Rannsóknarbókasöfn og kortasöfn týna tölunni (136)

Þegar rætt hefur verið um tegundir bókasafna í gegnum tíðina voru einkum fjórar gerðir safna nefndar: Þjóðbókasöfn eins og Landsbókasafn, Almenningsbókasöfn eins og bókasöfn bæjarfélaga, Skólabókasöfn eins og í skólum á öllum skólastigum og Rannsóknarbókasöfn einkum í opinberum stofnunum. Síðastnefnda tegundin, Rannsóknarbókasöfnin, sem geta verið innbyrðis mjög ólíkar starfseiningar að stærð og eðli og með ólíka gerð safnkosts, hafa á liðnum áratugum orðið fyrir barðinu á töluverðum niðurskurði hér á landi sem jaðrar jafnvel við skemmdarverk á sumum sviðum. Mörgum rannsóknarbókasafnanna hefur verið lokað og safnkostinum dreift með gjöfum eða yfirtöku einhverra opinberra eða einkaaðila, eða að safnkostinum hefur að hluta til verið fargað. Kort af ýmsu tagi hafa verið hluti safnkosts fjölmargra rannsóknarbókasafna hinna ýmsu stofnana og því hefur með þessum umskiptum orðið rof á aðgengi að kortum í einhverjum tilfellum. Þetta á ekki einungis við um rannsóknarbókasöfnin í landinu, því nýleg umræða um skjalasöfn eins og um lokun Borgarskjalasafns Reykjavíkur og Héraðsskjalasafns Kópavogs er af sama toga.

Það að loka mörgum verkfræði- og sérfræðisöfnum landsins meðal annars á sviði landfræðilegra upplýsinga, náttúruvísinda og fleiri sérgreina er sorgleg þróun og ber í raun vott um óskiljanlegt metnaðarleysi þeirra sem tóku ákvarðanirnar og fyrirskipuðu að þeim yrði fylgt eftir. Dæmi um þetta úr fortíðinni eru ákveðnar verkfræðistofur og stofnanir eins og Hafró, Orkustofnun/ÍSOR, Landmælingar Íslands og Landsvirkjun svo dæmi séu tekin. Ég hef í nokkrum tilfellum heyrt í gegnum árin þungt hljóð í starfsmönnum rannsóknarbókasafna sem hafa neyðst til að framfylgja skipunum sem voru að þeirra mati vægast sagt óskynsamlegar, enda vissu þeir öðrum fremur af reynslu sinni að internetið sem taka átti við, veitti ekki nema að hluta til aðgang að stafrænum útgáfum gagnanna eða ritanna sem söfnin varðveittu fyrir lokanirnar. Það hefði hins vegar án efa verið mögulegt að vinna einhver slík verkefni fyrir það efni safnanna sem skipti mestu máli ef menn hefðu viljað og gefið því tíma.

Ástæðurnar fyrir lokununum eru án efa eins margar og tilfellin sem um er að ræða, en í grunninn eru forsendurnar yfirleitt þær að einhver stjórnmálaflokkur, stjórnmálamaður eða þá starfsmaður ráðuneytis eða forstjóri stofnunar, tekur upp á því að vilja spara kostnað sem felst í rekstri, starfsmannahaldi og viðhaldi safnkosts á einhverri stofnun. Söfnin liggja oft vel við höggi þar sem þessi þáttur í rekstrinum er yfirleitt nokkuð skýrt afmarkaður, þar er kostnaður vel sýnilegur. Verkefnin eru hins vegar ekki alltaf mjög sýnileg utanaðkomandi aðilum og ráðgjöfum. Nýjungagjarnir ráðgjafar, starfsmenn eða yfirmenn þeirra í stjórnkerfinu telja oft að allt sem skiptir máli sé komið á netið og starfsmenn og aðrir fyrrverandi notendur geti sjálfir hjálparlaust fundið það sem þeir þurfa á að halda. Það er hins vegar á mörgum sviðum fjarri lagi að mikilvæg gögn séu komin á netið, hvað þá með samræmdum hætti. Stjórnendur gefa einnig þær skýringar að notkun safnanna hafi verið of lítil og kostnaður of mikill. Það væri þrengt að stofnunum varðandi fjármagn og húsnæði, þær væru færðar til og þá um leið endurskipulagðar með mikil opin rými og litlar geymslur. Því hefur verið reynt að skila öllu sem hægt er á Þjóðaskjalasafn og Landsbókasafn jafnvel með takmörkuðum skráningum og lýsigögnum. Það gæti því orðið tímafrekt að finna og nýta margt af því sem hlaðist hefur upp í geymslunum þar að undanförnu.

Ég hef haft töluverðar áhyggjur af því hvað verður um safnkost þegar slíkar breytingar eru gerðar. Nýlegt dæmi um lokun rótgróins, stórs og mikils metins rannsóknarbókasafns var þegar bókasafninu í Orkugarði var lokað fyrir nokkrum misserum og það aflagt að fullu. Safnið var vel rekið og veitti gæðaþjónustu, en kostnaður var greiddur að hálfu af Orkustofnun og að hálfu af ÍSOR meðan sú stofnun var á Grensásvegi 9. Safnið var meðal annars mikið notað af erlendum nemum sem stunduðu nám í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það skal tekið fram að ákvörðun um niðurlagningu safnsins hafði verið tekin og hún komin í framkvæmd áður en núverandi orkumálastjóri kom til starfa.

Þegar ég sá þetta gerast og gat ekki haft áhrif á það, beitti ég mér fyrir því, sem þáverandi starfsmaður Orkustofnunar, að kortasafn stofnunarinnar færi til Landsbókasafns og var það afhent formlega árið 2022. Þetta var gert til að koma í veg fyrir hugsanlega dreifingu pappírs- og filmugagna í allar áttir eða mögulegar skemmdir á kortunum við að fara til dæmis í lélegar geymslur eins og stefnt hefði getað í. Kortasafn Orkustofnunar er sem betur fer vel skráð og allar helstu upplýsingar um það aðgengilegar á netinu í kortasjám stofnunarinnar, Vefkortasafninu og Sérkortasafninu, en jafnframt voru til og afhentir á sama tíma staflar af óskráðum flötum og brotnum kortum frá eldri kortaflokkum úr útgáfum annarra stofnana eins og Landmælinga Íslands. Í þeim bunka eru án efa einhver kort frá öðrum útgefendum sem ekki eru til í öllum útgáfum hjá Landsbókasafni. Þarna er því mögulegt að fylla í eyður.

Þá voru Landmælingar Íslands á síðasta ári færðar úr heilsuspillandi og mygluðu stjórnsýsluhúsinu á Akranesi í annað húsnæði í bænum. Kortasafn stofnunarinnar er enn í geymslum í nýja húsnæðinu og bíður ákvarðana. Safnið er vel skráð í grunninn og er á netinu í sérstakri veflausn, en framkvæma þarf nokkra vinnu við að setja allt safnefnið sem til er á vefþjóna sem væru aðgengilegir almenningi og þar með birtanlegir með samræmdum lýsigögnum meðal annars í Vefkortasafninu ásamt kortum allra annarra. Eftir þá vinnu Landmælinga, sem ekki ætti að þurfa að taka langan tíma miðað við margt í þessum geira, væri hægt að afhenda safn prentuðu kortanna til Landsbókasafns. Þar með væri mögulegt að samkeyra skrár Landsbókasafns, Landmælinga og Orkustofnunar fyrir ákveðna kortaflokka og ná þannig að fylla í eyður sem hugsanlega eru í safnkostinum, þar sem vitað er að prentskil frá stofnunum og prentsmiðjum til safnsins voru ekki alltaf í fullkomnu lagi í fortíðinni. Söfn annarra stofnana þurfa síðan að fara í gegnum sambærilega ferla til að efni þeirra nýtist samfélaginu, þess sama samfélags sem greiddi fyrir tilurð þeirra.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .