Um vefsjár og kortasjár (19)

Landfræðileg hugtök og fyrirbæri geta stundum vafist fyrir þeim sem eru að vinna með landupplýsingar. Eitt þessara hugtaka er íslenska orðið „vefsjá“, sem kemur fyrir í heitum margra íslenskra vefverkefna, en það hefur hátt í tvo áratugi verið notað á sviði landupplýsinga um vefkerfi þar sem hægt er að setja fram og skoða landræn gagnasett (landfræðilegar gagnaþekjur) í gegnum gagnvirkan kortaglugga á Netinu. Orðanotkun á þessu sviði hefur hins vegar verið nokkuð á reiki, sem ruglar marga í ríminu.

Orðin „vefgátt” og „kortasjá“  hafa  einnig verið notuð í sama tilgangi og orðið „vefsjá“, en orðið „vefsjá“ kemur hins vegar hvorki fyrir í landfræðilegum orðalista orðanefndar samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA), né í hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Sama er að segja um hugtökin „landgátt“ og „kortasjá“, þau koma heldur ekki fram í listunum.  Orðið „vefgátt“ er hins vegar í báðum orðalistunum, en ekki þýtt á sama hátt. Í LÍSU listanum er „vefgátt“ þýðing á „Geoportal“, en hjá þýðingarmiðstöðinni er „vefgátt“ þýðing á „Web portal“.

Upphaflega er talið að orðið „vefsjá“ hafi komið fram við opnun Borgarvefsjár á Netinu og var þá notað um „sjá“ fyrir kort á vefnum. Orðið „vefsjá“ hefur þannig í tali og rituðum texta verið notað fyrir ensku heitin  “Geoportal“ og  “Spatial portal“. Skilgreiningar á þeim hugtökum eru nokkuð víðtækar, það er vefsíður sem auðvelda það að finna, fá aðgengi að og nota landfræðilegar upplýsingar sem fáanlegar eru á Netinu.

Nú er farið að nota orðið  „landupplýsingagátt“ sem þýðingu á „Geoportal“ í lagatexta og opinberum skjölum sbr. hugtakasafn þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Segja má að hugtakið „vefsjá“  eins og það er notað innan landupplýsingageirans á Íslandi vísi mest til kortagluggans sjálfs, þess sem í honum sést og þeirrar virkni sem í kringum hann er. Til lengri framtíðar er mikilvægt að nota yfirheiti eins og „landgátt” í almennustu merkingunni fyrir yfirflokk yfir landfræðilegar vefgáttir,  í staðinn fyrir eða samhliða „landupplýsingagátt” sem þýðingu á “Geo portal” og “Spatial portal”. Orðið „kortasjá” hefur einnig verið notað sem þýðing á áðurnefndum hugtökum, samhliða orðinu „vefsjá”. Það sem flækir málin enn frekar er að hugtakið „vefsjá“ mun vera notað í einhverjum tilfellum í víðari merkingu en var í upphafi. Í einhverjum tilfellum er hugtakið vefsjá notað fyrir sjár sem hægt er að nota á Netinu til að skoða fjölbreytilegustu fyrirbæri eins og myndefni af ýmsum toga, ekki eingöngu kort.

Frá sjónarhóli hugmyndafræðinnar um kerfisbundinn efnisorðalykil og um landræn efnisorð, er áhugavert að nota oftar orðið „landgátt“ í víðasta skilningi fyrir „Geoportal“ og „Spatial portal“, en „landupplýsingagátt“ væri þar samheiti í merkingunni „vefgátt“ fyrir landgögn. „Landgátt“ er stutt og hnitmiðað orð sem ætti ekki að misskiljast. „Landgátt“ (e. Spatial portal, geoportal), sem viðmót fyrir aðgengi landrænna gagna á Netinu, væri þá víðara heiti en „kortasjá“.  „Vefsjá“, þ.e. vefhugbúnaður með glugga fyrir ýmiss konar efni (hvort sem um er að ræða stafræn kort eða annað myndefni), væri þá víðara heiti en „kortasjá“ og þar með væri „kortasjá“ þrengra heiti en bæði „vefsjá“ og „landgátt“. Eina tegund landgátta til viðbótar má kalla „tenglalandgátt“ (e. catalog geoportal), en dæmi um slíkt verkefni er landakort.is.

Einhverjum gæti þótt umræða sem þessi óþarfa sparðatíningur, en þá er rétt að hafa í huga að í undirskjölum INSPIRE tilskipunarinnar, sem hefur fengið lagagildi hér á landi er lýst tugum undirflokka vefverkefna á sviði landupplýsinga sem allt eru í raun „landgáttir“. Þar sem hugtakið „vefsjá“ er mjög rótgróið í nöfnum verkefna og í tungutaki fólks sem starfar á sviði landupplýsinga hér á landi, verður það án efa notað áfram. Til að tala skýrar hafa margir hins vegar reynt að breyta um orðaval og nota nú hugtakið „kortasjá“ oftar í stað orðsins „vefsjá“. Ekki verður séð á þessari stundu hvort slík breyting verði almenn, en hugtakið „landgátt“ mætti nota oftar sem yfirheiti fyrir allar gerðir „kortasjáa“ og annarra landfræðilegra gátta og kortaþjónusta. Aðalatriðið er að við samræmum og skilgreinum orðaþýðingar og hugtök, þannig að alltaf sé ljóst hvað átt er við þegar fjallað er um þessa gerð vefverkefna.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...