Íslandsmyndir byggðar á SPOT gögnum (75)

Við kaup á SPOT gervitunglagögnum af öllu landinu skapaðist gjörbreytt staða sem leiddi af sér umræður um gerð nýrrar heildarmyndar af Íslandi. Fyrsta SPOT heildarmyndin var gerð 2006 og þurfti um 70 myndir til að ná skýjalausri samsettri mynd af öllu landinu, en hver myndrammi þekur um 60×60 km á yfirborði jarðar og því nokkuð um skörun. Myndefnið fyrir fyrstu heildarmyndina var tekið frá SPOT-5, það var með 5×5 metra myndeiningum (reiknanlegt í 2,5×2,5 m) og því miklum mun betra en Landsat heildarmyndirnar hvað upplausn snerti. Eins og svo oft áður í gagnavinnsluverkefnum hér á landi voru gagnakaupin fyrir fyrstu myndina fjármögnuð með samskotum margra stofnana. Þær gátu því fengið samsettu heildarmyndina á mjög sanngjörnu verði og reyndist myndin mjög gagnleg til margvíslegra nota. Helst var hún þó í upphafi notuð einkum sem undirlag með öðrum gögnum í landupplýsingakerfum og í einhverjum tilfellum sem undirlag í kortasjám á netinu.

Helstu notin í byrjun af myndefninu sem Landmælingar keyptu var fyrir hið samevrópska CORINE landflokkunarverkefni, en mikið efni var á svipuðum tíma keypt fyrir Jarðvísindastofnun HÍ þar sem myndefnis var aflað af íslenskum jöklum og á þeim myndum voru skannarnir stilltir með öðrum hætti þannig að ekki var talið mögulegt að nýta sömu myndir fyrir hin ólíku not. Því varð ekki um samnýtingu að ræða og Spot myndgögn eru því til í töluverðu magni á þessum stofnunum.

CORINE landflokkunin er unnin í löndum Evrópu til að skrá og fylgjast með breytingum á landnotkun. Um var að ræða nokkra tugi landnotkunarflokka og kom fyrsta heildarkortið af Íslandi samkvæmt CORINE flokkun út árið 2006, en í verkefninu var m.a. samstarf við Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands.

SPOT Íslandsmyndin varð mikilvæg viðbót við eldri Landsat heildarmyndirnar fimm. Það þótti hins vegar mikilvægt að uppfæra hluta hennar með nýjum gögnum og var það gert, samkvæmt upplýsingum frá Landmælingum, a.m.k. þrisvar sinnum þ.e. árin 2007, 2009 og 2011. Í uppfærslunum var skipt út myndhlutum þar sem orðið höfðu afgerandi breytingar eða gögn í samsettu myndinni voru ekki nógu góð t.d. vegna skýja.  Vinnsla og gerð SPOT heildarmyndanna hefur einkum verið í höndum Kolbeins Árnasonar og Ingvars Matthíassonar hjá Landmælingum Íslands.

Þrátt fyrir að SPOT heildarmyndin hafi gagnast mjög vel til margra þarfra verkefna er upplausn hennar eðli málsins samkvæmt ekki samanburðarhæf við hefðbundnar loftmyndir. Hún hefur hins vegar þótt henta þar sem ekki er nauðsynlegt að hafa bestu myndgæði, en þar ræður kostnaðarþátturinn miklu um matið. Myndin nýtist hins vegar vel í mörgum verkefnum en heildaráferð hennar yrði betri ef sjórinn yrði afmarkaður frá landi með „einum lit“ eins og gert var á Landsat heildarmyndunum.

Með þessum pistli er umfjöllun lokið í bili á þessum vettvangi um helstu gervitunglagögn sem notuð voru hér á landi fyrstu áratugina og fram yfir aldamót, vegna samsettra heildarmynda af landinu. Ekki hefur í því sambandi verið fjallað um veðurtunglagögn sem eru stór og viðamikill málaflokkur. Fjöldi annarra gervitungla var notaður til að afla gagna af Íslandi nánast allt tímabilið fram undir aldamót t.d. allt frá geimskoti Seasat 1978, en það myndefni er minna að vöxtum og bíður skoðunar síðar eins og annarra gagnaflokka.

Mikilvægt er að til verði skrá um það frá hvaða gervitunglum gögn urðu til af Íslandi frá upphafi (Landsat,1972), þar sem fram komi m.a. upplýsingar um tæknina, gerð gagna, magn nýtilegs efnis til dæmis miðað við lágmarks skýjahulu sem talin yrði viðunandi og upplýsingar um landsvæðin. Þá er einnig nauðsynlegt að á einum stað megi fá góð lýsigögn fyrir allar heildarmyndir af landinu.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .