Um ný örnefni á hafsvæðum og landgrunni (118)

Áhugi á örnefnum er mikill á Íslandi sem sýnir sig með ýmsu móti. Birting slíkra nafna á kortum getur verið sérstaklega viðkvæm, þar sem margir hafa bæði skoðanir á nöfnunum sjálfum og síðan staðsetningu þeirra á kortfletinum. Þekktar eru deilur um örnefni sem ratað hafa í fjölmiðla og muna þar margir eftir umræðunum um Hverfjall/Hverfell í Mývatnssveit. Stuðningsmenn hvors nafnsins um sig beittu sér í málinu sem eftir langan tíma endaði með því að ákveðið var að bæði nöfnin skyldu jafnrétthá meðal annars þegar kemur að því að setja þau á kort.

Búið er að formfesta ákvarðanatöku um samþykkt örnefna á landi með örnefnanefnd sem starfar á því sviði samkvæmt lögum nr. 22/2015, en áður var byggt á veikari grunni ef til deilna og ákvarðanatöku kom vegna birtingar á landakortum. Nefndin er skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra og er þar í forgrunni samstarf Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar, auk uppbyggingar og aðgengis almennings að örnefnagrunni.

Þegar kemur að ákvörðun um birtingu nafna á hafsvæðum og landgrunni kemur að sjókortum, sem gerð eru hjá Landhelgisgæslunni. Þar hafa í gegnum tíðina verið teknar ákvarðanir um það hvaða nöfn fara á sjókort og er það auðvitað misjafnt eftir svæðum hversu mörg þau eru og tengist það jafnframt því í hvaða mælikvarða þau eru birt. Heyrst hefur það sjónarmið manna sem til þekkja að enn eigi eftir að fara fram mikil vinna við söfnun örnefna á hafsvæðum kringum Ísland og staðsetja þau á kortum.

Ég fór að leiða hugann að þessu ákvörðunarferli þegar ég tók þátt í vinnu á Orkustofnun við gerð Landgrunnsvefsjár, sem einkum birti upplýsingar tengdar Drekasvæðinu. Nú er það þannig að eftir því sem lengra er til lands eru almennt færri örnefni, fer það þó eftir fiskimiðum og „landslagi“ á hafsbotni.

Þegar kom að því að íslensk stjórnvöld tækju ákvörðun um að bjóða út leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetnum (olíu) á Drekasvæðinu var ljóst að lítið væri til af nöfnum á svæðinu. Norðmenn sem hafa eins og kunnugt er mikla reynslu af rannsóknum olíusvæða og olíuvinnslu hafa haft þann hátt á að gefa hafsvæðum og svæðum á hafsbotni heiti og eru mörg þeirra tengd norrænni goðafræði. Kristinn Einarsson á Orkustofnun sem á hugmyndina að nafninu Drekasvæðið hafði í huga skjaldarmerki Íslands, en þar er einmitt dreki í „norðausturhorni“ merkisins ef hugsað er út frá viðmiðun við kort. Hann fékk því Hauk Jóhannesson jarðfræðing til að taka saman upplýsingar um örnefni á svæðinu og búa til ný þar sem hentugt væri og tilefni væri til. Ákveðið var að byggja þau á Völsungasögu enda kemur frægur dreki þar við sögu. Haukur skilaði greinargerð og tillögum í þremur skýrslum og rökstuddi fjölda nýyrða sem velja mætti á „dali og fjöll“ á hafsbotninum. Þessi nöfn voru síðan staðsett á landfræðilegu gagnasetti og birt bæði með myndrænum hætti á korti í Landgrunnsvefsjá og einnig sem punktar með ítarefnisupplýsingum, þegar smellt var á þá á skjánum. Skýringarnar og nöfnin eru bæði á íslensku og ensku, þar sem fram kemur tenging nafnsins við söguna og hafsbotninn og þar kemur fram hvaða nöfn eru ný og hver gömul.

Mér finnst sjálfum að mjög vel hafi tekist til með nafngiftirnar og tel eins og sennilega flestir að þar þurfi engu að breyta. Ég fór síðan að hugsa málið frá fleiri hliðum þegar upp kom umræða fyrir nokkrum misserum í tengslum við gagnasöfnun Landmælinga Íslands vegna gerðar landfræðilegs gagnasetts fyrir skil frá Íslandi um örnefnagögn vegna INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins. Orkustofnun sendi gagnasett sín um örnefni til Landmælinga sem komu þeim inn í sinn örnefnagrunn og eftir því sem best er vitað var þeim skilað þaðan í samræmi við tilskipunina inn í Evrópukerfið.

Ef einhver hefði haft athugasemdir við einhverjar nýjar og hugsanlega jafnvel óheppilegar nafngiftir, hver hefði getað fjallað um það? Þó örnefnanefndin fyrir nöfn á landi telji sig hugsanlega hafa um þau að segja veit ég ekki hvort sú nefnd hafi ákvörðunarvald fyrir örnefni á landgrunninu. Það hefur hingað til verið á valdsviði annarra. Það er eitt að taka nöfn og birta í stafrænu gagnasetti sem má auðvitað vera heildstætt fyrir landið og miðin, en annað er að hafa það hlutverk að samþykkja fyrir hönd opinberra aðila nöfn á fyrirbærum á hafsbotni og á stærri hafsvæðum sem síðan eru birt. Ef reglur eru óskýrar getur verið að ákvarðanataka fari fram annars staðar en stjórnkerfið hefur skilgreint.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...