Vefkortasafnið

vefkortasafnid

Vefkortasafnið er kortasjá (2021), sem ætlað er í fyllingu tímans að veita samræmdan aðgang að helstu kortaflokkum og heildarkortum sem til eru af Íslandi. Uppfærðar kortaskrár og blaðskiptingar helstu kortaflokka eru hér tengdar saman, en einnig eru tengingar við skönnuð kort sem stofnanir og söfn hafa gert aðgengileg með einum eða öðrum hætti á netinu. Með þessu má fá samræmt yfirlit yfir þekkta íslenska kortaflokka frá opinberum aðilum og nálgast upplýsingar um kortin á einum stað út frá framsetningu reita á skjá.

Vefkortasafnið er þróunarverkefni sem mun taka nokkurn tíma í vinnslu. Umtalsverð vinna er eftir við kortaskráningu og við lagfæringar á nokkrum eldri blaðskiptingaþekjum, auk þess sem gera þarf nýjar fyrir nokkra kortaflokka þar sem slíkar þekjur eru ekki til. Þá eru skönnuð kort ekki aðgengileg í mörgum kortaflokkum þar sem kort hafa annað hvort enn ekki verið skönnuð og tengd á netið eða útgáfur korta á netinu eru af einhverjum ástæðum læstar og þar með ekki tengjanlegar við önnur verkefni eins og Vefkortasafnið.

Vefkortasafnið er unnið að frumkvæði Upplýsingaþjónustu landfræðigagna (Þorvaldur Bragason), en þróun búnaðar fyrir kortasjá og tæknileg vinnsla fer fram hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta (Árni Geirsson). Verkefnið nýtur engra styrkja úr opinberum sjóðum og er því háð velvilja frá samstarfsaðilum og ábyrgðarstofnunum kortaflokka sem birtir eru í Vefkortasafninu.

 

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...