Um stofnanabreytingar og kortagögn (33)

Skipulagi stjórnsýslunnar á Íslandi hefur á liðnum áratugum verið breytt með ýmsum hætti sem birtist í því að stofnanir hafa verið lagðar niður, þeim skipt upp, starfsemi úr ólíkum stofnunum sameinuð eða hluti af starfseminni einkavæddur. Orkustofnun og forveri hennar, Raforkumálaskrifstofan, hafa gengið í gegnum helstu birtingarmyndir slíkra breytinga.

Raforkumálaskrifstofan var sett á fót árið 1947. Árið 1965 varð hluti hennar að opinberu fyrirtæki, Landsvirkjun, en árið 1967 varð Raforkumálaskrifstofan að Orkustofnun (OS) og um leið voru Rafmagnsveitur ríkisins (Rarik) skildar frá henni og gerðar að sjálfstæðri stofnun. Orkustofnun byrjaði síðan að skiptast upp með einkavæðingu Jarðborana ríkisins, sem urðu sjálfstætt hlutafélag árið 1986. Á miðju ári 2003 varð rannsóknasvið OS að Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og í ársbyrjun 2009 fluttust Vatnamælingar OS til nýrrar Veðurstofu Íslands. Þar með lauk rúmlega sextíu ára sögu eigin rannsókna og útseldrar þjónustu á OS, en stjórnsýslan fékk meira vægi. Orkustofnun fékk aukið stjórnsýslulegt hlutverk frá iðnaðarráðuneyti, m.a. varðandi veitingu leyfa á sviði orkumála og jarðrænna auðlinda, olíuleitarmál, eftirlit á ýmsum sviðum og ráðgjöf til stjórnvalda á sviði auðlindanýtingar og orkumála. Þá hefur Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfað sem hluti Orkustofnunar í tæpa fjóra áratugi.

Þegar farið var að huga að virkjun vatnsorku á hálendi landsins fyrir miðja síðustu öld lá fyrir að kort danska herforingjaráðsins og Geodætisk Institut af Íslandi nægðu ekki til þeirrar skipulagningar og undirbúningsvinnu sem til þurfti. Sama gilti um bandarísku kortin í mælikvarða 1:50 000. Því var strax á fyrstu árum Raforkumálaskrifstofunnar hafist handa um nákvæmar landmælingar og í kjölfarið hófst gerð korta í ýmsum mælikvörðum. Eftir að Raforkumálaskrifstofan var lögð af á sjöunda áratugnum, var verkefnum hennar skipt upp og þeim haldið áfram á Orkustofnun, Landsvirkjun og Rarik en kortin voru unnin áfram í samstarfi sem tengdist Gunnari Þorbergssyni og landmælingadeild Orkustofnunar. Gunnar fór á eftirlaun árið 2003 og þá var deildin lögð niður. Hann lést sumarið 2015.

Þegar farið var á árinu 2009 að huga að skráningu þeirra korta sem orðið höfðu til úr þessu samstarfi var af ýmsu að taka. Fleiri stofnanir eins og Vegagerð ríkisins,  Skipulag ríkisins og veitufyrirtæki Reykjavíkurborgar höfðu til dæmis unnið sams konar kort af öðrum landsvæðum, í sömu mælikvörðum og blaðskiptingum, í samstarfi við Orkustofnun. Í upphafi skráningarverkefnisins var ákveðið að halda kortum Raforkumálastjóra, Orkustofnunar, Landsvirkjunar og Rarik af hálendinu aðgreindum frá kortum annarra stofnana í þessum flokki og litið á þau sem ákveðna heild þó „útgefendur“ væru sjálfstæðar stofnanir með ný nöfn eftir uppskiptinguna. Kortum annarra stofnana en þeirra sem áður eru nefndar var hins vegar haldið sér og þau ekki skráð sem Orkugrunnkort þó þeirra sé getið í „Kortaskrá Orkustofnunar“ frá 1988. Skráning þeirra korta er á ábyrgð annarra þó Orkustofnun eigi til skráð eintök af þeim í kortasafni sínu.

Í því umróti sem gjarnan fylgir skipulagsbreytingum stofnana situr oft eftir spurningin um það hver eigi þau gögn sem orðið hafa til í starfseminni. Að skipta upp stafrænum kortagögnum er auðveldara en að skipta upp safnefni í formi pappírskorta og filma. Þegar starfsmenn og rótgróin verkefni færast á milli stofnana þarf eðlilega að hafa aðgang að sömu gögnum og áður, í þessu tilfelli sömu kortum og áður. Stjórnvöld sjá hins vegar ekki alltaf til þess að lagatexti eða reglugerðir um hinar breyttu stofnanir fjalli nægilega skýrt um gagnamál. Því lendir það oft á starfsmönnum eftir á að reyna að finna og semja um viðunandi lausnir.

Þegar Vatnamælingar fluttu frá Orkustofnun yfir til nýrrar Veðurstofu Íslands í ársbyrjun 2009 þurfti að ná samkomulagi um uppskiptingu gagna, þar á meðal kortasafns þar sem einstakt safn Orkugrunnkorta (1958-1998) var aðeins til í einu eintaki. Þá var jafnframt til þess tekið að ÍSOR, sem hafði aðgreinst frá Orkustofnun 2003 og orðið að sjálfstæðri stofnun, átti ekki filmu- eða pappírseintök af kortum í þessum kortflokki, þó hluti þeirra hefði verið skannaður og komið á vektor form í landupplýsingakerfi. Vitað var að Landsvirkjun átti safn a.m.k. sinna eigin korta, en ekki var vitað um önnur heildstæð söfn í þessu samhengi. Þar sem hér þurfti að tryggja varðveislu eins af merkari kortaflokkum landsmanna, sem engin stofnun átti ítarlega skrá yfir þó almennt yfirlit væri til í skýrslu, lá fyrir að leggja þyrfti töluverða vinnu í að tryggja skráningu, skönnun, varðveislu og aðgengi kortanna.

Í nokkrum pistlum verður hér á eftir fjallað um helstu flokka þeirra korta sem Orkustofnun hefur staðið að í gegnum tíðina. Þar verður meðal annars komið inn á efnisþætti sem tengjast varðveislu, skráningu og aðgengi að upplýsingum um þau á Netinu, enda hefur stofnunin lengi lagt áherslu á að opinn aðgangur sé að gögnum.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .