Fyrstu verkefnin sem miðuðust við að veita yfirsýn yfir þau gervitunglagögn sem aflað var, byggðust á kynningarefni um brautir gervitungla og reitakerfi hvers gervitungls, sem afmarkaði hvaða gögn var hægt að kaupa. Á þessum tíma fyrir daga veraldarvefsins var hægt að fá sendar sýnismyndir (Quick look) erlendis frá, en þeim var einkum ætlað að gefa hugsanlegum kaupanda möguleika til að sjá skýjahulu og meta þar með fræðilegt notagildi myndgagnanna. Jafnframt mátti fá útkeyrðar tölvuskrár til að sjá það sem í boði var. Hátt flækjustig var oft á að finna upplýsingar og því reyndust þeir fáir sem fylgdust með því hvað bættist við af nýjum gögnum af Íslandi.
Með tillögur fjarkönnunarnefndar Rannsóknaráðs að leiðarljósi hófu Landmælingar Íslands að gefa út fréttabréf til að kynna möguleika til gagnaöflunar og benda á áhugavert efni. Heimildirnar voru einkum frá jarðstöð í Kiruna í Svíþjóð þaðan sem myndefni (m.a. Landsat og Spot) var gjarnan keypt til Íslands. Notendurnir voru reyndar á þeim tíma ekki margir þannig að þessi útgáfa lagðist af eftir nokkur misseri. Reynslan nýttist hins vegar vel þegar kom að því að fara að afla Landsat gagna vegna gerðar heildarmynda af öllu landinu.
Með þróun netsins komu fram fjölmargir vefir þar sem hægt var að fá aðgang að upplýsingum um myndaforða í söfnum í eigu hinna fjölmörgu fyrirtækja sem ráku gervitungl til gagnaöflunar af jörðinni. Þessi gögn voru og eru geymd í gagnageymslum í ótal löndum víða um heim og því var tímafrekt að fylgjast með. Er tímar liðu urðu til þróaðri lausnir sem auðvelduðu notendum að finna upplýsingar um fleiri gagnaflokka á færri vefsíðum.
Hugmyndafræði fjarkönnunarnefnda Rannsóknaráðs byggði á því að hægt væri á einum stað á Íslandi að fá að vita um nýtilegt myndefni af landinu úr kerfisbundinni gagnaöflun margra gervitunglaverkefna. Með aðgengi á netinu hefur verið komið að einhverju leyti til móts við slíkar þarfir, en það hefur ekkert með að gera þá staðreynd að ekki er til aðgengileg heildarskrá yfir gagnlegar gervitunglamyndir af Íslandi. Skrá og vönduð skýrsla henni tengd varð þó til hjá Landmælingum Íslands yfir stafrænar gervitunglamyndir í fórum stofnunarinnar árið 2004 (Þórunn E. Sighvats, 2011). Þar var gerð tillaga að skráningarformi sem gæti hentað fyrir varðveislu og framsetningu á slíkum upplýsingum. Skránni í því formi sem hún var upphaflega gerð hefur hins vegar ekki svo vitað sé verið haldið við eftir að höfundur hennar hætti hjá stofnuninni (2007). Gagnsemi slíkrar heildarskrár væri mikil fyrir marga aðila ef hún yrði unnin heildstætt. Þórunn gaf sjálf út skrána sem var lokaverkefni í bókasafns- og upplýsingafræði.
Til þess að opna aðgengi að eldri stafrænum gervitunglagögnum þarf að hafa aðgang að hugbúnaði uppsettum á tölvu þar sem hægt væri að setja hina ólíku gagnamiðla í margs konar drif til að lesa gögnin og afrita þau til afhendingar. Landmælingar Íslands aflögðu slíkan búnað fljótlega eftir að stofnun var flutt á Akranes um áramót 1998-1999 og því eru mikilvæg eldri gögn sem búið er að kaupa fyrir opinbert fé, rétta upp, randahreinsa, birtujafna og nýta í afmörkuð verkefni, ekki aðgengileg í dag, þó þau séu í rauninni „til“, en mikilvægi þeirra sem samanburðargagna eru óumdeilt fyrir marga. Sama er líklega hægt að segja um elstu gervitunglagögnin á mörgum stöðum hér á landi þar sem þau eru til, að stofnanirnar hafa ekki lengur yfir að ráða búnaði til að lesa gömlu gögnin af ólíkum segulmiðlum í diska-, spólu- eða kassettudrifum og afrita þau til notkunar. Því er hluti af þeim gervitunglagögnum sem keypt voru fyrstu tvo áratugina í rauninni ónothæf og hugsanlega í hættu á að eyðileggjast því ólíklegt er að segulmiðlarnir hafi verið geymdir við „réttar“ varðveisluaðstæður.
Ég tel nauðsynlegt að gerð verði skrá yfir þau stafrænu gervitunglagögn sem til eru í landinu með samnýtingu þeirra í huga fyrir marga notendur. Á sama hátt verði reynt að taka saman skrár yfir „bestu“ gervitunglagögn sem til eru af landinu frá ýmsum tímum frá öllum helstu gervitunglum sem tekið hafa myndir af Íslandi og gera áætlun um það hvaða efni eigi að fá til landsins vegna samanburðar í framtíðinni. Elstu gögnin kosta oft lítið en telja verður hættu á að aðgengi að elstu gögnunum verði ekki lengur til staðar að nokkrum árum eða fáum áratugum liðnum. Því þarf að bregðast við og safna efni, koma því til varðveislu og skipuleggja reglubundna afritun vegna varðveislu til langrar framtíðar. Slík skipulagning og framkvæmd er hluti af ósaminni varðveislustefnu fyrir landfræðileg gögn af Íslandi. Verkefnið er hins vegar engan veginn á byrjunarreit þar sem fyrirmyndin að skráningarformi fyrir gervitunglamyndir er til eins og komið hefur fram.
Þorvaldur Bragason