Þegar við opnum kortasjár á netinu vill oft gleymast hvernig við komumst þangað sem við erum stödd á sviði aðgengis að landfræðilegum gögnum. Innleiðing nýrrar tækni með landupplýsingakerfum
og tilkoma netsins skapaði nýjar lausnir, en alþjóðleg umræða um landfræðilega staðla, lýsigögn og margvíslega samhæfingu í samskiptum með gögn fyrir gerð hnattrænna gagnasetta var mikilvæg í forsögunni. Þar fór fram umfangsmikil og merkileg umræða um þrjú málefni: GSDI (Global Spatial Data Infrastructure), Digital Earth og Global Map, sem höfðu áhrif á þróun mála. Hnattræn grunngerð landupplýsinga (GSDI) er hryggjarstykkið í samræmingu og skipulagi á samskiptum með stafræn landfræðileg gögn hvort sem er innan einstakra landa eða á alþjóðlega vísu. Hugmyndafræðin er það sem liggur til dæmis að baki stórum verkefnum um skipulag og gagnasamskipti á sviði stafrænna landupplýsinga eins og INSPIRE (Infrastructure for Spatial Information in Europe), sem sett hefur verið í lög á Íslandi (nr. 44/2011) eins og í öllum löndum Evrópu. Slík hugmyndafræði og umræðan um hana er algjör grundvöllur fyrir það að hægt sé að halda utan um og samnýta landfræðileg gögn innan sem milli landa.
Global Map verkefnið kom úr farvegi kortastofnana. Þegar komið var undir lok síðustu aldar, var staðan sú í kortagerð heimsins að ekki þóttu til nægjanlega viðunandi stafræn samstillt staðfræðikort sem sýndu öll lönd jarðar. Af einhverjum ástæðum hafði ekki tekist að ná að stilla saman kortagögn nema frá hluta kortastofnana heimsins. Á þessum tíma var reynt að koma af stað samstarfi um að ljúka verkefninu í mælikvarðanum 1: 1 000 000. Mörgum þótti það of ónákvæmt og vildu fara með mælikvarðann í 1:250 000. Þrátt fyrir markmiðið um 1:1 000 000 var erfitt að klára verkefnið, en inn í það komu einna fyrst samræmd gögn af öllum Evrópulöndum úr verkefni EuroGeographics „EuroGlobalMap“. Þetta sýnir hvað erfitt getur reynst að búa til hnattræn kortagögn sem koma frá mörgum ólíkum stofnunum. Víða voru til góð stafræn kortagögn sem auðvelt var að samræma og hentuðu í þessu sambandi, en um slíkt var ekki að ræða frá öllum heimshlutum. Annað áhugavert verkefni á þessu sviði hefur einnig verið í gangi í þessum mælikvarða, en það er jarðfræðikort af öllum löndum heims sem reynt hefur verið að samræma og birta á netinu í kortasjánni One Geology Portal (www.onegeology.org).
Digital Earth (DE) var af þessum sama meiði, en í umræðum á frægri umhverfisráðstefnu í Rio de Janeiro í Brasilíu 1992, kom í ljós að þrátt fyrir að mikils magns gervitunglagagna hefði verið aflað á um 20 ára tímabili var ekki til viðunandi samræmt heildargagnasett á því sviði af allri jörðinni. Umræðan um DE fékk byr undir báða vængi þegar Al Gore varaforseti Bandaríkjanna fékk mikinn áhuga á málefninu og studdi það í ræðu og riti. Þar var vakin athygli á hve mikilvægt væri fyrir umhverfismál í heiminum að hægt væri að vinna með sams konar og samræmd gögn af öllum heimshlutum, enda gögnin á þeim tíma til (frá Landsat), en ekki búið að búa til úr þeim samhæft hnattrænt gagnasett. Við þekkjum öll eftirleikinn sem er skýrastur í vefverkefnum sem markaðurinn kynnti síðar meðal annars með Google Earth og Google Maps, þar sem búið var að vinna slíkt verkefni, þó að á fyrsta stigi hafi einhverjum þótt vankantar varðandi nákvæmni innan fyrstu gerða myndgrunnsins.
Í dag höfum við ókeypis aðgang að nokkrum alheimskortaþjónustum annað hvort með músarsmelli í kortasjá eða öppum sem birta nánast samstundis hnattræn gagnasett með gervitunglagögnum og okkur þykir slíkt nánast eðlilegasti hlutur í heimi. Sama er að segja um alheimskortaþjónustur sem eru til dæmis aðgengilegar í öllum farsímum í dag. Við horfum á þennan breytta veruleika þar sem við höfum nánast hvar sem við erum, aðgang að hnattrænum samsettum korta- og myndgögnum. Að baki þeim býr hins vegar ómæld vinna starfsmanna fyrirtækja og stofnana víða um heim. Gríðarlegt magn undirliggjandi frumgagna er svo varðveitt á ýmsum stöðum í heiminum, hvort sem það eru kortagögn, loftmyndir eða gervitunglagögn. Allar þær frumheimildir eru menningararfur einstakra landa, sem einhvers staðar þarf að veita aðgang að, skrá og geyma í öruggum aðstæðum. Til þess að hafa aðgang að þeim frumgögnum í sögulegu samhengi, en ekki einungis unnum samsettum markaðslausnum fyrst og fremst með nýjustu upplýsingum, verðum við að eiga góðar skrár og stafræn afrit gagna. Markviss vinna á því sviði krefst yfirsýnar og góðs skipulags sem fæst varla nema með opinberri aðgengis- og varðveislustefnu landfræðilegra gagna í hverju landi.
Þorvaldur Bragason