Kortasaga Íslands heillar marga sem kynnast henni. Þessi saga var lengi framan af fyrst og fremst tengd vinnu erlendra aðila við kortagerð af landinu og útgáfu korta sem þeir gerðu. Um þessa sögu hafa verið skrifuð þrjú meginritverk og eru þau venjulega nefnd þegar rætt er um útgefna sögu korta af Íslandi.
Höfuðritið um kortasöguna „Kortasaga Íslands“, hið mikla stórvirki Haraldar Sigurðssonar bókavarðar kom út í tveimur stórum bindum með fjölda litprentaðra korta á áttunda áratug síðustu aldar hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
Fyrra bindið kom út árið 1971, en þar er rakin ítarlega saga íslenskra korta frá „frá öndverðu til loka 16. aldar“. Þetta bindi var síðan endurprentað árið 1978. Seinna bindið kom út árið 1978 og nær „frá lokum 16. aldar til 1848“ er landshlutakort Björns Gunnlaugssonar voru komin út. Áframhald hefur því miður ekki orðið á þessu metnaðarfulla verkefni eftir fráfall Haraldar.
Annað stórvirki „Islands kortlægning“ eftir N.E. Nörlund kom út í stóru broti á fyrsta ári íslenska lýðveldisins 1944 og fjallar einkum um sögu kortagerðar Dana á Íslandi. Í bókinni er veglegur kafli um sögu Íslandskorta og birt nokkur eldri kort. Meginefnið tengist hins vegar kortagerð danska herforingjaráðsins (Generalstaben) og Geodætisk Institut frá aldamótunum 1900 fram að lýðveldisstofnun, þegar útgáfu Atlasblaðanna 87 af öllu landinu í mælikvarða 1:100 000 lauk, en litprentaðar útgáfur þeirra eru bundnar með í bókinni.
Árið 1996 kom út bókin „Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi“, eftir Ágúst Böðvarsson. Þar er rakin saga kortagerðar danskra landmælingamanna hér á landi og fjallað um upphaf Landmælinga Íslands (stofnaðar 1956), en síðan sagt stuttlega frá nokkrum kortagerðar- og landmælingaverkefnum frá því um og eftir miðja síðustu öld. Ágúst þekkti þessa sögu vel þar sem hann vann með dönskum landmælingamönnum frá árinu 1930 og varð síðar fyrsti forstjóri Landmælinga Íslands.
Að framansögðu sést að kortasaga nútímans hefur ekki verið birt í bókum. Þar skortir einkum upplýsingar um kortagerð og kortaútgáfu Íslendinga sjálfra á 20. öldinni. Til þess að sú saga verði skrifanleg í framtíðinni með svipuðum hætti og gert hefur verið í fyrrnefndum ritverkum, þarf áður að verða til ritað efni um alla kortaflokka sem til hafa orðið á áðurnefndum tíma. Slíkt þarf að gerast sem fyrst í formi greina og skýrslna meðan enn eru einhverjir til frásagnar um lykilatriði þeirrar sögu.
Þorvaldur Bragason