Kortasjár – Afritun og heimildir (32)

Fjöldi íslenskra kortasjáa frá upphafi er eitthvað á annað hundrað þegar allt er talið, en hins vegar skortir algerlega upplýsingar um nákvæman fjölda þeirra, gerðir, tilgang og sögu. Því miður hefur verið slökkt á mörgum kortasjám á liðnum árum og því er aðgengi að þeim ekki lengur til staðar. Núverandi kortasjár eru misaðgengilegar og ef finna ætti um þær tölulegar upplýsingar þyrfti fyrst að skilgreina betur hugtök og orðanotkun. Í framhaldi af því þyrfti að ákveða hvort eingöngu yrðu taldar þær kortasjár sem opnar eru almenningi á Netinu, eða hvort einnig teldust með þær sem eru fyrst og fremst notaðar innan stofnana, sveitarfélaga eða fyrirtækja. Einnig þyrfti að ákvarða hvernig ætti að fara með upplýsingar um kortasjár sem hafa verið aflagðar og lokað á netinu, finnist um þær upplýsingar, og kortasjár þar sem skipt hefur verið um hugbúnað og útliti og virkni breytt, en óbreyttar vefslóðir notaðar. Nothæf tölfræði í þessu efni er nauðsynleg til að hægt verði að tryggja það að heimildir verði í framtíðinni til um sögu og þróun íslenskra kortasjáa.

Þegar mest var umleikis á þessu sviði á árunum fyrir hrun voru nokkur íslensk fyrirtæki sem veittu stofnunum og sveitarfélögum hugbúnaðarþjónustu fyrir kortasjár: Gagarín, Loftmyndir, Samsýn, Snertill, Teikn á lofti og Verkfræðistofa Suðurlands, en þar voru mjög ólíkar lausnir í boði og lagðar mismunandi áherslur. Í sumum tilfellum var eingöngu samið um hugbúnaðarlausnir og útlitshönnun, en í öðrum einnig um vinnslu gagna, varðveislu gagnasafna, innsetningu efnis í kortasjárhugbúnað, aðgengi að gagnasettum til birtingar og um hýsingu. Tíminn sem kortasjár eru opnar á Netinu getur því tengst lengd viðskiptasambands stofnunar eða sveitarfélags og þjónustufyrirtækis og gæti kortasjá horfið af þeim sökum með stuttum fyrirvara af Netinu.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn  hefur um árabil afritað reglubundið íslenskar vefsíður (vefsafn.is). Hins vegar hefur komið í ljós að búnaðurinn getur ekki afritað útlit kortasjáa og því hefur engin miðlæg útlitsafritun farið fram á íslenskum kortasjám, hvorki á vegum safnsins né í erlendum vefafritunarverkefnum svo vitað sé. Landsbókasafn hefur ekki að því best er vitað áform um að hefja slíka afritun og hefur talið óljóst hvort safnið hafi yfirleitt skyldum að gegna í slíku verkefni. Að sama skapi hafa aðrir talið að móttaka og vistun afrita af birtingarmynd kortasjáa eins og hún kemur fram á Netinu sé ekki heldur á verksviði Þjóðskjalasafns Íslands. Heimildir um útlit og virkni munu  því ekki varðveitast að óbreyttu nema eigendur kortasjánna geri sjálfir ráðstafanir til að afrita þær eða útlit/birtingarmynd þeirra á Netinu. Einhverjar upplýsingar á þessu sviði hafa nú án efa þegar farið forgörðum.

Orkustofnun hafði frumkvæði í tveimur helstu samstarfsverkefnum stofnana sem unnin voru á sviði kortasjáa á Íslandi á liðnum áratug: Gagnavefsjá og Náttúruvefsjá. Báðum þessum verkefnum er nú lokið og var slökkt á kortasjánum á Netinu í árslok 2011. Þegar fyrir lá að loka þyrfti þessum tveimur kortasjám voru engar leiðbeiningar þekktar um afritun á útliti kortasjáa. Vitað var að engin miðlæg afritun færi fram og var því sett upp sérstakt verkefni sem hafði það að markmiði að öll gögn væru til í afriti, auk skýringartexta, lýsigagna og skjámynda úr öllum helstu köflum. Þannig urðu til afrit og aðferðir sem mögulegt er að nota við að uppfæra gögn til birtingar annars staðar síðar ef á þyrfti að halda og einnig fæst þannig hugmynd um virkni og útlit hinna ýmsu hluta kortasjánna, sem skiptir máli í sögulegu samhengi. Beitt var sömu aðferðum við báðar kortasjárnar þó þær byggðu á ólíkum hugbúnaðarlausnum. Gögnum var komið fyrir á tölvukerfi OS, afrit brennd á DVD diska fyrir skjalavistun og upplýsingar um verkefnin settar á vefsíðu OS, ásamt glærum af útlitsafrituninni. Tryggja verður að afrit séu tekin reglulega af útliti allra íslenskra kortasjáa, en ákveða þarf afritunaraðferð og ábyrgðaraðila verkefnisins. Eðlilegast væri að Landsbókasafn sinnti því hlutverki eins og safnið gerir nú varðandi hefðbundnar íslenskar vefsíður.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .