desember 2007

Vandaður myndaatlas með gervitunglagögnum

Máli og menning hefur gefið út nýjan atlas með gervitunglamyndum “Jörðin í öllu sínu veldi”, eftir Douglas Palmer í þýðingu Arnar Sigurðssonar.

Í kynningartexta um verkið segir á vef fyrirtækisins:
“Jörðin í öllu sínu veldi birtir okkur glæsilegustu myndir sem nokkru sinni hafa verið teknar af hnettinum okkar, plánetunni Jörð. Gervitunglamyndir frá bandarísku geimferðastofnunni NASA hafa verið unnar með fullkomnustu tækni og útkoman er myndaatlas sem sýnir allt yfirborð jarðarinnar, verk sem hiklaust mætti kalla heimsatlas 21. aldarinnar. Hér getum við fylgst með Amazonfljótinu streyma frá upptökum sínum í Andesfjöllum til sjávar í Atlantshafi, skoðað óteljandi sandöldur Sahara-eyðimerkurinnar eða fellingafjöllin miklu sem urðu til við árekstra flekanna sem mynda jarðskorpuna. Við getum séð hvernig árstíðirnar og veðrið breyta ásýnd jarðarinnar, þegar snjórinn fellur á norðurhvelið og bráðnar á suðurhvelinu og víðátturnar blómstra og skrælna í takt við regnið. Hér er stórbrotin og sláandi fegurð jarðarinnar í brennidepli, fjöllin og eyðimerkurnar, vötnin og höfin, og það umhverfi sem mótað hefur tilvist og sögu mannsins frá upphafi vega. Hér fáum við að sjá, frá nýju og heillandi sjónarhorni, heimkynni okkar í öllu sínu veldi – þennan dýra fjársjóð sem við eigum öll saman.

Douglas Palmer er vísindamaður og fyrirlesari við Háskóla símenntunar í Cambridge. Hann er höfundur fjölda bóka um jörðina og dýralíf hennar, m.a. um risaeðlur, steingervinga og þróun mannsins.”
Jörðin í öllu sínu veldi er 224 bls. í stóru broti og kemur í vandaðri öskju.

Vefsjár fyrir Árborg og Hveragerði

Tvær nýjar vefsjár hafa verið tengdar inn á landakort.is, en þær sýna landfræðileg gögn af Árborg og Hveragerði. Vefsjárnar eru unnar í landupplýsingakerfi er nefnist Granni, en það er rekið er af Verkfræðistofu Suðurlands á Selfossi. Granni er tvennskonar. Annarsvegar er hann alhliða landupplýsingakerfi sem öll sveitarfélög í Árnessýslu nota, en sá hluti Granna er lokaður almennum notendum. Hins vegar er hann opinn vefur fyrir almenning. Árborg og Hveragerði eru einu sveitarfélögin sem hafa sett upp opna vefsjá fyrir almenning með takmörkuðum upplýsingum. Það eru um tvö ár síðan vefsjárnar fóru fyrst á vefinn. Opnu vefsjárnar bjóða upp á fasteignaupplýsingar, teikningar og að birta aðalskipulag. Öll vinnsla kortagagna fer fram í hugbúnaði frá Autodesk en Granni notar í kortahluta Autodesk MapGuide.

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...