Um loftmyndir Dana 1949 og ónýtar filmur (63)

Sá loftmyndaflokkur sem fæstir þekkja úr sögu loftmyndatöku frá Íslandi geymir líklega myndir sem taldar eru teknar sumarið 1949 af Reykjavík og nágrenni. Vitað er að dönsk flugvél kom til Íslands og voru teknar úr henni myndir með myndatökubúnaði fyrir 24 cm breiðar filmur (myndastærð 23×23 cm). Þetta mun hafa verið árið áður en Ágúst Böðvarsson síðar forstjóri Landmælinga Íslands hóf að taka loftmyndir á mjórri filmur (12×12 cm myndir) árið 1950, en þá var fyrsta loftmyndatökuvélin til töku „stereoskópiskra“ loftmynda (mynda sem skoðanlegar eru í þrívíddarsjá, „stereoskóp“) keypt til landsins. Frumfilman frá 1949 skilaði sér í loftmyndasafn Landmælinga Íslands þar sem hún var geymd fram á miðjan níunda áratug síðustu aldar. Um var að ræða filmu úr efni sem reyndist endast skemur en flestar aðrar loftmyndafilmur. Það sem verra var, þá var talin mikil íkveikjuhætta af slíkum filmum í söfnum. Loftfilmusafn LMÍ var á þessum tíma á Laugavegi 178 í Reykjavík og var filmugeymslan hvorki hita- né rakastýrð, en veggir hlaðnir og var geymslan með traustri eldvarnarhurð.

Þegar ég sá þessa filmu fyrst árið 1980, var hún orðin að gulri klessu og hafði smitast út úr henni gul froða yfir í boxið sem hún var geymd í. Engin leið var að fletta filmunni í sundur og skoða neinar myndir, enda filman gjörónýt. Miðað við þykkt hennar á keflinu má ætla að um nokkra tugi loftmynda hafi verið að ræða. Eftir að hafa verið í filmugeymslunni í nokkur ár var komin mikil lykt af filmunni og talin mikil sjálfsíkveikjuhætta af henni. Því var brugðið á það ráð að fara með filmuna á opið svæði og eyða henni þar með íkveikju, þar sem notaður var langur kveikiþráður. Teknar voru ljósmyndir af atburðinum sem sýndu sprengingu og loga, en filman var nokkurn tíma að brenna. Er ekki að sökum að spyrja ef kviknað hefði í filmunni inni í filmugeymslunni, þar sem geymdar voru allar helstu filmur loftmynda af landinu frá upphafi. Þetta bendir okkur einnig á að ekki má draga að afrita elstu filmur loftmyndasafns Landmælinga Íslands, þó þær séu ekki taldar úr jafn óstöðugu efni, þá voru fyrir rúmum áratug síðan farin að sjást dæmi um gula bletti á einhverjum eldri frumfilmum safnsins, sem og farin að finnast sterk lykt.

Eina sýnilega birtingarmynd þessa loftmyndaflokks í dag er samsett mynd af Reykjavík (loftmynda mosaik) sem varðveitt hefur verið sem veggmynd í Árbæjarsafni. Landmælingar Íslands tóku síðar mynd af þessari samsettu mynd, vegna heimildasöfnunar og varðveislu. Hugsanlegt er að finna megi einhvers staðar upplýsingar um flugið og myndatökuna, en slík skjöl hafa ekki verið aðgengileg hér á landi svo vitað sé.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .