Sérkortasafnið (135)

Á forsíðu vefsins „landkönnun.is“ hefur í nokkur misseri verið mögulegt að skoða tvö tilraunaverkefni í formi kortasjáa sem ætlað er að auðvelda framsetningu eldri korta og gamalla loftmynda á netinu, þ.e. „Vefkortasafnið“ og „Loftmyndasafnið“. Nú hefur bæst þar við þriðja kortasjáin „Sérkortasafnið“, sem gefur möguleika á að skrá og birta á einum stað þau kort af Íslandi sem eru hvorki: (1) heildarkort af landinu öllu né (2) hluti af stóru heildarblaðskiptingum kortaflokkanna sem til eru af Íslandi. Framsetningin í Sérkortasafninu byggir í grunninn á sömu hugmynd og veflausn kortasjár sem gerð var hjá Alta vegna kortasafns Orkustofnunar fyrir nokkrum árum. Til þess að geta sett fram óreglulega lagaða reiti eða ramma fyrir stök kortblöð í kortasjá fyrir kort utan heildarblaðskiptingakerfa þurfti að skrá hornhnit fyrir fjögur horn hvers einasta korts, alls átta staðsetningar í tölum, sem síðan eru umreiknaðar yfir í viðmiðun ISN93 eða síðari viðmiðanir. Orkustofnun veitti leyfi fyrir því að tekið væri afrit af þeim gögnum sem þurfti til að geta birt sérkort (kort utan heildarkortaflokka) stofnunarinnar í endurgerðri veflausn, sem gæti síðan hentað sameiginlega fyrir kort margra íslenskra stofnana og safna. Önnur kort á ábyrgð Orkustofnunar hafa jafnframt verið birt í gegnum blaðskiptingar í Vefkortasafninu, en kort frá öðrum stofnunum eru ekki komin inn í Sérkortasafnið. Gagnagrunnstaflan er því flóknari sem þessu nemur og meiri vinna að finna hornhnitin, ólíkt Vefkortasafninu þar sem nægjanlegt er að tengja saman sameiginleg reitanúmer í gagnatöflu og landupplýsingaþekju.

Framhald verkefnis um Sérkortasafnið byggir eins og áframhald Vefkortasafnsins á velvilja og áhuga þeirra sem stjórna opinberum stofnunum og söfnum sem varðveita eða báru ábyrgð á gerð korta á fyrri tíð. Þannig gæti nú orðið framkvæmanlegt að koma upplýsingum um öll opinber íslensk kort í opið aðgengi gegnum þessi tvö samræmdu kortasjárverkefni á netinu.

Vonandi verður opnun Sérkortasafnsins á netinu til þess að nauðsynleg umræða fari fram milli þeirra stofnana og safna sem báru ábyrgð á gerð íslenskra korta í gegnum tíðina, um það hvað hver og ein stofnun getur gert til að það verði mögulegt að skoða öll íslensk kort á netinu í samræmdum veflausnum. Veftólin og tæknin er til, allt opið og klárt til afnota og verkferlar þaulprófaðir, ólíkt því sem oft er í slíkum verkefnum þar sem byrja þarf á að kosta miklu til við hönnun og framsetningu birtingarumhverfisins. Hver og ein stofnun þarf hins vegar að semja lýsigögn og setja skannaðar útgáfur kortanna á opnar vefslóðir sem tengja má inn í verkefnið.  Öll gögnin í prufuverkefninu, nokkur hundruð kort, eru frá Orkustofnun sem er eina stofnunin á Íslandi sem lokið hefur birtingu allra sinna korta á netinu (um 1000 titlar). Það ber að þakka sérstaklega að stofnunin leyfði að grunnvinna sem unnin var af Alta fyrir stofnunina við vefhönnun og birtingu mætti afrita og nýta sem grunn að prufuverkefni í Sérkortasafninu. Því er allt til reiðu og mikilvægt að allar stofnanir sem um ræðir axli ábyrgð og hefjist handa.

Þær stofnanir, söfn og fyrirtæki sem að mínu mati þurfa að skoða sín mál að þessu leyti eru: Skipulagsstofnun (þúsundir skipulagskorta), Náttúrufræðistofnun Íslands (gróðurkort og jarðfræðikort), Landhelgisgæslan (sjókort), Landsvirkjun (virkjanakort), Rarik (framkvæmdakort), Vegagerðin (framkvæmdakort), Orkuveitan (fyrri gögn vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu). Landmælingar Íslands og Landsbókasafn eiga meira efni sem ætti að vera frekar aðgengilegt að koma á framfæri á opnum vefþjónum, en einnig þarf að ákveða hver sér um samantekt efnis og vefbirtingu fyrir kort gerð á vegum erlendra þjóða (Danir, Bandaríkjamenn og Bretar). Þá er eftir að nefna eitt af frávikunum sem eru skipulags- og framkvæmdakort gerð af Verkfræðideild Varnarliðsins í Keflavík sem hefur verið lögð niður. Óvissa er einnig um það hver á að kosta skráningu og framsetningu á skönnuðum kortum sem gefin hafa verið út af aðilum á markaði, bæði á vegum innlendra útgáfufyrirtækja og félagasamtaka, en einnig ferðakort á vegum erlendra fyrirtækja sem voru um tíma stórtæk á þessum markaði. Þessi kort geta ekki birst með í Sérkortasafninu og Vefkortasafninu á sama hátt og opinber kort, þar sem eignar- eða höfundarréttur þeirra er ekki hjá opinberum aðilum á Íslandi. Ef eitthvað slíkt á að taka með þarf að semja um það við aðila á markaði. Ég tel þessi síðastnefndu kort markaðsaðila eigi að vera frekar aftarlega í forgangsröðinni, en nefni þau hér með til að heildarmyndin sé ljós.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...