Félag Landfræðinga og Landabréfið (18)

Félag Landfræðinga var stofnað 5. nóvember 1986. Félaginu var ætlað að stuðla að eflingu fræðigreinarinnar landfræði og vera vettvangur háskólamenntaðra landfræðinga fyrir ýmis landfræðileg málefni, sem ekki var farvegur til að vinna að innan Landfræðifélagsins, en það félag var öllum opið. Flestir þeir landfræðingar sem höfðu verið í Landfræðifélaginu voru áfram meðlimir þess félags, þar til það var lagt af í byrjun tíunda áratugarins. Fljótlega hófst samstarf félaganna um ýmis mál, meðal annars um gerð á heildstæðu landfræðingatali. Starfsemi félagsins hefur lengst af einkum verið byggð á fræðslufundum um landfræðileg málefni og árlegum ráðstefnum þar sem fjallað hefur verið um hin fjölbreyttu verkefni og verksvið sem landfræðingar starfa á. Landpósturinn, fréttabréf Félags landfræðinga kom svo fyrst út árið 1989. Í fréttabréfinu hafa verið birtar fréttir af félagsstarfinu, fróðleikur og tilkynningar um ýmis mál til félagsmanna.

Eitt mikilvægasta verkefnið á vegum félagsins gegnum tíðina hefur verið útgáfa veglegs fagtímarits á sviði landfræði, en það fékk heitið „Landabréfið“. Tímaritið hefur verið metnaðarfullt fræðirit, rekið undir vandaðri ritstjórn Karls Benediktssonar. Áhersla var lögð á birtingu ritrýndra fræðigreina, en jafnframt birtust almennar greinar ætlaðar til að vekja umræður um landfræðileg málefni sem og ritdómar um bækur.  Útgáfan var hins vegar þung fjárhagslega þar sem lítið félag hafði takmarkað bolmagn til að halda úti svo metnaðarfullri útgáfustarfsemi. Með tímanum reyndist sífellt erfiðara að fá greinar til ritrýningar þó meira framboð væri á almennari greinum og leiddi það til þess að útgáfan varð stopulli og lagðist á endanum af með síðustu útgáfunni árið 2012. Hafði útgáfan þá staðið með stuttum hléum frá árinu 2002.

Við útgáfu fagtímaritsins Landabréfsins var alltaf lagður mikill faglegur metnaður í efnisval og framsetningu, sem lagði mikla vinnu á herðar ritstjórans, sem vann mikið og óeigingjarnt starf á þessu sviði. Það er hins vegar mikið umhugsunarefni hvers vegna svo stór hópur fagfólks, eins og útskrifaðir landfræðingar frá Háskóla Íslands eru, hefur ekki náð að leggja til efni þannig að halda mætti úti reglubundinni útgáfu á eigin fagtímariti, hvaða ástæður svo sem eru fyrir því. Þar með verður umræða um landfræðileg málefni fátæklegri, enda er enginn annar sambærilegur vettvangur til fyrir útgáfu landfræðilegs efnis á Íslandi. Útskrifaðir landfræðingar með BS próf frá Háskóla Íslands voru í árslok 2015 orðnir nokkuð á fimmta hundraðið samkvæmt upplýsingum frá HÍ. Þann hóp vantar nú farveg fyrir skrif og opinbera birtingu greina um landfræðileg málefni.

Einn vettvangur til þess er vefsíða félagsins (www.landfraedi.is) þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um félagið og starfsemi þess. Þar er jafnframt aðgangur að undirsíðu Landabréfsins (http://landfraedi.is/landabrefid/) þar sem hægt er að sjá efnisyfirlit tímaritsins 2002-2012 en þar er að miklu leyti opið aðgengi að greinum þess á rafrænu formi.

Fyrsti formaður Félags landfræðinga var Þorvaldur Bragason, en síðan hafa gengt formennsku þau Guðrún Gísladóttir, Guðrún Halla Gunnarsdóttir, Karl Benediktsson, Hjalti Jóhannesson, Edward Huijbens, Fanney Ósk Gísladóttir og Margrét Ólafsdóttir.

Saga Félags landfræðinga og Landfræðifélagsins hefur ekki verið formlega sett á blað. Ágrip af sögu Landfræðifélagsins er á vef Félags landfræðinga en lítið er þar um sögu Félags landfræðinga. Meginheimildir um þessa sögu eru til í fréttabréfum og tímaritinu, en þekkt er að fyrri formenn og stjórnarmeðlimir hafa unnið að því að safna öllum þeim útgáfum á einn stað til skönnunar og birt á vefsíðu félagsins. Sannarlega þarft verkefni. Landfræðingatal væri einnig mjög áhugavert verkefni og mikilvægt að það verði að raunveruleika, að minnsta kosti sem skrá eða listi á vefsíðu félagsins.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...