Kortasaga lýðveldistímans (8)

Saga kortagerðar á lýðveldistímanum á Íslandi er brotakennd og að stærstum hluta óskrifuð. Sáralítið finnst af rituðum texta um gerð og útgáfu hinna ýmsu kortaflokka frá þessum tíma. Skráning og framsetning upplýsinga um kortin á Netinu hefur einnig lengst af verið takmörkuð. Eftir því sem lengra líður verður erfiðara að finna heimildir um þessa sögu, en enn eru einhverjir til frásagnar um þann fróðleik sem safna þarf fyrir skrásetningu á kortasögu síðustu áratuga. Þetta á bæði við um sögu útgefinna kortaflokka og óútgefinna, en flestir þeirra eru geymdir í skjalasöfnum opinberra stofnana. Mikilvægt er að stjórnendur íslenskra stofnana stuðli að bættri skráningu upplýsinga um alla helstu kortaflokka sem til hafa orðið hér á landi í seinni tíð þannig að birta megi skrárnar á Netinu og skrifa samhliða eða í framhaldi af því sögu hvers kortaflokks. Auk útgefinna meginrita um kortasöguna hafa komið út nokkrar skýrslur og greinar um afmörkuð kortaverkefni og kortaflokka. Á síðustu misserum hefur bæst við efni á vefsíðum og í kortasjám stofnana, en þær upplýsingar eru bæði dreifðar og ósamræmdar. Skráning annarra korta en þeirra sem hafa verið formlega útgefin er víða mjög skammt á veg komin.

Til að nefna nokkra kortaflokka sem lítið hefur verið skrifað um, má telja flokka sem samtals geyma líklega eitthvað á annan tug þúsunda titla, sú tala gæti allt eins verið töluvert hærri ef öll kort í opinberum skjalasöfnum væru talin með. Innan hvers kortaflokks eru oft minni kortaflokkar í mismunandi mælikvörðum, en kortin eru oft af ólíkum gerðum og byggja á mismunandi blaðskiptingum. Titlafjöldi hvers eftirtalinna kortaflokka er oftast talinn í hundruðum og í einhverjum tilfellum í þúsundum.

Saga staðfræðikortaflokka Bandaríkjamanna: Army Map Service (AMS) og Defence Mapping Agency (DMA), er ekki til á prenti svo vitað sé. Lítið er til af útgefnu efni um staðfræði- og ferðakort Landmælinga Íslands og réttmyndakort (Orthokort) sömu stofnunar. Þá á eftir að skrifa sögu kortagerðar í mælikvarða 1:25 000, en þar var um að ræða samstarf Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (RALA) /Náttúrufræðistofnunar, Landsvirkjunar og Orkustofnunar. Góðar heimildir eru til á prenti um gróðurkort RALA og síðar Náttúrufræðistofnunar, en minna til um Jarðfræðikort Náttúrufræðistofnunar. Góðar skrár og gott aðgengi er á Netinu að upplýsingum um Orkugrunnkort Raforkumálastjóra og síðar Orkustofnunar, Landsvirkjunar og RARIK og sama er að segja um Jarðkönnunarkort, þ.e. Jarðfræði- og vatnafarskort Orkustofnunar.  Mikið magn Skipulagsuppdrátta er lítt skráð á Skipulagsstofnun og sama er að segja um götukort bæjarfélaga. Þá vantar að sama skapi eitthvað uppá söguritun vegna sjókorta frá Sjómælingum Íslands í seinni tíð. Lítið er til á prenti um ferðakort af Íslandi sem útgefin hafa verið af íslenskum fyrirtækjum á markaði og ferðakort af Íslandi gefin út af erlendum fyrirtækjum í kortaútgáfu. Lítið er til ritað um íslensk framkvæmdakort (vegir, flugvellir, hafnir, virkjanir), lagnakort veitufyrirtækja (hitaveitur, vatnsveitur, rafveitur) og margs konar sérkort (segulkort, veiðikort, göngu- og reiðleiðakort). Þá er mikið magn korta til í teikningasöfnum  og skjalasöfnum íslenskra stofnana, þar sem lítið er vitað um heildarfjölda í hverju safni.

Margir íslenskir kortaflokkar eru vel skráðir sem safnefni, einkum þar sem kort hafa verið prentuð og gefin út fyrir almennan markað. Aðrir eru minna skráðir, margir óskráðir og jafnvel ekki vitað um fjölda titla innan þeirra. Flestum er þó sameiginlegt að í meginatriðum á eftir að skrifa sögu kortagerðarinnar. Skráning og ritun sögu margra áðurnefndra flokka ætti meðal annars að geta hentað sem námsverkefni á háskólastigi fyrir nemendur með bakgrunn í landfræði, upplýsingafræði og sagnfræði. Slíkt gæti komið af stað nauðsynlegri hugarfarsbreytingu.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .