Um upphaf loftmyndatöku (68)

Loftmyndir eru ómetanlegar heimildir, sem nýtast okkur á margvíslegan hátt. Notkun loftmynda og annarra fjarkönnunargagna hefur gjörbreytt því hvernig við sjáum og skynjum jörðina og umhverfið. Tæknin hefur þróast hratt og okkur finnst nú sjálfsagt að hafa aðgengi að slíku efni alls staðar að úr heiminum, hvort sem um er að ræða nákvæmar loftmyndir af afmörkuðum stöðum eða gervitunglagögn sem sýna stóra hluta yfirborðs jarðar. Okkur finnst jafnframt eðlilegt að geta fengið eldra myndefni til samanburðar við nýtt og valið á milli annars vegar hefðbundinna mynda sem teknar hafa verið á filmur og hins vegar gagna þar sem skannar hafa verið notaðir til að afla myndefnis á mismunandi bylgjusviðum rafsegulrófsins.  Við viljum geta valið myndir sem teknar hafa verið nálægt jörðu með mikilli myndupplausn eða teknar langt utan úr geimnum með minni greinihæfni og jafnvel myndefni þar sem aðeins hluti gagnanna felur í sér þá hluta rafsegulrófsins sem sjá með mannlegum augum.

Þegar litið er til baka í kortasögu heimsins er í raun ótrúlegt hvað fjarkönnunargögn (loftmyndir og gervitunglagögn) spanna stuttan tíma í þeirri þróun sem verið hefur lykilatriðið í að leiða okkur til þess tíma að hafa nákvæm vönduð kort til umráða. Það eru innan við tvær aldir síðan ljósmyndatæknin kom til sögunnar (um 1840) og síðan liðu aðeins um tveir áratugir þar til talið er að fyrsta ljósmyndin hafi verið tekin úr lofti árið 1858 frá loftbelg sem flogið var yfir París í Frakklandi. Sú mynd hefur ekki varðveist en fyrsta myndin sem varðveist hefur af þessu tagi er talin hafa verið tekin úr loftbelg yfir Boston í Bandaríkjunum árið 1860. Fram undir aldamótin voru gerðar tilraunir með ýmiss konar ljósmyndatökur úr lofti, en það var ekki fyrr með tilkomu flugvéla og fyrsta fluginu árið 1903 sem nýir möguleikar sköpuðust. Fyrsta myndataka úr flugvél er talin hafa farið fram árið 1906. Það er svo í fyrri heimsstyrjöldinni sem taka ljósmynda úr lofti kemst „á flug“ ef svo má að orði komast, en í þeirri styrjöld var tekið gríðarlegt magn mynda úr lofti vegna njósna. Það er því ekki nema um ein öld síðan kortagerð heimsins fór að hafa möguleika á að nýta loftmyndatækni.

Eftir heimsstyrjöldina fyrri þróaðist loftmyndatökutæknin hratt, þar sem þrívíddarmyndataka á landi leiddi til þeirrar loftmyndatökutækni sem bylti kortagerð heimsins. Farið var að taka loftmyndir með skipulögðum hætti þar sem flogið var eftir samsíða fluglínum og myndir í hverri fluglínu sköruðust þannig að skoða mætti þær í þrívídd til nýtingar í kortagerð og höfðu jafnframt hliðarskörum milli mynda úr samsíða fluglínum.

Þegar heimsstyrjöldin síðari hófst voru til orðin fjölmörg fyrirtæki í ýmsum löndum sem höfðu framleitt myndavélabúnað sem notaður var í stórum stíl í stríðinu. Dæmi um myndefni þar sem ólíkur búnaður var notaður sést á fyrstu myndaflokkum loftmynda af Íslandi, en þar var myndflötur ýmist til dæmis 12×12 cm eins og hjá Bretum, 23×23 cm hjá Bandaríkjamönnum og 30×30 cm hjá Þjóðverjum. Eftir stríðið og til okkar daga hefur myndataka 23×23 cm loftmynda verið ráðandi í heiminum, eins og hefur verið hér á landi síðustu áratugi. Loftmyndatökutækni og úrvinnsla loftmynda er síðan mjög flókin og sérhæfð fræðigrein sem ekki verður farið nánar út í hér að sinni. Hins vegar er fyrirhugað að í nokkrum pistlum verði síðar fjallað á þessum vettvangi um aðra hlið þessa málaflokks, en það er umræðan um yfirsýnina yfir loftmyndir og loftmyndaflokka landsins ásamt aðgengi að upplýsingum um þá.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .