Gervitunglagögn frá Landsat 4 og 5 (70)

Þegar Landsat-4 gervitungli Bandaríkjamanna var skotið á loft 16. júlí 1982 kom ný tegund gervitunglagagna, TM gögn (Thematic Mapper), á markaðinn. Upplausn gagnanna sem þar urðu aðgengileg var 30×30 metrar miðað við yfirborð jarðar. Ekki kom eyða í gagnaöflun Landsat áætlunarinnar, þar sem Landsat-3 dugði fram í lok marsmánaðar 1983. Landsat-5 var síðan skotið á loft 1. mars 1984. Tímabil myndaöflunar með TM skannanum í Landsat-4 var síðan fram í ágústmánuð 1993, eða 11 ár. Góð ending Landsat-5 kom sér afar vel þar sem geimskot Landsat-6 mistókst þann 5. október 1993. Þar hefði komið viðbót við gagnaöflunina með ETM skanna (Enhanced Thematic Mapper) sem hefði skilað mun fyrr myndgögnum á einu bandi til viðbótar og þá með 15×15 metra myndupplausn sem hefði mátt blanda við önnur bönd og fá þannig meiri myndgreiningu. Af því varð ekki fyrr en Landsat-7 fór á loft  7. apríl 1999. Ekki varð þó rof í myndaöflun TM gagna á þessu tímabili.

Landsat-4 og Landsat-5 var skotið í 705 km hæð yfir jörðu og svæðisþeking mynda var 185×185 km sem fyrr. 233 brautir komu í stað 251 áður, en raðnúmerin innan hverrar brautar voru með sama hætti og fyrr. Ísland sést á myndum á brautum 216-222 og á röðum 13-15 . Gervitunglin fóru yfir sama stað á jörðinni á 16 daga fresti í stað 18 daga áður. Hins vegar var mikil skörun milli aðliggjandi brauta hér á landi vegna norðlægrar legu og því hægt að ná myndum örar af ákveðnum svæðum úr myndum frá tveimur aðliggjandi brautum. Þetta gat skipt máli vegna mikillar skýjahulu sem takmarkaði mjög fjölda nothæfra mynda.

Tækjabúnaður var sem fyrr MSS skanni með um 80×80 metra myndeiningum en nýjungin var TM skanninn með 30×30 upplausn miðað við yfirborð jarðar. TM skannarnir í Landsat-4 og Landsat-5 öfluðu gagna með sjö böndum þar sem þrjú voru á sýnilega hluta rafsegulrófsins en hin á innrauða sviðinu og því hitainnrauða. Þar með var orðið mögulegt að búa til myndir bæði í venjulegum litum og innrauðum úr sömu gögnunum með því að blanda saman mismunandi böndum, 1, 2 og 3 fyrir venjulega liti og 2, 3 og 4 fyrir innrauða liti.

Þegar kom að því að kaupa til landsins gögn til að nýta við gerð nýrra heildarmynda af Íslandi lá því beinast við að byggja á Thematic Mapper gögnum frá Landsat-4 og Landsat-5.

Heildarmagn gagna frá Landsat 4 og 5 er gríðarlega mikið, en Landsat-5 hætti að senda Thematic Mapper gögn til jarðar í nóvember 2011.  Á þessum vettvangi verður ekki fjallað um Landsat 7- og Landsat 8, heldur látin nægja umfjöllun um eldri Landsat gögn sem notuð voru fram undir aldamótin 2000, þ.e. þau gögn sem nýttust við gerð heildarmynda af landinu á tíunda áratug síðustu aldar.

Þorvaldur Bragason

Nánari upplýsingar: Þorvaldur Bragason og Magnús Guðmundsson (1998). Heildarmyndir af Íslandi. Náttúrufræðingurinn 68 (1) 17-26.

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...