Náttúruvefsjá 2008-2011 (22)

Náttúruvefsjá var samstarfsverkefni nokkurra stofnana þar sem markmiðið var að veita aðgang að upplýsingum úr landfræðilegum gagnasöfnum um náttúru Íslands. Kortasjáin, sem var hugsuð sem kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar landfræðilegra upplýsinga, birtist fyrst á netinu í október 2008 og þar voru margbreytileg gögn frá ólíkum aðilum um eðli íslenskrar náttúru á landi, sjó og vatni gerð aðgengileg innan sömu kortasjárinnar. Undirbúningsverkefni fyrir Náttúruvefsjá, sem staðið hafði í nokkur ár, var upphaflega styrkt af Rannís en kostnaður við vinnslu verkefnisins var greiddur til helminga af verkefnisstjórn um íslenska upplýsingasamfélagið og Orkustofnun (OS), auk framlags hugbúnaðarfyrirtækisins Gagarín sem þróaði hugbúnaðinn. Forræði og ábyrgð á Náttúruvefsjá var hjá Vatnamælingum Orkustofnunar og fylgdi verkefnið með færslu Vatnamælinga yfir til nýrrar Veðurstofu Íslands í ársbyrjun 2009, en kortasjánni var lokað í desember 2011.

Meginmarkmið Náttúruvefsjár voru að koma gögnum og niðurstöðum úr rannsóknum á framfæri á sameiginlegum vettvangi og búa til notendavænt margmiðlunarumhverfi á íslensku sem byði upp á fjölbreytta möguleika til að skoða ólík gögn á sama tíma. Hugmyndin gekk út á að stórbæta aðgengi að gögnum um náttúrufar og auðlindir, sem gæfi færi á að draga fram gögn sem annars hefðu ekki komið fyrir sjónir almennings og skapa vettvang fyrir vísindamenn við skil á niðurstöðum rannsóknarverkefna. Með kortasjánni skapaðist vettvangur til gera starf stofnana sýnilegra, einnig þeirra sem stóðu ekki eins vel tæknilega á sviði landupplýsinga, en slíkt var talið geta bjargað gögnum frá því að týnast. Þá var talið mikilvægt að bæta möguleika almennings og skólafólks til að skoða náttúrufarsupplýsingar og upplýsingar um auðlindir auk þess að vera vettvangur fyrir samnýtingu gagna, innleiðingu staðla, samræmingu verkferla og framsetningu á netinu.

Hugbúnaðarfyrirtækið Gagarín þróaði sérstakan hugbúnað (Flashmap) fyrir verkefnið. Þar var lögð áhersla á að útfæra einfalda og notendavæna lausn sem auðveldaði jafnt skráningu sem og miðlun samræmdra gagna. Hægt var að setja inn og skoða ólík gögn, þ.m.t. punkta, línur, fláka, fjarkönnunargögn (gervitunglagögn og loftmyndir) og tímaháðar landfræðilegar upplýsingar svo sem kort af veður- og vatnafari. Ennfremur gaf Náttúruvefsjá kost á skráningu og miðlun annarra gagna svo sem lýsigagna, fróðleiks, tengla og ljósmynda. Textinn var eingöngu á íslensku og framsetning gagna miðaðist við viðmið ÍSN93.

Þær stofnanir sem voru í undirbúningshópi Náttúruvefsjár voru: Íslenskar orkurannsóknir, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landmælingar Íslands, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands og Veiðimálastofnun. Flestar þessar stofnanir lögðu til einhver gögn sem upplýsingar voru birtar um í kortasjánni, en þau voru ýmist fullbúin eða birt á vinnslustigi. Reynt var að finna rekstrarform fyrir verkefnið og að móta endanlega verkferla fyrir framsetningu efnis. Verkefnið fékk hvorki framgang né fjármögnun af hálfu umhverfisráðuneytisins og annarra stofnana þess, en reynt var að festa það í sessi sem vettvang til birtingar ýmissa landrænna gagna stofnana umhverfisráðuneytisins. Þar með taldi Veðurstofan að grundvellinum væri kippt undan verkefninu og dagaði það því í rauninni uppi, sem varð til þess að hugbúnaðarframleiðandinn taldi nauðsynlegt að loka því, enda uppfærslur á efni kortasjárinnar engar og forsendur rekstrarfélags um verkefnið brostnar. Ekki var óskað þátttöku OS í þessari umræðu enda talið að gögn OS væru á öðru sviði og ættu ekki heima innan þeirrar hugmyndafræði sem kortasjárverkefninu var í þessum lokakafla ætlað að þjóna.

OS nýtti þó fjárfestingu og þekkingu á uppbyggingu Náttúruvefsjár í að þróa tvær nýjar kortasjár með hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín, Landgrunnsvefsjá (2009) og Orkuvefsjá (2010).

Skjámyndir af Náttúruvefsjá

Þorvaldur Bragason

 

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...