Skráning og aðgengi loftmyndasafna (90)

Til að geta veitt gott aðgengi að efni loftmyndasafna þarf að koma til ítarleg og vönduð myndaskráning. Möguleikar til að skrá loftmyndir eru margvíslegir en almennt verður að segja að ekki er vitað til að gerðar hafi verið markvissar tilraunir  til samræmingar slíkrar skráningar og framsetningar á efni með samstilltum hætti hnattrænt eða milli margra landa. Skráning loftmyndasafna hefur því gjarnan verið á forsendum hverrar stofnunar sem aflað hefur loftmynda til starfsemi sinnar þar sem til hafa orðið myndasöfn, eða á forsendum fyrirtækja á markaði sem starfa í þessari grein. Í mörgum tilfellum hafa þó ákveðnar lausnir og góðar fyrirmyndir um skráningu verið nýttar af fleirum.

Á fyrstu áratugum loftmyndatökutækninnar var aðeins á færi opinberra stofnana eða hermálayfirvalda víða um lönd að sinna að einhverju ráði loftmyndatöku vegna kortagerðar og rekstri ljósmyndastofa fyrir gerð mynda á þessu sviði, enda filmur, tæki og tilheyrandi búnaður stærri en annað sem þekkist á sviði almennrar ljósmyndatækni. Stafræn loftmyndatökutækni hefur á síðustu árum breytt áðurnefndum málum nokkuð en grunnhugsunin um samræmingu skráningarmála er enn of skammt á veg komin. Þá hefur ný framsetningartækni komið til sögunnar sem auðveldar aðgengi að upplýsingum um ákveðin myndasöfn til mikilla muna. Með tímanum komu víða um lönd ný fyrirtæki inn á þennan loftmyndatökumarkað, en þau hafa mörg orðið öflug og jafnvel tekið alveg yfir fagsvið sem stofnanirnar sinntu einar áður. Slík þróun hefur til dæmis orðið hér á landi.

Á Íslandi eru nú þrjú megin loftmyndasöfn. Stærst þeirra er loftmyndasafn Landmælinga Íslands með um 140.000 loftmyndum, en eftir árið 2000 hafa ekki bæst nýjar loftmyndir í safnið. Næst í röðinni er myndasafn Loftmynda ehf með yfir 70.000 loftmyndum og loftmyndasafn Samsýnar sem er minnst þessara safna og geymir einhverja tugi þúsunda loftmynda. Heildarfjöldi loftmynda af Íslandi gæti því allt eins verið að nálgast 250.000 myndir.

Ein þeirra leiða sem notuð var til að gefa yfirsýn yfir stóra loftmyndaflokka var lengi vel sú að búa til samsettar yfirlitsmyndir, svonefnd „myndamosaik“, þar sem snertimyndum „kontakt myndum“ sem gerðar voru beint með kóperingu eftir loftmyndafilmunni, var raðað saman eins og „hreisturflögum“ og síðan tekin mynd af samsetningunni. Með því að skoða samsettu yfirlitsmyndirnar mátti þannig finna bestu myndirnar af landsvæðunum sem myndaflokkarnir sýndu, en númeralistar, einföld yfirlitskort og skýringar fylgdu annað hvort með eða höfðu verið kóperaðir inn á yfirlitsmyndina. Dæmi um þetta eru yfirlit sem sýna loftmyndir sem Bandaríkjamenn tóku á Íslandi 1945-1946 (AMS) og 1956-1961 (DMA).

Önnur leið var að teikna fluglínurnar inn á staðfræðikort, sem voru þá tekin fram þegar velja þurfti myndir til eftirgerðar hvort sem var fyrir starfsemi kortastofnana eða aðra notendur myndanna. Á áttunda áratug síðustu aldar voru gerðar tilraunir einkum í Bandaríkjunum og Kanada, með að búa til skráningarkerfi sem byggðu á örfilmutækni, en með þeim hætti mátti fjölfalda og dreifa skráningargögnum og þar með auðvelda notendum utan stofnananna sem geymdu loftfilmusöfnin að finna myndefni til eftirgerðar. Þessi leið var farin hjá Landmælingum Íslands upp úr 1980 og verður fjallað um það verkefni í sérstökum pistli síðar.

Með þróun tölvutækninnar færðust myndaskrárnar á leitarbært form á vefsíðum stofnana og fyrirtækja. Fyrst um sinn var dýrt að skanna og birta afrit af loftmyndunum í takmarkaðri  upplausn á netinu, en þegar kom fram á þessa öld opnuðust smám saman hagkvæmari leiðir til þess. Þróun kortasjáa breytti öllum möguleikum til að veita aðgengi að upplýsingum til hins betra, hvort sem myndfletir voru afmarkaðir með römmum eða settir fram sem miðjupunktar hverrar myndar. Dæmi um aðgengilega framsetningu í kortasjá  með punktum fyrir myndarmiðju og mismunandi myndatökutímabil má finna í loftmyndakortasjá Loftmynda ehf.

Hugmyndir um samræmda myndaskráningu hafa komið fram erlendis og má þar til dæmis nefna skrif tveggja danskra sérfræðinga, Bövith og Petersen, þar sem gerðar voru tillögur að lagskiptingu skráningar. Skiptingin var þá eftir því hve ítarlega væri nauðsynlegt að skrá og birta upplýsingar um myndir, allt eftir markmiðunum með framsetningu upplýsinganna. Tillögunar hafa verið skoðaðar í ljósi íslensks veruleika og hugleiðingar þar um verið birtar í grein þar sem reynt hefur verið að meta hvernig nýta mætti slíkar hugmyndir hér á landi. Ég teldi gilda ástæðu til að skoða þetta nánar og ræða mögulega samstillingu á kjarnaþáttum í skrám áðurnefndra þriggja loftmyndasafna hér á landi. Skrár myndsafnanna þriggja eru mismunandi að gerð og ólíkar í uppbyggingu, en í þeim öllum er ákveðinn sameiginlegur kjarni atriða sem má nýta í slíkri samræmingu. Tækni til að birta upplýsingar um íslensk loftmyndasöfn í kortasjám er nú þegar til, en mismikil vinna ætti eftir að fara fram við samræmingu og uppfærslu vegna stafrænnar framsetningar margra loftmyndaflokka í kortasjám. Myndasafn Loftmynda ehf er aðgengilegast þessara safna. Ekki er vitað um stöðu heildarskráa um loftmyndasafn Samsýnar, en allar myndir safnsins hafa skráð staðsetningarhnit á hverri mynd.

Loftmyndasafn LMÍ á líklega lengst í land hvað þetta varðar þrátt fyrir annars góðar og ítarlegar myndaskrár, en myndakosturinn er eldri en hinna tveggja safnanna og ekki fór fram nákvæm skráning staðsetningarhnita þegar safnið var skráð í núverandi mynd. Ástæðurnar voru tæknilegar, enda nokkrir áratugir síðan safnið var vandlega skráð eftir þeirra tíma aðferðum, þ.e. fyrir tíma GPS tækninnar. Þó hnitsetningu myndanna í safninu vanti er aðgengi þess á netinu líklega eins gott og það getur orðið við núverandi aðstæður, þegar tekið er tillit til fyrrnefndra annmarka.  Ef aðgengi upplýsinga um loftmyndir loftmyndasafns LMÍ eiga að verða aðgengilegar í samræmdu formi á einhvern sambærilegan hátt og sýnt er í loftmyndasjá Loftmynda ehf. liggur ljóst fyrir að hnitsetja þarf allt safnið, sem gæti jafnvel tekið einhver misseri í vinnu.

Á nýrri vefsíðu „landkönnun.is“ sem opnuð var í maí 2018, eru nú aðgengilegar á einum stað á netinu ýmsar upplýsingar um íslensku loftmyndasöfnin þrjú.

Þorvaldur Bragason

Nánari heimildir: Þorvaldur Bragason og Guðrún Gísladóttir, 2007: Varðveisla fjarkönnunargagna á Íslandi og miðlun upplýsinga um þau. Landabréfið, 23(1) 3-24.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .