Um gagnaskort og stórstraumsfjörumörk (115)

Hvað er til ráða ef stofnun sem hefur ákveðna sérhæfingu og starfsmenn með sérfræðiþekkingu á tilteknu sviði fær ekki fjármagn til að afla ákveðinnar gerðar gagna á starfssviði sínu, sem leiðir þá til þess að stofnunin getur ekki afhent samfélaginu slík gögn í formi gagnasetta þó lög geri ráð fyrir að gögnin séu til og skuli notuð af öðrum? Ef þörf margra stofnana er fyrir ákveðnar tegundir gagnasetta og nauðsyn slíkra upplýsinga er jafnvel bundin í lögum um margar stofnanir hlýtur óhjákvæmilega að vakna spurning um það hver beri ábyrgð á að aðrar stofnanir samfélagsins líði fyrir skort á ákvarðanatöku? Er það ráðuneyti viðkomandi stofnunar eða stofnunin sjálf? Eitt umtalaðasta dæmið hér á landi á þessu sviði eru stórstraumsfjörumörk. Stórstraumsfjörumörk eru sýnd á sjókortum í stórum mælikvörðum, en um er að ræða tiltölulega afmarkaðan hluta af strandlengju landsins.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar liggja beinar mælingar á stórstraumsfjöruborði ekki fyrir nema í einstaka tilfellum þegar litið er til landsins alls. Þar sem staðhættir eru þannig, t.d. að útfiri er mikið og munur flóðs og fjöru er verulegur, kemur stórstraumsfjöruborð fram þegar skipulegar dýptarmælingar fara fram nærri landi. Þannig mun megninu af þeim litlu upplýsingum sem til eru um stórstraumsfjöruborð hafa verið safnað í gegnum árin. Ekki mun til sérstakt yfirlit yfir hvar upplýsingar liggja fyrir né hversu góð fyrirliggjandi gögn eru. Í fjölmörgum lögum og reglugerðum er vísað beint í stórstraumsfjöruborð eða netlög sem miða við 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Þessi stjórnsýslumörk eru meðal þeirra marka sem einna oftast mun vísað til í íslenskum lögum eða reglugerðum. Ábyrgðin á að kortleggja stórstraumsfjörumörkin virðist ekki vera ljós þó flestir telji hana vera hjá þeim sem gefur út sjókortin. Ef ábyrgðin er ekki alveg klár er ekki seinna vænna að skera þar úr um og fela ákveðnum aðila verkefnið sérstaklega með ákvæði í lögum eða reglugerð ásamt fjárveitingum.

Landhelgisgæsla Íslands hefur það verkefni samkvæmt lögum að gefa út og viðhalda sjókortum. Sjómælingar og sjókortagerð virðast hafa verið í töluverðu fjársvelti um langan tíma og því hefur til dæmis gagnasett um stórstraumsfjörumörk ekki komist á dagskrá. Nýlega hófust þó tilraunir á afmörkuðum svæðum í samstarfi við og að frumkvæði Landmælinga Íslands með að nýta gervitunglagögn til að afla þeirra upplýsinga sem þarf til að hægt sé að útbúa gagnasett um stórstraumsfjörumörk.
Í ýmsum lögum, meðal annars þeim sem lögð eru til grundvallar um leyfisveitingar á grunnsævi kringum landið, er krafa um að leyfi skuli ekki veitt á svæðum nær landi en sem nemur 115 metrum frá stórstraumsfjörumörkum. Slíkt gagnasett er semsagt ennþá ekki til og ekki vitað hvernig áðurnefndar tilraunir takast, hvað þá að vitað sé hvenær gervitunglagögn og svo vektor gögn verði til af stórstraumsfjörumörkum kringum allt landið. Það gæti tekið mörg ár jafnvel þó fjármagn fáist.
Á meðan þurfa þær stofnanir sem gefa út ýmis leyfi, hvort sem er til efnistöku í sjó, fiskeldis eða annars að gefa leyfi út með fyrirvörum um að þar sem stórstraumsfjörumörk séu ekki til sem gagnasett, þurfi að miða við strandlínu. Viðmið um 115 metra frá strandlínu getur auðvitað verið nærri lagi ef sæbratt er, en þar sem þannig háttar til að fjörur eru miklar og grunnsævi, geta leyfissvæðamörk miðuð við strandlínu verið langt frá þeirri línu sem ætti að vera miðað við út frá stórstraumsfjörumörkum. Leyfisveitendur hafa því ekki forsendur til að gefa út hárrétt leyfissvæði, sem gerir þeim stundum erfitt fyrir um að sýna „réttan“ leyfisfláka þar sem flákar eru birtir í kortasjám á netinu. Þetta er auðvitað ekki það sem lög gera ráð fyrir. Ef stofnun sem þarf að vinna kortagögn fyrir aðra fær ekki fjármagn til að vinna verkefni á fagsviði sínu verður ráðuneyti hennar að grípa inní og útvega fjármagnið. Það er ekki forsvaranlegt að láta aðrar stofnanir þurfa að leysa leyfisveitingar með þeim hætti sem fyrr greinir.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .