Tilraunaverkefni – Kortavefsjá 1:25 000 (39)

Litlar umræður hafa farið fram um mikilvægi íslenskrar kortavefsjár, þ.e. kortasjár til að sýna blaðskiptingar kortaflokka, kortaskrár og myndir af kortum sem gerð hafa verið og varðveitt eru í söfnum og á stofnunum. Þó að reynt hafi verið að vekja athygli á málinu á liðnum árum hefur umræðan hins vegar ekki fengið neinar sérstakar undirtektir. Ekki er gott að segja til um hvað veldur, en þar blandast án efa saman áhugaleysi og takmörkuð þekking margra á þeim tólum og tækni sem til þarf. Það er eitt að benda á mikilvæg og áhugaverð verkefni eins og gert hefur verið á landakort.is, annað að bera ábyrgð og framkvæma vinnslu þeirra. Ábyrgðin á verkefni á þessu sviði ætti að vera hjá Landsbókasafni og Þjóðskjalasafni, en söfnin hafa hvorki unnið slík verkefni eða tekið þátt í umræðu um mikilvægi þeirra. Á árinu 2014 sköpuðust aðstæður til að láta reyna á uppsetningu verkefnis á þessu sviði á Orkustofnun, enda hafði töluverður hluti efnis sem til þurfti orðið til við vinnslu annarra verkefna fyrir Orkuvefsjá stofnunarinnar. Kostnaður af aðkeyptri þjónustu var því enginn.

Orkustofnun hefur á síðustu misserum rekið tvær kortasjár á netinu, sem byggja á hugbúnaði (Flashmap) frá hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín, en auk þess eru innri kortasjár til á kerfi stofnunarinnar, einungis ætlaðar fyrir innri notkun. Þegar hugmynd að prufuverkefni á þessu sviði var rædd við forsvarsmenn Gagarín, fékkst góðfúslegt leyfi til að nota búnaðinn og prófa að setja sérstaka útgáfu hans upp í þessum tilgangi á innra kerfi stofnunarinnar. Notaðar voru formskrár (shp skrár) sem gerðar höfðu verið vegna framsetningar á blaðskiptingum korta Orkustofnunar og Landsvirkjunar í mælikvarða 1:25 000 í Orkuvefsjá. Ákveðið var að nota prufuverkefnið um gerð kortavefsjár sem leið til að greina eitt af merkari kortaverkefnum landsins á síðari árum, þ.e. kortagerð fjögurra stofnana á kortum í mælikvarða 1:25 000 á tveimur síðustu áratugum síðustu aldar. Haft var samband við Náttúrufræðistofnun vegna gróðurkorta 1:25 000 og við Landmælingar Íslands vegna útgefinna korta og handrita að kortum sem orðið höfðu til í tilraunaverkefni um kortagerð í mælikvarða 1:25 000 á árunum 1992-1994. Leyfi var auðfengið til að nota rastaútgáfur kortanna í verkefninu.

Valið var að skipta kortum 1:25 000 í tvo meginflokka í kortasjánni, annars vegar prentuð kort (5 flokkar) og hins vegar óútgefin kort (6 flokkar). Undirliggjandi kortgrunnar eru eins og í Orkuvefsjá OS, tveir hæðarskyggðir grunnar gerðir af ÍSOR fyrir OS og síðan SPOT heildarmyndin af Íslandi, sem Landmælingar Íslands stóðu fyrir gerð á fyrir nokkrum árum.

Með því að smella á kortaflokk í vallista birtast blaðskiptingar með reitum kortaflokksins og með því að smella á einstaka reiti má fá fram lýsigögn um hvert kort ásamt tengli sem vísar á rastamynd af sjálfu kortinu. Samhliða má fá fram fróðleikstexta um kortaflokkinn og lýsigögn um gagnaþekjuna sem notuð er vegna birtingarinnar. Með því að opna allar þekjurnar í einu má sjá yfirlit yfir öll kortin í kortaflokknum. Þar kemur fram yfirlitsmynd sem aldrei hefur áður verið til og birt með sama hætti.

Verkefnið gekk vel eins og vænst hafði verið og á fáum dögum varð til á innri vef stofnunarinnar tilraunaútgáfa sem gefur tilefni til að ætla að hægt sé að vinna slíkt verkefni fyrir allar gerðir korta í landinu frá öllum stofnunum sem bera ábyrgð á slíkum gögnum. Það er hvorki ástæða né nauðsyn til að nota þann hugbúnað sem lagður var til grundvallar í þessu verkefni, ef annar hentugri og öflugri er til staðar, en slíkir hugbúnaðarpakkar eru vel þekktir erlendis. Það hefur hins vegar verið sýnt fram á að slíkt verkefni er vel framkvæmanlegt hér á landi ef reynsla og vilji er til staðar. Í þessu tilfelli var til staðar fjölhæfur og reyndur starfsmaður OS, Hilmar Sigvaldason, sem vann tæknilega að verkinu og tengdi saman ólíkustu skrár og landupplýsingagögn hvort sem þau voru í gagnagrunnum, landupplýsingakerfum eða rastamyndir á ýmsu formi. Aðgengi að kortavefsjánni var nýlega opnað á Netinu sem gefur tilefni til rýna betur í möguleika til framsetningar upplýsinga um íslensk kort og að hefja þverfaglega umræðu milli nokkurra safna og opinberra stofnana um möguleika á sérstöku landsverkefni til framtíðar á þessu sviði.

Tilraunaverkefni – Kortavefsjá 1:25 000

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .