Vefsjá fyrir Atlaskort

Landmælingar Íslands hafa í samstarfi við Samsýn sett upp nýja vefsjá fyrir Atlaskort og birtist hún á forsíðu vefs stofnunarinnar.  Atlaskortin eru 87 talsins og voru þau upphaflega gerð af dönskum landmælingamönnum á fyrstu fjórum áratugum 20. aldar. Þau eru af mörgum talin meðal fallegustu korta af Íslandi. Kortin eru í mælikvarða 1:100 000, með 20 metra hæðarlínubili og sýna helstu atriði á yfirborði landsins, svo sem vegi, slóða og stíga ásamt fjölda örnefna. Gerð kortanna var mikið þrekvirki á sínum tíma og eru þau mikilvægur hluti af sögulegum menningararfi þjóðarinnar.  Í vefsjánni birtast kortin samsett sem ein heild, en þannig komu þau fyrst fyrir sjónir almennings á svonefndum Atlaskortadiski fyrir nokkrum árum. Atlaskortin voru síðast uppfærð árið 1989. Vefsjáin býður möguleika á að leita eftir örnefnum, en jafnframt er hægt að slá inn heimilisföng og fá fram staðsetningu á korti þó Atlaskortin hafi ekki þá nákvæmni til að bera sem þarf til að sýna staðsetningu einstakra heimilisfanga. Hægt er að skoða kortin allt niður í mælikvarða 1:38 500, eins og fram kemur á vefsíðu LMÍ. 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .