Í hefðbundinni bókaskráningu gegnum tíðina hafa skráningarþættir eins og „höfundur, titill og flokksnúmer“ yfirleitt verið taldir mikilvægustu skráningarþættirnir og í skráningu korta í bókasöfnum hefur sama vinnulag gjarnan verið látið gilda. Mikilvægustu skráningarþættirnir fyrir kort eru hins vegar þættir eins og „svæði (staðsetning), titill, kortnúmer og mælikvarði“. Fyrrnefnt vinnulag leiddi hins vegar til þess að leit að kortum í söfnum gat stundum verið mjög tímafrek og var oft ekki nægilega skilvirk. Til þess að bregðast við þessu vandamáli var í árdaga tölvutækni og landupplýsingakerfa farið að leita leiða til að skrá hornhnit korta með stafrænum samræmdum hætti til að útbúa skráningarkerfi fyrir rafræna leit.
Á árunum uppúr 1980 var farið að þróa hugmyndir að nýju skráningarkerfi fyrir kort í Edinborgarháskóla í Skotlandi. Kerfið var síðan þróað fyrir gríðarstórt breskt kortasafn og í framhaldi af því aðlagað að markaðsvænni hugbúnaðarlausn fyrir smærri kortasöfn og þá hugsað fyrir PC tölvur. Kerfið sem fékk heitið Carto-Net kom á markað í lok níunda áratugarins og var fylgt eftir með greinaskrifum í nokkrum þekktum landfræðitímaritum.
Kerfið var fyrst og fremst hugsað sem lausn á vandamálinu við að halda utan um og birta gegnum blaðskiptingu á skjá, fullkomna bókfræðilega skráningu á kortum sem væru hluti af stórum kortaröðum eða kortaflokkum byggðum á kerfisbundinni útgáfu samkvæmt heildarblaðskiptingum. Þó frumgerð hugbúnaðarins væri gerð fyrir kortasafn sem geymdi mörg hundruð þúsund titla í London var talinn markaður fyrir PC útgáfu sem gæti hentað söfnum um allan heim með nokkrum þúsundum eða tugum þúsunda kortatitla. Í kerfinu var hægt að setja fram blaðskiptingar eða reitaskiptingar kortaramma en einnig hægt að meðhöndla afbrigði í afmörkun og lögun einstakra kortblaða. Þegar notandi gerði leit að kortum í kerfinu var hægt að skilgreina ramma á skjánum og setja fram ákveðin leitarskilyrði og bar þá kerfið saman rammann og skráningarfærslur innan svæðisins og sýndi þá reiti á skjánum yfir þau kortblöð sem féllu að leitarskilyrðunum. Yfirlitskortið og skrár mátti síðan prenta út.
Þó skráningarhugbúnaðurinn yrði ekki verðmæt markaðsvara þrátt fyrir að hann væri raunveruleg lausn fyrir kortasöfn um allan heim, voru nokkur söfn sem tóku hann í notkun að minnsta kosti um tíma. Hugmyndafræðin frá Edinborg dreifðist hins vegar víða og er til dæmis talin hafa haft áhrif á þekktasta tilraunaverkefni í framsetningu korta á netinu fyrir síðustu aldamót, Alexandria Digital Library í Bandaríkjunum. Í því verkefni, sem stutt var meðal annars af bandarísku geimferðastofnuninni NASA, var markmiðið meðal annars að auðvelda kennslu og aðgengi gegnum leitarsíður og kortasjár á netinu að kortagögnum (einkum kortum, loftmyndum og gervitunglagögnum) fyrir landfræðikennslu á ýmsum stigum náms í bandarískum háskólum.
Hugbúnaður Carto-Net náði aldrei til Íslands þrátt fyrir að hann væri skoðaður með skráningu kortasafns hér á landi í huga. Hugmyndafræði verkefnisins er hins vegar enn í fullu gildi og áhugaverðar hugbúnaðarlausnir sem hafa verið í þróun á netinu eins og Old Maps Online og CartoMundi byggja að einhverju leyti á henni. Í þessu felast því enn möguleikar fyrir okkur hér á landi að fara svipaðar leiðir í framsetningu upplýsinga um íslenskar kortaraðir í gegnum kortasjár.
Þorvaldur Bragason