Aðgengi að kortum í Orkuvefsjá (37)

Upplýsingar um helstu kort Orkustofnunar (OS) hafa verið aðgengilegar á Netinu um árabil, þar sem bæði má leita á vefsíðu stofnunarinnar í kortaskrá og kalla fram í Orkuvefsjá ramma sem sýna öll svæðin sem kortin þekja. Orkuvefsjá virkar á þessu sviði sem eins konar brú milli tveggja heima, sem hafa haft litla tengingu, þ.e. landupplýsingageirans og safnageirans.

Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort eru helstu kortaflokkar OS. Þegar farið var að huga að skráningu orkugrunnkortanna á árinu 2008 kom í ljós að í safni stofnunarinnar voru ekki til eintök af öllum kortunum á filmum og voru þau sem vantaði fengin að láni frá öðrum stofnunum til skönnunar, en flokkurinn sýnir kort gerð á vegum Raforkumálaskrifstofunnar, Orkustofnunar, Landsvirkjunar og RARIK. Jarðkönnunarkortin voru öll til á Orkustofnun og hjá Íslenskum orkurannsóknum – ÍSOR, en skráningin nær til ársins 2003, þegar ÍSOR skildist frá OS og varð að sjálfstæðri stofnun.

Skráningarverkefnið hafði það að markmiði að gerðar yrðu nákvæmar skrár yfir öll kortin, þau síðan skönnuð í hárri upplausn sem dygði til uppréttingar og vigrunar fyrir landupplýsingavinnslu og birta síðan blaðskiptingar kortanna á Netinu, þannig að kalla mætti bæði fram upplýsingar úr kortaskrám og myndir af kortunum sjálfum. Með því var aðgengi að upplýsingum opnað fyrir alla og möguleiki skapast til að stofnanirnar fái afrit allra kortanna í hágæðaskönnun, en nota kortasjána annars vegna leitar. Eitt af markmiðum verkefnisins var jafnframt að geta síðar fundið út hvort til væru fleiri óþekkt afbrigði kortanna, en heildarfjöldi þekktra Orkugrunnkorta er nú 755 og jarðkönnunarkorta til ársins 2003, alls 184. Flest orkugrunnkortanna sýna hæðarlínur, vatnafar og mælipunkta, en einnig eru þar oft sýndir vegir eða slóðar og örnefni. Aðeins um 40% kortanna eru með efni sem fyllir að fullu út í kortrammann. Jarðkönnunarkortin eru hins vegar vatnafars- og jarðfræðikort af ótal gerðum. Í Orkuvefsjá er gerð tilraun til framsetningar upplýsinga um þennan kortaflokk, en flokkurinn þykir margbreytilegri og flóknari í framsetningu en aðrir íslenskir kortaflokkar, einkum vegna margra mismunandi mælikvarða, óreglulegra blaðskiptinga og ólíkra efnisflokka innan sama kortaflokksins.

Allar skrár voru færðar inn í Oracle gagnagrunn og staðsetningargögn sett upp í ArcInfo landupplýsingakerfi. Út frá þeim voru síðan gerðar formskrár til birtingar í Orkuvefsjá. Í hugbúnaði kortasjárinnar er auðvelt að meðhöndla upplýsingar og bæta inn lýsigögnum og fróðleik um kortin. Uppfærsla gagnanna í þekktum grunnkerfum er lykilatriði í viðhaldi upplýsinganna og gefur möguleika til að nýta þau í víðari tilgangi. Hér er í fyrsta skipti í íslenskri kortasjá hægt að skoða heila kortaflokka með því að smella á reiti innan kortblaðaskiptingar og fá með því fram lýsigögn um gagnasöfn, skrár með ítarefni og myndir af kortum.

Það þótti nokkrum vandkvæðum bundið að setja kortin fram í Orkuvefsjá. Kortasjárhugbúnaðurinn hefur ákveðnar takmarkanir þegar kemur að framsetningu korta sömu gerðar (í sama efnisflokki) sem skarast landfræðilega. Til þess að koma í veg fyrir að kortramminn falli inn undir annan kortramma og þar með verði ekki mögulegt að kalla fram upplýsingar um kortið, varð að skipta nokkrum efnisflokkunum niður í allt að þrjár þekjur, þannig að hægt væri að leggja gagnaþekjurnar með mismunandi hætti upp til skoðunar, en þær eru alls 19 talsins. Af sömu ástæðu þurfti að sýna heildarkort af landinu í aðgreindum þekjum. Í þekjunum eru sýnd ytri mörk kortblaða en ekki þekja kortlagðra svæða innan reita (oft þekja skýringar einnig hluta kortflatar).  Jpg myndir sem sýna kort eru tengdar við töflur og má skoða í ítarefni. Þá má jafnframt í ítarefni skoða skannaðar skýrslur OS sem tengjast gerð einstakra korta. Í ítarefnisflipa kortasjárinnar er einnig getið um höfunda korta. Ef um er að ræða einn eða tvo höfunda er beggja getið, en ef þeir eru fleiri en tveir er birt nafn þess fyrsta ásamt skammstöfun. Númer skýrslna OS veita aðgang að skönnuðum útgáfum þeirra.  Til að koma til móts við stærri notendahóp er allt efni kortasjárinnar á íslensku og ensku. Lýsigögnin í kortasjánni eru yfirlitslýsigögn byggð á 12 atriðum í kjarna ISO 19115 lýsigagnastaðalsins. Þær upplýsingar eru lykillinn að því að notendur geti vitað hvað er til af gögnum og með því er hægt að skipuleggja og tryggja varðveislu þeirra á ólíkum formum á næstu misserum.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...