Um skannagögn úr flugvélum (99)

Upplausn gervitunglagagna á fyrstu áratugunum eftir 1972, var lítil miðað við það sem nú er. Það byggðist hins vegar ekki endilega á því að tækin væru ekki með góða upplausn miðað við þeirra tíma tækni,heldur voru það frekar áhrif vegna hinnar gríðarlegu fjarlægðar frá yfirborði jarðar. Ný tækni og ný gervitungl hafa hins vegar gjörbreytt þessari stöðu á seinni árum. Landsat 1, 2, og 3 voru í 919 km hæð,  Landsat 4 og 5 voru í 705 km hæð og SPOT í 832 km hæð frá yfirborði jarðar. Ef sambærileg tæki voru hins vegar sett um borð í flugvélar mátti að sama skapi nýta tæknina við að nema gögn á hinum ýmsu bylgjulengdum rafsegulrófsins og fá þau jafnframt í góðri upplausn. Tækifæri til slíkrar gagnaöflunar á Íslandi fékkst þegar flugvél með slíkum búnaði var fyrst fengin til myndatöku hér á landi um páskana árið 1985.

Forsendur flugsins voru þær að Elíeser Jónsson sem sá áratugum saman um loftmyndaflug fyrir Landmælingar Íslands var að fljúga erlendis á flugvél sinni TF-ERR með búnað af gerðinni Daedalus 1268. Ágúst Guðmundsson hjá Landmælingum Íslands beitti sér fyrir samstarfi um gagnaöflun hér á landi og var í því sambandi meðal annars efnt til samstarfs við Sigfús Björnsson og Kolbein Árnason hjá Upplýsinga- og merkjafræðistofu Háskóla Íslands um verkefnið. Haft var samband við fjölda stofnana og lögðu á þriðja tug stofnana, sveitarfélaga og hitaveitna fram fé til að fjármagna verkefnið.

Gagnaöflunin fór fram dagana 4.-8. apríl 1985 og var flugið fyrir gagnaöflunina sjálfa rúmar 11 klst. Myndatökusvæðin voru að mestu á suðvestan- og sunnanverðu landinu en breyta þurfti fyrirhuguðu flugi á nokkrum svæðum vegna veðurs og óheppilegrar skýjahulu. Flogið var í ýmsum flughæðum frá 2000 fetum upp í 10 000 fet. Gagnamagnið var svo mikið að velja þurfti úr því og voru 11,5% þess afrituð og fengin hingað til lands til úrvinnslu á Upplýsinga- og merkjafræðistofu HÍ.

Þetta fjarkönnunarverkefni vakti mikla athygli á sínum tíma og var skýrsla um það sett sem viðauki við greinargerð starfshóps Rannsóknaráðs ríkisins um fjarkönnun sem skilaði áliti 1985. Þær myndir sem vöktu hvað mesta athygli sýndu hitaútgeislun og frárennsli auk hitamynda af hrauninu á Heimaey.

Þegar talað er um gögn úr þessu verkefni er eðli málsins samkvæmt hvorki rætt um loftmyndir né gervitunglagögn. Hingað til hefur verið talað um skannagögn úr flugvél, en Upplýsinga- og merkjafræðistofa HÍ fékk styrki frá Rannís og gerði til dæmis tilraunir á nokkurra ára tímabili með skönnunartækni úr minni flugvélum. Afrakstur þeirrar vinnu voru nokkrir gagnaflokkar stafræns myndefnis sem falla undir heildarhugtakið fjarkönnun og eru nánar tiltekið skannagögn úr flugvél.

Með tilkomu dróna og annarra flygilda og svo nýrrar tækni við gagnaöflun og myndatökur verður sértæk gagnasöfnun af afmörkuðum svæðum til kortagerðar og landupplýsingavinnslu enn auðveldari en áður var. Fleiri geta aflað hágæða gagna með minni tilkostnaði, en jafnframt verður erfiðara að vita um það sem verður til af gögnum í samfélaginu. Þó að á þessu sviði geti verið grá svæði í skilgreiningum milli sértækra tegunda gagna hefur hingað til verið talið hentugast að kalla fjölrófsgögn „skannagögn“, hvort sem þeirra er aflað úr flugvélum eða öðrum flugförum. Ef flugförin bera stafrænar myndavélar og afla „venjulegra“ mynda með yfirgripi til kortagerðar er hins vegar oftast talað um loftmyndir.

Í þeirri myndatöku og gagnasöfnun sem á sér stað með nýrri tækni nú um stundir er mikilvægt að gleyma því ekki að þótt myndefnis sé aflað af litlum svæðum vegna afmarkaðra sérverkefna fyrir einn viðskiptavin, þá er myndefnið mjög líklega gagnlegt fyrir fleiri. Þess vegna þarf að skrá og gera aðgengilegar almennar upplýsingar um myndaflokkana, hvort sem þeir eru í eigu fyrirtækja, einstaklinga, sveitarfélaga eða stofnana, þannig að þeir sem hafa þörf fyrir að nota og kaupa slík gögn geti sett sig í samband við þá sem eiga myndefnið (keypt gögnin ef þau henta og eru föl). Þar með má hugsanlega losna við tvíverknað við gagnaöflun og spara verulegar fjárhæðir.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .