Ferðalag loftmyndar af Ljósafossvirkjun (64)

Sumarið 1937, nánar tiltekið 30. ágúst, tóku Danir loftmyndir af Ljósafossvirkun sem þá var í byggingu. Um er að ræða  skámyndir, tvær myndir með nægjanlegri skörun til að skoða þær í þrívídd.  Myndirnar sem eru svarthvítar, eru teknar í norður og norðausturátt og merktar S/1 og S/2. Eins og annað myndefni úr myndatökuflugi Dana á þessum tíma vegna kortagerðar á Íslandi, hafa filmurnar farið til Kaupmannahafnar um haustið til frekari úrvinnslu. Frumfilmusafnið úr loftmyndatökuflugi Dana 1937 og 1938 barst til Íslands fyrir mörgum áratugum, líklega á fyrstu árum Landmælinga Íslands, sem varð sjálfstæð stofnun árið 1956. Þær hafa verið varðveittar í loftmyndasafni stofnunarinnar síðan.

Við hernám Danmerkur í apríl 1940 tóku Þjóðverjar yfir dönsku landmælinga- og kortastofnunina Geodætisk Institut sem hafði umsjón með kortagerð Dana af Íslandi. Þar með höfðu þeir aðgang að öllum kortum og öðrum mikilvægum heimildum þeim tengdum sem þar var til af landinu. Loftmyndirnar sem einkum voru af hálendi landsins hafa án efa verið notaðar í ýmsum tilgangi og til staðfestingar á því má taka dæmi sem kom í ljós þegar farið var að leita að loftmyndum frá stríðstímanum í bandarískum söfnum árið 1980.

Árið 1981 komu til Íslands nokkrar stakar loftmyndir þar sem merkt hafði verið inn með táknum og texta á þýsku ýmislegt sem sást á myndunum. Ein þessara mynda sýndi Ljósafossvirkjun þar sem fram komu upplýsingar um það hvaða hluta af kortblaði Atlasblaða í mælikvarða 1:100 000 (37) myndin sýndi. Jafnframt var framkvæmdasvæðið afmarkað með línu og settar inn vísanir með örvum sem bentu á norður og vegi til ákveðinna staða (Þingvellir, Selfoss og Eyrarbakki). Þá voru skrifuð inn nöfn á þekktum fyrirbærum á myndinni; Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Sog. Auk þess getur að líta fjarlægðartölu í loftlínu frá Ljósafossi til Eyrarbakka og þar koma einnig fram númer sem benda til að þessar merkingar hafi verið hluti af skráningu staðanna í einhvers konar skrá í skjalasafni.

Þegar betur var að gáð kom í ljós að hér var um sömu mynd og S/2 að ræða, en sú merking hafði verið möskuð út með ferningi á negatífri filmu sem birtist síðan hvítur í neðra horni myndarinnar vinstra megin.

Myndin hefur því verið afrituð úr myndasafni Geodætisk Institut í Kaupmannahöfn, sennilega í upphafi stríðsins. Síðan hafa verið settar inn á hana skýringar og myndin síðan notuð í hernaðarlegum tilgangi hjá Þjóðverjum. Við fall þriðja ríkisins 1945 voru margvísleg gagnasöfn tekin herskildi, þar á meðal loftmyndasöfn, sbr. þýsku GX loftmyndirnar frá 1942. Þetta myndefni var flutt til Bandaríkjanna í stríðslok, afritað þar á filmur og sett á safn til varðveislu. Þegar farið var að leita að gömlum loftmyndum af Íslandi erlendis og þær fengnar til landsins kom tengingin í ljós, enda frumfilmur þessarar myndar þá komnar í loftmyndasafn Landmælinga Íslands mörgum áratugum fyrr. Vegir loftmynda geta því verið „rannsakanlegir“ eins og svo margt annað!

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...