Um landakort.is

mynd-493

Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi, ætluð öllum þeim sem þurfa að finna efni um landfræðileg gögn og tengd málefni í víðasta skilningi á veraldarvefnum. Gáttinni er ætlað að vera vettvangur fyrir upplýsingamiðlun um landfræðilegt efni, en einnig farvegur fyrir skrif um stöðu landfræðilegra/landrænna gagna og tengdra málaflokka. Eigandi og ábyrgðarmaður landakort.is er Þorvaldur Bragason landfræðingur og upplýsingafræðingur, en hann hefur starfað lengi á þessum vettvangi, fyrst um eins árs skeið hjá Landsbókasafni Íslands, þá í aldarfjórðung hjá Landmælingum Íslands, lengst af sem deildar- og sviðsstjóri og hefur nú í tæpan áratug gegnt starfi verkefnisstjóra gagnamála á Orkustofnun.

Efni vefgáttanna landakort.is og kortasafn.is, sem birtust fyrst á veraldarvefnum árið 2007 var á árinu 2015 steypt saman og verður nú aðgengilegt á einum stað á vefslóðinni landakort.is. Kortasafn.is sem hefur nú verið lokað var ætlað að vekja athygli á málefnum safna sem geyma landfræðileg gögn á Íslandi. Kort, loftmyndir, gervitunglagögn, stafræn kortagögn og svæðistengd töluleg gögn eru dreifð um allt samfélagið. Skrár yfir söfnin eru ósamræmdar og fáar birtar á Netinu, auk þess sem mörg söfn eru geymd við ófullnægjandi aðstæður. Samhæfð skráning, öruggari varðveisla og aukin vefbirting er nauðsynleg til að bæta megi aðgengi að upplýsingum.

Á landakort.is birtast pistlar um landræn gögn og tengd málefni. Þessum pistlum er meðal annars ætlað að auka umræðu um bætt vefaðgengi, ítarlegri skráningu og meira öryggi við varðveislu landfræðilegra gagna hér á landi. Haldið verður áfram að uppfæra og setja inn efnisflokkaða tengla í innlendar sem erlendar vefsíður og kortasjár, með áherslu á að hafa beina tengla á forsíðu í íslenskar kortasjár og vefsíður sem þægilegt er að hafa beinan aðgang að um leið og vefgáttin er opnuð. Þá er eitt af markmiðunum að hvetja til þess að íslensk stjórnvöld móti varðveislustefnu fyrir þennan málaflokk, en landrænn menningararfur Íslendinga er mjög dreifður, heildarumfang er ekki þekkt og engin heildarstefna til um skráningu, aðgengi og varðveislu hans.

Tæknilegur bakhjarl við landakort.is er Garðar Garðarsson hjá Veftorg.is. Ljósmyndir á síðunni tók Carsten J. Kristinsson.

Nánari upplýsingar um landakort.is og þá stefnu sem lagt er upp með við framsetningu efnis, fást með því að senda tölvupóst á thbr (hjá) centrum.is. Þangað má einnig senda ábendingar um efni vefgáttarinnar eða koma á framfæri sjónarmiðum í tengslum við efni birtra pistla.

  • thorvaldur-bragason-latrabjarg
  • ÞORVALDUR BRAGASON
    landfræðingur og upplýsingafræðingur
  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .