Verkefni í landfræðilegum upplýsingamálum (127)

Í tengslum við útgáfu bókanna „Kortagögn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“ og í pistlum sem þar hafa verið birtir, hafa komið fram hugmyndir um fjölda mikilvægra landfræðilegra upplýsingaverkefna. Við þá umræðu og stefnumótun sem þarf að fara fram hér á landi um landfræðileg upplýsingamál á næstunni er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga.

Það er ekki úr vegi að rekja helstu ástæðurnar fyrir því að farið var að birta pistla um landfræðileg upplýsingamál á landakort.is. Ég hafði um árabil reynt að vekja athygli á því að aðgengi, varðveislu og skráningu landfræðilegra gagna í samfélaginu væri víða verulega ábótavant. Byggt var þar á áratuga reynslu, ásamt fræðilegum bakgrunni á sviði landfræðilegra gagna. Það er jafnframt töluvert síðan mér varð ljóst að til þess að breyta stöðunni að einhverju ráði þyrfti að koma til opinber heildarstefna í málaflokknum og aukin þverfagleg menntun fyrir sérfræðinga nokkurra fræðigreina. Það var margt sem þurfti að komast í umræðuna á þessu sviði, en það var enginn hentugur miðill eða aðgengilegur farvegur í boði til að miðla því sem þurfti að ræða. Því var tekin ákvörðun um það þegar skipta þurfti um hugbúnað fyrir landakort.is árið 2015 að nota tækifærið og nýta vefgáttina sem miðil fyrir pistlaskrif á þessu sviði.

Skrif sögulegra pistla um loftmyndir og gervitunglagögn tengjast síðan fyrri störfum mínum hjá Landmælingum Íslands. Framan af á þeim tíma var loftmyndasafn stofnunarinnar það eina á landinu og ég fékk í upphafi það verkefni að endurskipuleggja og skrá safnið og kynntist safnkostinum þess vegna vel. Þegar kom að vinnslu heildarmynda af landinu eftir gervitunglagögnum féll sú starfsemi undir það fagsvið stofnunarinnar sem ég stýrði á þeim tíma. Þá varð starf í samtökum um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA), starf að málefnum INSPIRE tilskipunarinnar og þátttaka í erlendum verkefnum sem og starfi fjölþjóðlegra stofnana (m.a. Cerco/EuroGeographics), til þess að ég fór að hugsa meira um samfélagslegar heildarlausnir á mörgum sviðum landfræðilegra upplýsingamála hér á landi.

Það er vonandi að með birtingu þessa efnis í bókum með efnisflokkuðum köflum ásamt skrá yfir helstu heimildir, megi vekja meiri umræður um landfræðileg gagnamál og bæta þar bæði vefaðgengi að upplýsingum og tryggja meira gagnaöryggi. En það eru nokkur brýn verkefni sem ekki þola bið.

Nauðsynlegt er að koma af stað fleiri og sértækari verkefnum þar sem hægt yrði að leita á netinu í söfnum korta, loftmynda og gervitunglagagna af landinu. Þar þarf að koma til samræming í skráningu og framsetningu veflausna. Mikilvægt er að flýta og ljúka skönnun loftmyndasafns Landmælinga Íslands sem hefur tafist. Koma þarf af stað umræðu um innkaup og skipulega söfnun eldri gervitunglagagna af Íslandi, þannig að möguleikar á samanburði verði tryggðir fyrir komandi kynslóðir. Til þess þarf innkaupastefnu, tryggja reglubundna afritun og aðgengi að upplýsingum í kortasjá, ásamt því að séð verði til þess að öll varðveisla verði örugg og við réttar geymsluaðstæður. INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins um skipulag og grunngerð stafrænna landupplýsinga, sem sett var í lög á Íslandi nr. 44/2011, hefur þrátt fyrir marga kosti nokkra annmarka. Tilskipunin fjallar hvorki um varðveislu eldri landupplýsingagagna og korta, né stakra loftmynda eða stakra gervitunglamynda, heldur nær hún einungis til skipulega uppsettra og staðlaðra gagnasetta. Því þarf sérstaka stefnu um landfræðilegu frumgögnin.

Á sviði korta eru einnig fjölmörg óunnin verkefni sem brýnt er að koma í framkvæmd sem allra fyrst. Meðal þeirra eru skráning og skönnun mjög mikilvægs kortasafns skipulagskorta hjá Skipulagstofnun og skráning tæknikorta hjá ýmsum stofnunum, þar á meðal hjá eldri veitufyrirtækjum, Vegagerðinni og Landsvirkjun. Þá vantar einnig svo eitthvað sé nefnt, að geta fengið aðgang á netinu að skrá um íslensk kort (sambærilegt við Gegni á sviði bóka) en kortaskrá yfir útgefin kort sem skilað hefur verið í prentskilum er til á eldra skráningarformi í Landsbókasafni, þó án hnitsetningar. Þá er einnig mikilvægt að geta fengið gerðar nýjar kortasjár með aðgengi gegnum kortblaðaskiptingar fyrir alla helstu kortaflokka sem ná yfir allt landið.

Heildarstefna hefur ekki verið mótuð á þessu sviði hér á landi (eins og áður hefur komið fram) og því er nauðsynlegt að til verði opinber aðgengis- og varðveislustefna fyrir landfræðileg gögn, samhliða og sem hluti af öðrum áætlunum um varðveislu og gagnaaðgengi upplýsinga á vegum stjórnvalda. Til að koma í framkvæmd margvíslegum landfræðilegum gagnaverkefnum á stofnunum og í söfnum þyrftu að vera möguleikar á meiri þverfaglegri menntun með einhverjum hætti. Bækurnar „Kortagögn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“ gætu meðal annars nýst sem fræðslu- eða kennsluefni í þeim tilgangi.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .