Danska kortastofnunin Geodætisk Institut skipulagði töku loftmynda á Íslandi á sumarmánuðum 1937 og 1938 með það að markmiði að ljúka kortagerð af landinu í mælikvarða 1:100 000, en á þeim tíma átti eftir að ljúka gerð korta af miðhálendinu. Á árunum á undan hafði ný tækni verið að þróast þar sem nýta mátti þrívíddarmyndir (myndir teknar með yfirgripi til skoðunar í þrívídd) til kortagerðar. Tilraun með slíka myndatöku hafði verið gerð á Tröllaskaga árið 1930, en þar voru teknar ljósmyndir með mikilli skörun frá hæstu tindum nokkurra fjalla.
Alls voru teknar 1884 loftmyndir í stærðinni 12×12 cm á árunum 1937 og 1938. Flogið var í um það bil 3600 metra hæð og var myndað eftir löngum fluglínum þar sem myndavél var beint skáhallt inn að hálendinu. Farkosturinn var Heinkel sjóflugvél frá danska sjóhernum og sést flotholtið neðst á flestum myndanna. Leiðangurinn nýtti varðskipið „Hvidbjörnen“ sem bækistöð, en þar var m.a. myrkraherbergi til framköllunar filma og önnur aðstaða fyrir starfsmennina. Veður til myndatöku var óhagstætt fyrra sumarið og víða erfitt að ná skýjalausum myndum, en veðrið var aftur á móti betra það seinna og náðist þá að ljúka myndatökunni með þeim hætti sem ætlað var.
Myndaflokkurinn samanstendur því að langmestu leyti af skámyndum sem skoða má í þrívídd, en nokkrar lóðrétt teknar myndir eru þar af Reykjavík, Hafnarfirði, Þingvöllum og Akureyri. Skámyndirnar sýna stór svæði á litlum myndfleti, þannig að á þeim sjást ekki mikil smáatriði, en þær eru því mikilvægari í að sýna stöðu landsins t.d. vatnafars og jökla. Danskir landmælingamenn höfðu því undir höndum slíkar myndir rétt fyrir uppaf heimsstyrjaldarinnar síðari og gátu út frá þeim og öðrum gögnum lokið kortagerðinni án þess að komast til Íslands síðustu árin. Fyrir liggur að án þessara mynda hefði kortagerðinni af Íslandi í mælikvarða 1:100 000 ekki lokið á stríðsárunum, en kortagerðinni lauk lýðveldisárið 1944. Helstu heimildir um myndatökuna eru í skilmerkilegum greinargerðum sem komu með myndunum á sínum tíma og síðan í texta bókarinnar „Islands kortlægning“ eftir Nörlund (1944). Þá er fjallað nokkuð um myndatökuna og notkun myndanna í bók Ágústar Böðvarssonar „Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi“ (1996).
Upprunalegar filmur eru varðveittar í loftfilmusafni Landmælinga Íslands og eru pappírsmyndir aðgengilegar í loftmyndasafni stofnunarinnar, en skrá yfir pappírsmyndirnar og filmurnar í myndaflokknum hefur aldrei verið gefin út. Þessar filmur eru nú orðnar um 80 ára gamlar. Þær eru stökkar og viðkvæmar og lykt er komin af þeim, sem er hættumerki varðandi endingu. Það yrði mikið slys ef þær eyðilegðust áður en afritun færi fram, en fyrir áratug voru farnir að koma fram skyggðir flekkir á nokkrum filmum. Það er því ekki seinna vænna að Landmælingar Íslands setji það í forgang að skanna myndirnar vegna framtíðarvarðveislu, en filmugeymslur stofnunarinnar eru hvorki hita- eða rakastilltar. Elstu eiginlegu loftmyndir af Íslandi eiga það skilið að fara í forgang.
Þorvaldur Bragason