Örnefni eru mikilvæg af ýmsum ástæðum og rétt meðferð þeirra og framsetning á kortum er algjört grundvallaratriði í skráningu og birtingu upplýsinga um landið. Ef þekkingu skortir hins vegar á tilurð örnefna eða uppruna þeirra getur ýmislegt farið úrskeiðis eins og dæmi eru til um. Birting örnefna á kortum getur jafnframt verið viðkvæm, einkum ef fólk er ekki sammála um nöfn staða eða svæða og getur þá málamiðlunin verið að setja tvö nöfn inn á kort fyrir sama staðinn. Fleiri þættir geta einnig valdið vandræðum, eins og örnefni sem gefin hafa verið og tengjast störfum og ferðum innlendra sem erlendra manna hér á landi þar sem um er að ræða erlendan blæ á örnefnunum. Þegar grein birtist í Morgunblaðinu í janúar 2016 undir titlinum „Vatnsfell fær að heita Wattsfell“, rifjaðist upp gamalt mál sem er því reyndar óskylt en tengist misritun örnefnis á korti af Öskjusvæðinu.
Þegar Bandaríkjamenn gáfu út um 300 kortblöð af Íslandi í mælikvarða 1:50 000 á árabilinu 1948-1951, gerðu þeir nýja hæðarlínugrunna en tóku upp örnefni af Atlasblöðum Geodætisk Institut af Íslandi í mælikvarða 1:100 000. Danir prentuðu fyrsta kortblaðið af Herðubreið (nr. 84) í þeim mælikvarða árið 1943 meðan Danmörk var hernumin af Þjóðverjum. Bandarísku kortin í mælikvarða 1:50 000 voru teiknuð eftir stríðið vestur í Bandaríkjunum af starfsfólki Army Map Service ( AMS), kortastofnun bandaríska hersins, sem yfirfærði samviskusamlega þau örnefni sem hafa þurfti á kortunum. Kortin voru eins og sambærileg kort af fjölmörgum heimshlutum með rétthyrndu reitakerfi og táknum sem voru samræmd milli landa og hugsuð fyrir hernaðarleg not, enda vakin sérstök athygli á fyrirbærum sem sáust vel í landinu svo auðveldara væri að staðsetja sig eftir þeim. Má þar nefna texta á ensku sem vísaði sérstaklega til dæmis á kirkjur, vita, flugvelli, olíutanka og kirkjugarða svo eitthvað sé nefnt. Vitar hringinn í kringum landið voru gjarnan merktir inn með ensku tilvísuninni „Lighthouse“.
Kortblað 1:50 000, nr. 6022 III – Öskjuvatn, kom út árið 1949 og hafa örnefnin verið lesin og færð inn af herforingjaráðskorti nr. 84 – Herðubreið, frá árinu 1943. Þegar sprengigígurinn Víti í Öskju er skoðaður á báðum kortunum kemur í ljós að broddstafurinn „í“ í Víti prentast á herforingjaráðskortinu (dönsku fyrirmyndinni) frekar óskýrt, en á bandaríska kortinu er ekkert Víti, heldur „Lighthouse“. Af því að kortateiknarinn þekkti augljóslega ekki aðstæður, þó hann hafi áreiðanlega haft aðgang að loftmyndum sem teknar voru af mestöllu landinu 1945-1946, þá hefur hann af trúmennsku gert eins og á kortum við ströndina þar sem viti er Lighthouse, með þeim afleiðingum að frægt er.
Á Herforingjaráðskortinu frá árinu 1943 sem hefur verið notað sem heimild standa einnig örnefnin Wattsfell og Thoroddsenstindur. Á herforingjaráðskorti 84 – Herðubreið, frá árinu 1969 hefur þessum tveimur örnefnum verið skipt út fyrir örnefnin Vatnsfell og Þorvaldstindur. Finna þarf aðrar útgáfur af Atlasblaði 84 á þessu tímabili til að sjá nákvæmar hvenær breytingarnar urðu á nafnainnsetningunni á kortinu. Að minnsta kosti eru Thoroddsenstindur og Wattsfell á útgáfu kortsins frá árinu 1945.
Þorvaldstindur í sunnanverðri Öskju, 1510 metra hár, er nefndur eftir Þorvaldi Thoroddsen sem rannsakaði Öskjusvæðið á ferðum sínum eftir gosið 1875. Hvort nafnið Thoroddsenstindur hefur verið notað fyrstu áratugina en ekki Þorvaldstindur þekki ég ekki, en það nafn rataði inn á herforingjaráðskortin í upphafi og ekki vitað nákvæmlega hvenær því var breytt, en leiða má hugann að því að með tilliti til málhefðar hafi verið talið fara betur á að miða örnefni sem leitt var af nafni Íslendings við fornafn hans en ekki eftirnafn.
Wattsfell, 1308 metrar á hæð vestan við Þorvaldstind í suðvestanverðri Öskjunni, er kennt við breska landkönnuðinn William Lord Watts, sem ferðaðist til Íslands þrisvar, á árunum 1871, 1874 og 1875, upphaflega í þeim tilgangi að ganga fyrstur manna norður yfir Vatnajökul, en hann kom að Öskju eftir gosið 1875 og lýsti ummerkjum eftir það. Wattsfell mun hafa verið gefið sem örnefni árið 1910 og notað áratugina á eftir á kortum og í rituðu máli. Örnefnanefnd mun hafa breytt nafninu árið 1941 í Vatnsfell e.t.v. af málræktarástæðum, en sú ákvörðun hefur augljóslega ekki skilað sér til Kaupmannahafnar þar sem Wattsfell er á herforingjaráðskortinu frá 1943. Í áðurnefndri Morgunblaðsgrein er talað við Víði Gíslason á Akureyri, en hann beitti sér fyrir því að örnefnanefnd breytti eldri ákvörðun til baka. Árið 2004 leyfði nefndin að Wattsfell mætti standa á kortum og vera innan sviga, en nú hefur Wattsfell verið endurreist sem örnefni og skal merkt á kortum og gagnagrunnum þar sem því verður við komið, en í úrskurði mun þykja rétt að hafa Vatnsfell skráð sem aukanafn.
Þorvaldur Bragason