Landmælingar Íslands hafa uppfært vefsjána Myndaskjá, sem birt hefur upplýsingar um loftmyndir og Landsat gervitunglagögn undanfarin misseri. Umsýsluhugbúnaðurinn hefur verið uppfærður og framsetningarhluti hans hefur fengið nýtt útlit, en sú vinna hefur farið fram í samstarfi við Samsýn. Gögnin í myndaskjánum byggjast á um 70 gervitunglamyndum af landinu frá tímabilinu 2002-2007, en þær komu frá franska gervitunglinu SPOT-5. Þessi gögn voru upphaflega keypt til landsins í samstarfi fjölmargra íslenskra stofnana og sveitarfélaga. Landmælingar Íslands fengu síðan fyrirtækið GAF í Þýskalandi til að skeyta myndunum saman þannig að þær líti út sem ein heildarmynd af öllu landinu. Heildarmyndin er birt þannig að hver myndeining sýnir 10×10 metra reit á yfirborði, en Spot-5 gögn geta haft allt að 2,5 metra greinihæfni.