Umræður um landræn aðgengis- og varðveislumál hafa verið fremur takmarkaðar í samfélaginu til þessa. Ekki hefur náðst nægilega vel að vekja fólk til umhugsunar um þennan málaflokk, hvað þá að ná af stað umræðu um nauðsyn opinberrar stefnumótunar, þrátt fyrir ýmsar tilraunir til þess. Helsti vettvangur þessarar umræðu á liðnum árum hefur verið í pistlaskrifum hér á vefgáttinni landakort.is. Með tveimur nýjum bókum, „Kortagögn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“, þar sem 123 pislar frá árabilinu 2015-2019 hafa verið settir í efnislegt samhengi gefst nú tækifæri til að setja fram skýrari umræðuvettvang um þessi málefni. Til að gefa hugmynd um framsetningu pistlanna í bókunum er hér talin ástæða til að fjalla nánar um efni þeirra og efnistök.
Kortagögn og málefni kortasafna (1)
Í þessari bók er 60 pistlum raðað í fjóra meginhluta sem fjalla um varðveislumál kortagagna, kortaflokka og kortasöfn, nokkrar íslenskar kortasjár og margvísleg landræn málefni.
Í fyrsta hlutanum er sett fram almenn yfirsýn og gerð grein fyrir afmörkun málaflokksins, mikilvægi varðveislustefnu, menntunarmálum, gagnaöryggi og ýmsum þáttum sem snúa að skipulagi varðveislu og stjórnsýslulegra breytinga. Í öðrum hluta eru fjórir kaflar og fjalla þeir um kortasöguna og birtingu hennar, nokkra sögulega kortaflokka, kortasöfn á Íslandi og nokkur kortaverkefni á Orkustofnun, þar sem höfundur hefur starfað á annan áratug. Þar eru lögð til grundvallar raunveruleg dæmi um nokkra kortaflokka Íslendinga og fjallað um spurningar sem upp geta komið við umsýslu þeirra, en einnig bent á leiðir til að vinna ýmis verkefni. Þriðji hlutinn fjallar um íslenskar kortasjár út frá dæmum sem orðið hafa til á Orkustofnun. Fjórði og síðasti hlutinn er þrískiptur. Þar er fyrst fjallað um landræn orð og hugtök sem mikilvægt er að nota með samræmdum hætti, síðan eru nokkur dæmi um landfræðilega félagsstarfsemi innanlands sem utan og að lokum eru ýmis mál sem ekki falla undir fyrri kafla en tengjast þó kortum. Þar er farið yfir ólík atriði eins og söguleg örnefni, fræðslumál, landfræðileg frumgögn í formi skjala og stöðu kortasafna í tæknivæddum landupplýsingaheimi.
Fjarkönunargögn og skipulag landupplýsinga (2)
Þessi bók birtir 63 pistla og skiptist í tvo meginhluta. Í fyrri hlutanum eru þrír kaflar um loftmyndir og tveir um gervitunglagögn. Loftmyndapistlarnir eru af ýmsu tagi og fjallar fyrsti kaflinn meðal annars um söguleg málefni tengd skipulagi loftmyndatöku, skráningu myndasafna og aðgengi loftmynda í veflausnum. Annar kaflinn fjallar um íslensk loftmyndasöfn og sá þriðji um elstu loftmyndaflokkana sem til urðu af landinu fyrstu áratugina. Kaflarnir um gervitunglagögnin eru annars vegar um þróun fjarkönnunarmála á Íslandi framan af, tegundir gagna og aðgengismál og hins vegar um verkefni og heildstæð gagnasett á þessu sviði sem unnin voru á Landmælingum Íslands á síðasta áratug 20. aldar og fram á 21. öldina.
Seinni hlutinn um skipulag landupplýsinga skiptist í fernt. Fyrstu tveir kaflarnir gera grein fyrir helstu viðhorfum og staðreyndum um landræn lýsigögn, einkum um skráningu þeirra og síðan er umfjöllun um nokkrar landrænar vefgáttir. Þá eru pistlar um grunngerð stafrænna landupplýsinga og verkefni á því sviði sem tengjast INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins, en lokakaflinn er svo úr ýmsum áttum. Þar er komið inn á nauðsyn heildarstefnumótunar á landsvísu fyrir aðgengis- og varðveislumál landrænna gagna, auk mála eins og hnattrænna gagnasetta, leitarverkfæra á netinu, staðlamála og nefnd dæmi um gagnleg verkefni sem gætu orðið fyrirmyndir.
Í viðauka er svo í báðum bókunum birtur orðalisti með um 60 hugtökum í landrænni upplýsingafræði. Þar má finna orð sem komið hafa fyrir í pistlunum á landakort.is og talin hefur verið þörf á að útskýra nánar. Í orðalistanum má sjá í hvaða merkingu orð eru notuð í vefgáttinni, fram kemur íslenskt og enskt heiti þeirra, lýsing og sýnd tengsl hugtaka (samheiti, skyld heiti, víðari heiti og þrengri heiti).
Rafbækurnar eru aðgengilegar í kyndilverslun amazon.com. Nokkur eintök hafa verið gerð á pappírsformi og eru þau fáanleg hjá höfundi. Ef áhugi er fyrir hendi að fá pappírsbækur er best að „hafa samband“ á samnefndum flipa á landakort.is.
Þorvaldur Bragason