Það er ekki nóg að hafa gott aðgengi á netinu að upplýsingum um allar íslenskar loftmyndir ef það er ekki jafnframt mögulegt að sérpanta hágæða afrit og eftirgerðir mynda sem þarf að nota við rannsóknir og ýmsa vinnslu annarra verkefna og framkvæmda í landinu. Í dag sinna Landmælingar Íslands, Loftmyndir ehf og Samsýn þessu hlutverki, hver fyrir sitt safn. Þó að fyrirkomulagið virki í dag er ekki sjálfgefið að það muni virka um ókomin ár. Tökum sem dæmi hvað myndi gerast ef stjórnvöld gerðu alvöru úr því að breyta Landmælingum Íslands enn einu sinni. Um það hefur verið rætt á liðnum árum í tengslum við enn frekari sameiningar opinberra stofnana, en ekki orðið af.
Nú vill svo til að Loftmyndir ehf. hafa valið samstarf við Þjóðskjalasafn Íslands um varðveislu alls loftmyndafilmusafns fyrirtækisins og er gott til þess að vita að gagnaöryggið ætti að vera tryggt í hita- og rakastilltum öryggisgeymslum. Öryggismál loftfilmusafns Landmælinga eru að mínu mati hins vegar ekki samkvæmt því sem nauðsynlegt er og ekki er mikið vitað um loftfilmusafn Samsýnar, sem nær yfir myndatökur frá fyrstu fimm árunum í loftmyndatöku fyrirtækisins. Talið er að þær filmur séu jafnvel geymdar erlendis. Bæði Loftmyndir ehf. og Samsýn hafa hætt loftmyndatökum á filmur og fært sig yfir í stafrænar loftmyndatökur. Það koma því væntanlega ekki fleiri nýjar loftmyndafilmur í þau þrjú loftmyndasöfn sem til eru hér á landi.
Þegar notandi finnur upplýsingar um loftmynd sem hann þarf að fá í meiri upplausn og á ákveðnu formi, gerir hann pöntun hjá einhverjum hinna þriggja vörsluaðila loftmyndasafnanna. Verði Landmælingar Íslands sameinaðar annarri stofnun eða breytt frá núverandi mynd þar sem loftmyndastarfsemi yrði ekki lengur hluti af verkefnum stofnunarinnar, þyrfti að leysa það hver tæki við eftirgerð gagna úr safninu, en Þjóðskjalasafn hefur hvorki hlutverki að gegna né ræður safnið yfir tækni á því sviði. Safnið myndi fyrst og fremst sinna því hlutverki að varðveita frumfilmur. Ef það tækist að skanna allt núverandi loftmyndasafn Landmælinga sem er gríðarlega mikilvægt, gæti einhver aðili á markaði allt eins tekið síðar þann verkþátt að sér að útbúa afrit af myndum safnsins eftir hinum hágæðaskönnuðu myndum. Sama mætti segja um það að finna myndamiðju allra hinna 140.000 loftmynda í safninu vegna aðgengis á netinu, að slíkt mætti allt eins bjóða út.
Í þessum hugmyndum er fyrst og fremst verið að tala um myndefni sem upphaflega var tekið á loftmyndafilmur á tímabilinu 1937-2016. Varðveisla þeirra frumgagna loftmyndanna sem orðið hafa til með nýrri skönnunartækni þarf að skoðast sérstaklega, en hún lýtur öðrum lögmálum en varðveisla filma.
Það er nauðsynlegt að stjórnvöld beiti sér í þessu máli. Landmælingar Íslands og fyrirtækin tvö þurfa að fá hvatningu og fjármagn til að hægt verði að hrinda í framkvæmd hugmynd um sams konar skráningarverkefni. Tryggja þarf samkeppnissjónarmið og að um ókomin ár verði hægt að fá hágæða afrit allra íslenskra loftmynda, hvernig svo sem ákvarðanir stjórnvalda eða markaðarins birtast okkur. Í dag er til ágætis fyrirmynd að hentugu fyrirkomulagi hjá Loftmyndum ehf., en það er ekki nóg því við verðum að tryggja gagnaöryggið fyrir gagnaflokka í öðrum söfnum um leið og aðgengið að upplýsingunum um þá á netinu er bætt.
Þorvaldur Bragason