnframt til fjölgunar kortasafna um allan heim.

Aðferðir við varðveislu korta og landfræðilegs efnis eru vegna eðlis efnisins nokkuð aðrar en varðandi hefðbundnar bækur og skjöl, en þau fræði sem þarf að tileinka sér á því sviði hafa yfirleitt ekki verið kennd í háskólum sem sérstök fræðigrein. Fyrsta stóra yfirlitsritið á þessu sviði „Map Librarianship“ eftir Roman Drazniowski kom út árið 1975 og var þar fjallað um flestar helstu hliðar og vandamál sem uppi voru á þeim tíma varðandi skráningu og varðveislu korta. Á þessum tíma var vaxandi umræða víða um heim um málefni kortasafna og voru til dæmis stofnuð tvenn samtök í Bandaríkjunum á þessu sviði (Geography and Map Division, innan Special Libraries Association og Western Association of Map Libraries) sem bæði hófu nokkuð veglega útgáfu tímarita. Fyrir rúmum áratug sameinuðust síðan bandarískir kortasafnsfræðingar um útgáfu á nýju tímariti sem segja má að hafi nú nokkra sérstöðu á þessu sviði hvað metnað varðar, „Journal of Map & Geography Libraries“. Í Evrópu varð á áttunda áratug síðustu aldar til hópur kortasafnsfræðinga innan LIBER, samtaka bókasafna í Evrópu, sem hélt reglubundnar ráðstefnur og birtust greinar í tengslum við þær í „LIBER Bulletin“.

Á Íslandi hefur fyrirbærið kortasafnsfræði (e. map librarianship) aldrei verið til og aldrei farið fram nein kennsla um málefnið til dæmis innan Háskóla Íslands. Það er hins vegar athyglisvert að velta fyrir sér þeirri staðreynd að bók Drazniowskis var keypt á Háskólabókasafn fljótlega eftir að hún kom út en það var um það leyti sem dr. Björn Sigfússon, fyrrverandi háskólabókavörður og á sínum tíma upphafsmaður að kennslu á háskólastigi hér á landi í bókasafnsfræði, fór á eftirlaun. Þá settist hann aftur á skólabekk og hóf nám í landfræði við HÍ, sem hann lauk 1978. Í leiðbeiningariti, sem samið var meðal annars af nemendum í ýmsum greinum háskólans, fyrir væntanlega háskólanema á þessum tíma var bent á að fyrir þá nemendur sem tækju landfræði sem aðalgrein væri einn valkostur að taka bókasafnsfræði sem aukagrein. Ekki er ólíklegt að Björn hafi látið kaupa bókina og haft áhrif á þessa umræðu eftir langa safnareynslu og hafi af framsýni sinni verið búinn að sjá nauðsyn þessarar tengingar landfræðinnar og bókasafns- og upplýsingafræðinnar í námsvali innan Háskólans. Fáir hafa hins vegar tengt þessar greinar saman í námi hér á landi á þessum fjórum áratugum sem liðnir eru.

Liber Map Group hélt reglubundnar fjölmennar ráðstefnur, nítján að tölu, á tveggja ára fresti í ýmsum löndum Evrópu á tímabilinu 1978 – 2014, en yfirstjórn LIBER samtakanna úthýsti þá hópnum nánast úr samtökunum eftir skipulagsbreytingar. Óskiljanleg skammsýni og skilningsleysi, sem sýnir ef til vill betur en margt annað hve sjóndeildarhringur margra sérfræðinga í safnamálum getur verið þröngur þegar kemur að kortum og öðrum landfræðilegum upplýsingum. Þeir sem störfuðu í LIBER Map Group létu hins vegar ekki slá sig út af laginu, fluttu starfsemina einfaldlega til og tengdu við International Catographic Association, þ.e.a.s. ICA, Commission on Digital Technologies in Cartographic Heritage. Nýju samtökin fengu heitið MAGIC (Map & Geoinformation Curators Group) og starfa þau bæði sjálfstætt og í tengslum við aðra viðburði tengda varðveislumálum innan ICA.

Kortasafnahópurinn sem stofnaði MAGIC er líklega mun betur kominn þar sem hann er nú, enda nú tengdur betur kortagerðarmönnum og landupplýsingafólki auk aðila sem áhuga hafa á fornkortum og varðveislu hins landfræðilega menningararfs sem felst í kortum, ásamt miðlun eldri gagna á stafrænu formi á Netinu. Á liðnum ráðstefnum þessa hóps hefur einnig mátt finna meiri áhuga á að tengja fleiri landræna gagnaflokka eins og loftmyndir og gervituglagögn við varðveisluumræðu um stafræn landfræðileg gögn innan samtakanna. Sú umræða á hins vegar lengra í land, einkum vegna þess að flestir sem vinna í þessum geira og mæta á ráðstefnur starfa við hefðbundin kortasöfn og nokkur hluti þeirra sem um ræðir er ekki landfræðimenntaður. Því er skilningur á málefnum hinna fjölbreyttu stafrænu landupplýsingagagna oft takmarkaður. Umræður um varðveislu og aðgengi annarra tegunda landfræðilegra gagna eins og loftmynda, gervitunglagagna og stafrænna landupplýsingagagna eru því ekki sérstaklaga á dagskrá enn sem komið er. Það á vonandi eftir að breytast á næstu árum, enda eru nú í forsvari fyrir kortasafnahópinn sérfræðingar með þverfaglega menntun og reynslu sem tekur bæði til landfræði og safnamála. Íslensk lykilsöfn hafa ekki tekið þátt í þessu starfi, enda hefur ekki verið skilningur á málinu hér á landi. Undirritaður hefur hins vegar lengi fylgst með þessum málaflokki og sótt nokkrar áðurnefndar ráðstefnur á liðnum áratug.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .