Nýleg umræða um samruna opinberra stofnana, sem margar hverjar geyma verðmæt kortagögn og önnur landfræðileg gögn, leiðir hugann að hlutverki og ábyrgð ráðuneyta og stjórnenda stofnananna við að sjá til þess að varðveisla verði tryggð og aðgangur að slíku efni úr fortíðinni sé til staðar fyrir almenning í samræmdum veflausnum. Margvísleg verkefni hafa komið fram á undanförnum árum til að bæta stöðuna, sum sértæk, önnur heildstæðari eins og Vefkortasafnið og Sérkortasafnið, en margt er þó enn ógert í stofnunum, á söfnum og hjá fyrirtækjum á markaði. Í heild ríkir stefnuleysi í íslenska stjórnkerfinu á þessu sviði og leiðarljósið vantar.
Reynsla af ýmsum stofnanabreytingum hér á landi; flutningum milli landshluta, samruna, uppskiptingu, niðurlagningu eða flutningi milli ráðuneyta er mjög mismunandi. Nálgunin hefur oft verið þannig varðandi gögnin að viðkomandi ráðuneyti sem yfirvald stofnananna sem ýtt er út í breytingaferli hafa fyrir fram lítið hugað að eignarhaldi, uppskiptingu eða vörslu gagna. Það fellur því oftast í hlut millistjórnenda og/eða almennra starfsmanna að finna út úr þeim málum og bera ábyrgð á að öryggið sé tryggt. Það getur verið erfitt hlutskipti þegar þekking á eldri kortaflokkum og ýmsum öðrum eldri landfræðigögnum innan stofnanna er ekki lengur til staðar. Þar sem stefnumótunin á landsvísu hefur ekki átt sér stað um varðveislu og aðgengi er ekki alltaf ljóst hvernig best er að leysa úr málum og takmarkaðar leiðbeiningar að fá.
Eitt helsta vandamál stofnana, þegar kemur að breytingum eða flutningum í minna húsnæði og taka þarf afstöðu til þess hvað eigi að gera við eldri landfræðigögn sem jafnvel hafa ekki verið skráð með skipulegum hætti, er að þekkingarbrúin milli nýrra og fyrrverandi starfsmanna sem þekktu gögnin hefur rofnað. Vinna við skráningu, varðveislu og framsetningu samræmdra upplýsinga um gagnasöfn á netinu eins og kortasöfn, loftmyndasöfn, söfn gervitunglagagna og ýmissa stafrænna kortagagna verður því stöðugt erfiðari og að mati þeirra sem að koma stundum nánast óframkvæmanleg, sem er auðvitað mikill misskilningur.
Vinnsla og öflun landfræðilegra gagna hefur breyst mikið, einkum og sér í lagi síðustu hálfa öldina eða um það bil. Á þeim tíma komu gervitunglagögnin meðal annars til sögunnar, en þau breyttu heildrænni yfirsýn á yfirborð jarðarinnar. Landupplýsingakerfin færðu kortagerð úr filmuferlum yfir í stafræn vinnsluferli og netið með þróun kortasjáa gjörbreytti aðgengi að landfræðilegum gagnasettum og landfræðilegu efni á öllum sviðum, svo eitthvað sé nefnt.
Reynsluheimur þeirra sem hefja störf í landupplýsingageiranum í dag og þeirra sem hófu störf í kortagerð eða á sviði loftmynda fyrir hálfri öld eða svo er gjörólíkur. Á tímum stafrænnar vinnslu eru hin “gömlu” kortagögn oft talin nánast úrelt og einskis virði nema ef bera þarf eitthvað saman, eins og landbreytingar á afmörkuðum svæðum. Menningarsögulegt hlutverk eldri gagnanna sem varðveita þarf fyrir komandi kynslóðir verður því miður oft víkjandi í umræðunni.
Landfræðilega gagnasagan á lýðveldistímanum hefur ekki verið skrifuð svo neinu nemi. Hún verður því varla lesin í löngu máli og að sama skapi tæplega skrifuð nema heildaryfirsýn yfir gögnin verði byggð upp hjá núverandi starfsmönnum stofnana og safna. Þegar landfræðigögn á ólíkustu segulmiðlum frá fyrstu áratugum stafrænnar gagnavinnslu og skjalabunkar korta, loftmynda eða annars slíks efnis verða síðan á vegi þeirra sem tekið hafa við og þurfa að flytja stofnanir eða fyrirtæki, er ef til vill enginn sem veit hvaða gögn eða efni er um að ræða. Minna húsnæði er venjulega til umráða eftir flutninga og þá er jafnvel mikilvægu efni hent.
Ég hef áður í pistlum á þessum vettvangi bent á mikilvægi þess að tryggja þurfi skráningu og vefaðgengi að öllum helstu gögnum stofnana sem innihalda landfræðilegar upplýsingar, áður en frumgögnin fara til varðveislu til dæmis á Þjóðskjalasafni. Söfn hafa ekki lagaskyldu til að gera gagnasöfnin eða kortaflokkana aðgengilega með samræmdum hætti á netinu, heldur ber þeim fyrst og fremst að varðveita. Stofnanirnar hafa heldur ekki slíka lagaskyldu og því þarf að höfða til velvilja yfirmanna sem hafa ekki allir þá sýn að afritun og vefframsetning þessara eldri gagna eða kortasafna í þeirra vörslu sé forgangsmál. Eins og við vitum endast svo stafræn gögn ekki marga áratugi á segulmiðlum eins og segulböndum, geisladiskum, flökkurum eða hörðum diskum, sem oft eru dreifðir skipulagslítið á víð og dreif hjá starfsmönnum stofnananna. Tæki eins og drif og sértækur hugbúnaður hafa breyst ört og úrelst hratt og er oft fargað of snemma. Því er oft ekki hægt að skoða stafræn gögn þó þau hafi verið geymd. Gögnin þarf því að afrita reglubundið og skipulega samkvæmt einhverri heildstæðri áætlun sem stofnanir þurfa að koma sér saman um. Nú er mjög tilviljanakennt hvað er afritað og hvernig.
Ef litið er til allra korta sem hafa verið gerð af Íslandi, annars vegar þeirra prentuðu og útgefnu og hins vegar þeirra óútgefnu og fjölfölduðu með öðrum aðferðum, innan lands sem utan, unnin af opinberum stofnunum og einkaaðilum, verður því miður að segjast eins og er að það er enginn einn aðili til sem hefur heildaryfirsýn eða veit í smáatriðum hvað hefur verið gert. Aðeins þrjár stofnanir hafa sett afrituð kort á vefþjóna vegna netaðgengis. Þar er um að ræða öll kort Orkustofnunar, en afmarkaðan hluta korta Landsbókasafns og Landmælinga Íslands, aðrir aðilar sem bera ábyrgð á einhvers konar kortagerð í gegnum tíðina hafa ekki sinnt slíkum vefverkefnum svo vitað sé.
Verkefnin Vefkortasafnið og Sérkortasafnið aðgengileg á landkönnun.is og landakort.is, eru virkar kortasjár á netinu í eigu og á ábyrgð undirritaðs, en þær eru unnar í samstarfi við Alta. Kortasjárnar voru upphaflega þróaðar og byggðar á vinnu sem fór fram fyrir Orkustofnun og voru þær hugsaðar sem tilraunaverkefni og sýnidæmi um hagkvæmar og framkvæmanlegar lausnir á vandamálum sem flestir mikluðu fyrir sér. Kortasjánum var ætlað að sýna fram á að mögulegt væri að veita heildstætt vefaðgengi að upplýsingum um öll íslensk kort, gegnum samhæft kortaviðmót sem sýnir íslenskar kortblaðaskiptingar og svæðisafmarkanir íslenskra korta, hvar svo sem kortin sjálf væru í rauninni geymd eða varðveitt. Samstarf um þessi verkefni hefur hins vegar ekki verið formfest, hvorki innbyrðis milli ákveðinna stofnana, né við Landsbókasafn sem hefur það lagalega hlutverk að geyma miðlægt afrit af útgefnum íslenskum kortum.
Það er því ljóst að til eru opnar og virkar lausnir sem gætu gert okkur kleift að nálgast upplýsingar um öll íslensk kort á einum stað á netinu. Þegar þetta er skrifað eru kortasjárnar tvær með aðgengi að yfir 1500 kortatitlum af Íslandi sem leyfi fékkst frá Orkustofnun, Landmælingum Íslands og Landsbókasafni Íslands að tengja frá vefþjónum þeirra inn í þessi tilraunaverkefni. Kortin sem enn vantar og þarf að bæta við, eru geymd meðal annars á fleiri stofnunum og söfnum, en þau eru nokkur þúsund til viðbótar þegar allt er talið, sem er þrátt fyrir allt ekkert óyfirstíganlegt. Sums staðar nægir að fela núverandi starfsmönnum afmörkuð verkefni á þessu sviði, en tilkostnaðurinn felst annars fyrst og fremst í að greiða fyrir vinnutíma við skráningu, skönnun og að koma myndum af kortum á vefþjóna, auk einhvers stjórnunarkostnaðar. Til þess þarf að þjálfa og setja valda starfsmenn inn í að geta unnið að því að bæta við þessi verkefni og síðan að viðhalda þeim. Þekking á sértækum eldri kortaflokkum er sem betur fer enn til hjá nokkrum einstaklingum á eftirlaunum. Þeirri þekkingu þarf jafnframt að safna saman áður en það verður of seint.
Næsti áfangi þessara verkefna þarf annars vegar að koma frá Landmælingum Íslands, sem nú eru hluti Náttúrufræðistofnunar og hins vegar frá Landsbókasafni Íslands. Báðar stofnanirnar eiga stór og vel skráð kortasöfn, reyndar með ósamræmdu aðgengi, en langstærsta verkefnið sem vinna þarf er hins vegar talið vera á Skipulagsstofnun. Það er þessara stofnana og reyndar nokkurra fleiri sem og a.m.k. tveggja opinberra fyrirtækja að afla stuðnings og fjármagns til að koma kortaflokkum sem eru í þeirra fórum í opið aðgengi og um leið að tryggja varðveislu þeirra. Af framansögðu er ljóst að veflausnirnar eru til, allir verkferlar eru þekktir og það þarf ekki að smíða neinn nýjan hugbúnað. Eftir hverju er þá verið að bíða?
Þorvaldur Bragason