Um kortagerð og gögn Dana 1900-1944 (81)

Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi á tímabilinu 1900 til 1944 er af flestum talið merkasta kortagerðarverkefni Íslandssögunnar. Um sögu þessa gríðarmikla verkefnis, sem einhverjir hafa talið hafa verið allt að 1000 ársverk, má lesa í tveimur merkum bókum. Sú fyrri „Islands kortlægning“ eftir Niels Erik Nörlund fyrsta forstjóra Geodætisk Institut í Kaupmannahöfn kom út í stóru broti lýðveldisárið 1944 og sú síðari „Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands“ eftir Ágúst Böðvarsson fyrrverandi forstjóra Landmælinga Íslands, kom út árið 1996. Í þessum bókum er sagan rakin ítarlega í texta og myndum, en frumgögn úr verkefninu hafa fyrir löngu verið afhent Íslendingum, þar á meðal ljósmyndir, loftmyndir, skýrslur, mælingar, teikningar, filmur og  prentplötur svo eitthvað sé nefnt. Mest af þessu efni hefur verið geymt hjá Landmælingum Íslands, nú síðustu tvo áratugina á Akranesi, en eitthvað hefur verið sent til varðveislu á Landsbókasafni, Þjóðskjalasafni og Þjóðminjasafni, þar sem allur þessi menningararfur mun að lokum varðveitast allt eftir því um hvers konar efni er um að ræða.
Landmælingar Íslands tóku við verkefni Dananna þegar Íslendingar voru komnir úr ríkjasambandinu við Danmörku. Vísir að stofnuninni var fyrst deild innan Vegagerðar ríkisins en síðar sjálfstæð stofnun frá árinu 1956. Ágúst Böðvarsson sem hóf störf árið 1930 hjá dönskum landmælingamönnum, menntaði sig á þessu sviði í Danmörku og leiddi síðan Íslendinga inn á braut kortagerðarinnar. Geir Zoega vegamálastjóri varð fyrsti forstjóri LMÍ 1956-1959, en þá tók Ágúst Böðvarsson við og gegndi starfinu til ársins 1976 er hann fór á eftirlaun. Ágúst sá um menntun starfsmanna á þessu fagsviði samkvæmt fyrirmynd frá Geodætisk Institut og úr þeim farvegi komu margir íslenskir kortagerðarmenn, meðal annarra þeir Ágúst Guðmundsson sem varð síðar forstjóri LMÍ 1985-1998 og Svavar Berg Pálsson sem stýrði kortadeild LMÍ lengst af. Eftir að Ágúst Böðvarsson hætti og áður en Ágúst Guðmundsson tók við forstjórastarfinu gegndi Bragi Guðmundsson mælingaverkfræðingur stöðu forstjóra LMÍ 1976-1985. Forstjóri LMÍ frá 1999 hefur verið  Magnús Guðmundsson.
Verkefni Dananna gekk þannig fyrir sig í stórum dráttum að landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske afdeling) hóf grunnlínumælingar árið 1900. Kortlagningin fór fyrst fram á Suðurlandi og síðan var farið vestur um land og hætt eftir sumarið 1914, enda styrjöld þá hafin í Evrópu. Haldið var áfram 1919-1920 og endað í Skagafirði, en mælingarnar lágu síðan niðri á tímabilinu 1921-1929.  Þegar mælingarnar hófust aftur sumarið 1930 hafði ný stofnun Geodætisk Institut tekið við verkefninu. Mælt var áfram austur um land og mælingunum lokið af miðhálendinu sumarið 1939. Loftmyndir voru teknar af hálendi Íslands sumrin 1937 og 1938 og voru upplýsingar frá þeim tengdar mælingum úti í Kaupmannahöfn á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, en það skilaði sér í síðustu kortunum í mælikvarða 1:100 000. Verkinu var í raun formlega lokið með útgáfu Atlasblaðanna 87 í mælikvarða 1:100 000 sem birtust í fyrrnefndri bók Nörlunds.
Við vinnunna urðu til afar margþættar heimildir sem afhentar hafa verið Íslendingum. Meðal þess efnis eru svonefndar bæjateikningar, stórkostleg og listilega teiknuð kort í stórum mælikvarða af afmörkuðum svæðum og sýna þær vel á fimmta hundrað sveitabæi og þéttbýlisstaði á landinu. Þá er að sama skapi mikið til af nákvæmum örnefnakortum, með mun fleiri örnefnum en notuð voru á hinum endanlegu útgáfum prentaðra korta.
Helsti afrakstur kortagerðar Dananna í formi útgefinna korta eru kortaraðir í mælikvörðum 1:50 000, 1:100 000, 1:250 000 og veggkort sem notuð voru sem skólakort í marga áratugi hér á landi. Í þá rúmu hálfa öld sem leið frá því að Danirnir luku kortagerðinni og fram yfir síðustu aldamót, var eitt af verkefnum Landmælinga Íslands að viðhalda og endurskoða ferðakort sem byggðu annað hvort að einhverju eða miklu leyti á áðurnefndri vinnu, eftir því hvaða kortaflokka var um að ræða. Mörg ferðakort stofnunarinnar nýttu því í grunninn annað hvort heimildir frá vinnu dönsku kortagerðarmannanna eða gögn frá kortum Bandaríkjamanna frá því eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Það má því segja að þetta efni Dananna hafi með einum eða öðrum hætti fylgt verkefnum stofnunarinnar fram á 21. öldina, en í byrjun hennar var stofnuninni með stjórnvaldsákvörðun gert að hætta kortagerð og kortaútgáfu. Þar með lauk aldarlangri útgáfusögu korta sem byggði á hinu mikla kortagerðarverkefni Generalstaben og Geodætisk Institut.
Í næstu pistlum verður fjallað sérstaklega um nokkra kortaflokka frá Dönum og Bandaríkjamönnum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .