Skráning og aðgengi loftmynda (107)

Loftmyndasöfn heimsins eru á margan hátt eins ólík og þau eru mörg og það hefur ekki svo vitað sé náðst sérstök samstaða um samræmingu í loftmyndaskráningu innan landa eða milli landa. Þó má ætla að ýmis söfn út um heim noti sambærilegar aðferðir, enda hafa verið gefnar út sértækar skýrslur um skráningarmál á tilteknum söfnum sem ýmsir hafa notað sem fyrirmyndir. Loftmyndasöfnin þrjú á Íslandi (hjá Landmælingum Íslands, Loftmyndum ehf. og Samsýn) eru öll skráð með ólíkum hætti. Þau eru misaðgengileg og engin umræða hefur farið fram um neins konar samræmingu skráningar milli þeirra svo vitað sé, enda kannski ekki líklegt þar sem fyrirtækin tvö í þessum hópi eru samkeppnisaðilar á markaði og það þriðja ríkisstofnun.

Það sem birt hefur verið á þessu sviði er dreift víða og skrifað á ýmsum tímum. Í útgáfu staðalsins ISO 19115-2 er komið inn á skráningu fjarkönnunargagna, en þar er meira verið að huga að myndgrunnum loftmynda eða gervitunglagagna sem nýtast eins og önnur kortagögn í landupplýsingakerfum. Þar er ekki verið að eyða sérstöku púðri í fyrirkomulag á skráningu einstakra loftmynda sem teknar hafa verið á filmur, heldur er hugsað meira um sérunna samsetta myndgrunna.

Í greininni „ Varðveisla fjarkönnunargagna á Íslandi og aðgengi upplýsinga um þau“ í tímariti landfræðinga á Íslandi, Landabréf 2007, er komið inn á hugmyndir tveggja Dana (Bövith og Petersen) sem unnu meistaraverkefni sín á þessu sviði við danska háskóla fyrir tæpum tveimur áratugum. Hjá þeim er meðal annars verið að ræða stigskiptingu skráningar fyrir loftmyndir, þar sem fjallað var um æskilega þrískiptingu: a) loftmyndasafn, b) loftmyndaflokkur og c) loftmynd.

Lagt var til í fyrrnefndri grein að ef þessi skipting væri hugsuð fyrir íslenskar loftmyndir, kæmu heiti safns, heildarmyndafjöldi, tímabil myndefnis (árabil) og stutt lýsing fram um hvert loftmyndasafn (a).  Sértækari upplýsingar kæmu síðan um loftmyndaflokkana innan hvers loftmyndasafns eins og: heiti flokks, myndatökutímabil (árabil), fjöldi mynda í hverjum flokki, myndastærð og ábyrgðaraðili, en slíkt á sérstaklega við um loftmyndasafn LMÍ þar sem fjöldi aðkominna myndaflokka er geymdur í safninu og myndatakan var á vegum annarra aðila en stofnunarinnar þó gögnin séu geymd í safninu (b). Fyrir hverja loftmynd þarf síðan a.m.k. að skrá til viðbótar: myndarnúmer, fluglínunúmer, dagsetningu, filmugerð, flughæð, brennivídd linsu, staðsetningu, vefslóð vegna skoðunar myndar, svæðisheiti og athugasemdir, til dæmis ef ský eru á myndinni, snjór á myndatökusvæðinu eða annað sem hamlar fullkominni notkun myndarinnar (c).

Fyrrnefnd atriði eru flest þekkt eða ættu að vera til um allar íslenskar loftmyndir. Verið getur að skrár séu ekki alls staðar jafn ítarlegar hjá söfnunum, en þessi atriði er yfirleitt auðvelt að sjá á myndum, finna út frá myndunum eða fá þær í öðrum gögnum um flugið. Það ætti því ekki að vera sérstök fyrirstaða í slíkri skráningu, önnur en kostnaður sem er að stærstum hluta fólginn í vinnutíma viðkomandi starfsmanna, á hvers vegum sem þeir væru.

Tvennt er þó sem gæti þvælst fyrir. Til að koma á beinu aðgengi að smámyndum af loftmyndunum á netinu er nauðsynlegt að tvennt sé til staðar: myndirnar þurfa að vera til stafrænar og hornpunktar og/eða myndarmiðjur þurfa að vera þekktar. Myndasafn LMÍ er vel skráð, en þar er enn innan við helmingur safnsins skannaður (um 60.000 af 140.000), auk þess sem staðsetningarhnit eru ekki skráð nema að mjög litlu leyti. Myndasafn Loftmynda ehf er allt til skannað, en nokkrir fyrrnefndra skráningarþátta birtast ekki í skráningarfærslum á netinu og þyrfti því að bæta þeim við. Aðgengi að þessu myndasafni með nálgun gegnum kort- eða myndgrunn í kortasjá er hins vegar best. Netaðgengi er ekki að stökum loftmyndum í safni Samsýnar.

Einn kosturinn við þrískiptinguna í loftmyndasöfn, loftmyndaflokka og loftmyndir er sá að sama fyrirkomulag mætti jafnframt hafa við skráningu og upplýsingaaðgengi á netinu fyrir annars vegar íslensk kort og hins vegar gervitunglagögn af landinu. Með slíkri samþættingu lokast hringurinn, þar sem til gæti orðið: a) skrá yfir söfn landfræðilegra gagna, b) skrá yfir flokka landfræðilegra gagna og c) skrá yfir hvert eintak í fyrrnefndum þremur gagnaflokkum landfræðilegra gagna.

Tekið skal fram að þessi nálgun, efnis- og stigskipting og hugmyndafræði er algerlega utan við það sem fellur undir INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins um stafræn landupplýsingagögn. Tilskipunin tekur fyrst og fremst til skipulegra stafrænna gagnasetta, þar sem búið er að vinna gögnin með fyrirfram skilgreindum hætti samkvæmt tæknilýsingum, en tekur ekki til landfræðilegra frumgagna eins og hefðbundinna korta, loftmynda og gervitunglamynda. Hér er því um allt aðra nálgun og efni að ræða, þ.e. skráningu og aðgengi upplýsinga um safnkost landfræðilegra frumgagna, sem INSPIRE tilskipunin hvorki sinnir né nær til. Að skráningu og aðgengismálum korta, loftmynda og gervitunglagagna á netinu þarf því að vinna á sjálfstæðum vettvangi, öðrum en innan verkefnis um innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar á Íslandi.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .