Landkönnun.is (113)

Hefðbundin kort, loftmyndir og gervitunglagögn eru, fyrir utan stafræn landupplýsingagögn, þekktustu tegundir landfræðilegra gagna. Nú á tímum stafrænnar tækni og opins aðgengis höfum við aðgang að landfræðilegum upplýsingum í alls konar kortasjám og á vefsíðum þar sem búið er að matreiða fyrir okkur landfræðilega framsetningu gagna á flestum sviðum þar sem það er talið hagkvæmt. Íslenskt efni á þessu sviði er til dæmis aðgengilegt á einum stað á forsíðu vefgáttarinnar landakort.is. Mikið af því stafræna landfræðilega efni sem við notum í dag á hins vegar upphaflega rætur í og byggist á hefðbundnari gögnum af ýmsum landsvæðum heimsins. Þessi gögn eru oftar en ekki frumheimildir sem samfélagið getur ekki verið án og er í raun stöðugt verið að nýta meðal annars í sérhæfðum verkefnum og rannsóknum.

En hvar finnum við frumgögn í formi korta, loftmynda og gervitunglamynda af Íslandi? Eru þau í aðgengilegum söfnum og er hægt að finna upplýsingar um slík gögn í einhverjum veflausnum? Þessum spurningum hefur verið reynt að svara með vefsíðu, sem opnaði á miðju síðasta ári. Vefsíðan, sem nefnd hefur verið landkönnun.is, hefur það að markmiði að auðvelda notendum landfræðilegra gagna að finna upplýsingar um kort, loftmyndir og gervitunglagögn í vörslusöfnum á Íslandi í gegnum eina vefgátt á netinu. Nafnið vísar bæði í hugtakið landfræðileg gögn og fjarkönnunargögn (loftmyndir og gervitunglamyndir).

Forsíða vefsins er í meginatriðum þrískipt þar sem miðað er við áðurnefnda gagnaflokka, en síðan er upplýsingakafli um hvers vegna það er nauðsynlegt að til séu upplýsingaveitur á þessu sviði á netinu (landakort.is og landkönnun.is). Frá forsíðunni er vísað beint inn í upplýsingar um efni þeirra vörslusafna sem til eru á þessu sviði. Þar er stutt lýsing á hverju safnefni, tengill á vefsíðu stofnunar eða fyrirtækis sem á safnið og tengill í vefframsetningu. Á sviði loftmynda er um að ræða: Landmælingar Íslands, Loftmyndir ehf og Samsýn, en á sviði korta er um að ræða: Landsbókasafn Íslands, Landmælingar Íslands og Orkustofnun.

Upplýsingar um efni íslenskra korta- og loftmyndasafna hefur þar til nú þurft að finna á ýmsum ólíkum stöðum á netinu. Farnar hafa verið ólíkar leiðir í framsetningu og væri æskilegt að hugað yrði að meiri samræmingu í því hvaða og hvernig upplýsingar eru settar fram um kort annars vegar og hins vegar um loftmyndir og gervitunglagögn. Það eru raunar engar íslenskar vefsíður til sem birta skrár um gervitunglagögn af landinu, en slíkt efni um Ísland þarf því að finna á erlendum leitarsíðum. Þegar rætt er um samræmingu er ekki sérstaklega verið að ætlast til sameiginlegra veflausna og sama búnaðar þó slíkt væri að sjálfsögðu áhugavert þar sem því yrði við komið og talið skynsamlegt. Frekar ætti að horfa til „svipaðra“ lausna þannig að notendur sem nota veftólin tiltölulega sjaldan þurfi ekki að setja sig inn í virkni margra veflausna sem engar eru eins og með misjafnlega ítarlegum upplýsingum.

Þess var vænst að opnun vefsíðunnar landkönnun.is yrði til þess að skapa skilning og umræður um möguleika til samræmingar og nýrra samstarfsverkefna opinberra stofnana og einkafyrirtækja sem koma þurfa að málum. Aðgengi almennings að upplýsingum um landfræðileg gögn þarf að vera í forgrunni um leið og skráning gagnanna og skönnun yrði til að tryggja betur varðveislu og öryggi þessa landfræðilega hluta menningararfs þjóðarinnar. Til þess að geta skipulagt og unnið slík samstarfsverkefni þarf að greina hvaða gagnaflokkar eru til hér á landi og erlendis með útgefnum sem óútgefnum kortum, loftmyndum og gervitunglagögnum af Íslandi. Við eigum ekki yfirlitsupplýsingar á einum stað um atriði eins og það hvaða gagnaflokkar eru til, hvar þeir eru geymdir, hver ber ábyrgð á þeim, hvert umfang þeirra eða ástand er, fyrir hvaða tíma gögnin gilda, hvaða landsvæði þau sýna, hvert er skráningarstigið, varðveisluaðstæður og svo mætti lengi telja. Slíkt gagnasöfnunar- og skráningarverkefni hefur verið skipulagt og undirbúið til vinnslu, en fjármögnun vantar.

Það er ljóst að landkönnun.is auðveldar notendum landfræðilegra gagna að finna hvað er til og vísar þeim á það hvert þeir geti leitað til að fá upplýsingar í hendur, ef það sem er þegar niðurhlaðanlegt af netinu nægir ekki. Ljóst er hins vegar að hér er verk að vinna sem verður ekki leyst nema með samstarfi margra.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...