Vefkortasafnið er ný kortasjá sem opnuð hefur verið á netinu, en hún veitir aðgang að íslenskum kortaflokkum gegnum kortaþekjur sem sýna blaðskiptingar og þá reiti sem kortin þekja á yfirborði landsins. Þessari kortasjá er í fyllingu tímans ætlað að veita samræmdan aðgang að helstu kortaflokkum og heildarkortum sem til eru af Íslandi.
Uppfærðar kortaskrár og blaðskiptingar helstu kortaflokka eru hér tengdar saman, en einnig eru tengingar við skönnuð kort sem stofnanir og söfn hafa gert aðgengileg með einum eða öðrum hætti á netinu. Með þessu má fá samræmt yfirlit yfir þekkta íslenska kortaflokka frá opinberum aðilum og nálgast upplýsingar um kortin á einum stað út frá framsetningu reita á skjá.
Vefkortasafnið er þróunarverkefni sem mun taka nokkurn tíma í vinnslu. Umtalsverð vinna er eftir við kortaskráningu og við lagfæringar á nokkrum eldri blaðskiptingaþekjum, auk þess sem gera þarf nýjar þekjur fyrir nokkra kortaflokka þar sem slík gagnasett eru ekki til. Þá eru skönnuð kort ekki aðgengileg í nokkrum kortaflokkum þar sem kort hafa annað hvort enn ekki verið skönnuð og tengd á netið eða útgáfur korta á netinu hafa af einhverjum ástæðum verið læstar og þar með ekki tengjanlegar við önnur verkefni eins og Vefkortasafnið.
Í fyrstu útgáfu Vefkortasafnsins eru tengd inn kort af vef Landsbókasafns Íslands, kort Orkustofnunar og einn kortaflokkur af vef Landmælinga Íslands. Slóðir fyrir kort Landsbókasafns eru fengnar af vefnum Íslandskort (islandskort.is), en þau eru öll frá því fyrir 1950, þ.e. Fjórðungsblöð (1:50 000) og Atlasblöð (1:100 000) frá dönskum landmælingamönnum Generalstaben og Geodætisk Institut (tímabilið fram til 1944) og síðan kort frá bandarísku kortastofnuninni Army Map Service (1:50 000). Alls eru þetta nálægt 500 titlar.
Kort Orkustofnunar eru úr kortaflokknum Orkugrunnkort, sem eru í mælikvörðum 1:20 000, 1:5000 og 1:2000. Kortaflokkur Orkugrunnkorta geymir í raun í heild kort sem gerð voru í upphafi á vegum Raforkumálastjóraembættisins sem skiptist á sjöunda áratug síðustu aldar í Orkustofnun, Rarik og Landsvirkjun. Kortin voru öll gerð á sínum tíma í samstarfi við Gunnar Þorbergsson á landmælingadeild Orkustofnunar og eru eftir því hver greiddi fyrir verkefnið merkt þessum stofnunum eftir því sem við á. Alls er hér um að ræða yfir 750 titla.
Kortin frá Landmælingum Íslands eru í mælikvarða 1:50 000 gerð í samstarfi Defence Mapping Agency (DMA) í Bandaríkjunum og Landmælinga Íslands. Alls á annað hundrað kortblöð þegar taldar eru með eldri útgáfur á hluta kortaflokksins.
Þá eru einnig í Vefkortasafninu yfir 160 kort í mælikvarða 1:25 000, sem gerð voru á síðustu áratugum síðustu aldar í viðleitni nokkurra stofnana á Íslandi til að koma upp samstarfi í kortagerð. Stofnanirnar eru: Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Landsvirkjun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnun. Þessi kort eru enn um sinn sótt á vefþjón hjá Orkustofnun, en markmiðið er að öll kort verði sótt á vefþjóna þeirra stofnana eða safna sem bera ábyrgð á viðkomandi kortaflokkum.
Þá eru einnig sýnd nokkur dæmi um mögulega framsetningu á heildarkortum af landinu, en þar er af miklu að taka og reynt að sýna dæmi um nokkra kortaflokka heildarkorta í mælikvörðum frá 1:500 000 til 1:3 000 000. Heildarfjöldi korta sem gerður er aðgengilegur gegnum fyrstu útgáfu Vefkortasafnsins er því samtals yfir 1500 kortblöð.
Það hefði ekki verið hægt að vinna þetta nýja verkefni á þann hátt sem gert er nema með stuðningi Orkustofnunar sem leyfði meðal annars notkun á afritum af blaðskiptingum og kortaskrám sem til voru í fórum stofnunarinnar. Þá fékkst einnig stuðningur stofnunarinnar við að útfæra blaðskiptingar Orkugrunnkortanna fyrir allt landið, en þær náðu upphaflega aðeins yfir afmarkaðan hluta landsins, þ.e. þau svæði sem höfðu verið kortlögð í þessum flokki. Blaðskiptingarnar sjálfar voru upphaflega unnar á síðasta áratug síðustu aldar á Orkustofnun af Skúla Víkingssyni jarðfræðingi og það er því hans vinna fyrr á tíð sem gerði verkefnið í raun framkvæmanlegt, enda hefði orðið allt of kostnaðarsamt að setja saman allar þessar blaðskiptingar frá grunni innan ramma verkefnisins. Kortaskrár Orkustofnunar voru í upphafi gerðar af Þórunni Erlu Sighvats upplýsingafræðingi á Orkustofnun og hefur tilurð skránna einfaldað mjög vinnuna við að stilla saman skrár og laga að nýrri skilgreiningu efnisþátta innan verkefnisins.
Vefkortasafnið er unnið að frumkvæði og samkvæmt hugmynd Upplýsingaþjónustu landfræðilegra gagna (Þorvaldur Bragason) sem er eigandi og ábyrgðaraðili Vefkortasafnsins. Þróun búnaðar fyrir kortasjá og tæknileg vinnsla fer fram hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta (Árni Geirsson). Verkefnið nýtur engra styrkja úr opinberum sjóðum og er því háð velvilja frá ábyrgðarstofnunum kortaflokka sem birtir eru í Vefkortasafninu.
Það er ljóst að með þessu verkefni er loks komið fram verkfæri á netinu sem gefur mikla möguleika sem ekki hafa verið í boði fram að þessu. Í næsta pistli „Gagnsemi Vefkortasafnsins“, verður fjallað um þau tækifæri sem skapast hafa í utanumhaldi íslenskra korta og meðal annars rætt um verkefni sem nú má leysa með tilkomu Vefkortasafnsins.
.
Þorvaldur Bragason