Samhæfing á sviði lýsigagna (25)

Landrænir lýsigagnastaðlar hafa þróast samhliða öðrum almennum lýsigagnastöðlum  á síðustu tveimur áratugum og eftir að alþjóðlegur landrænn lýsigagnastaðall (ISO 19115) tók gildi árið 2003 hefur mikil vinna farið fram á þessu sviði. Stöðlunin er í samræmi við hugmyndafræði um grunngerð landupplýsinga (Spatial Data Infrastructure) og er einn hluti hennar INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins (Infrastructure for Spatial Information in Europe), sem miðar meðal annars að bættu aðgengi að landrænum gögnum, samræmingu, betra skipulagi gagnasafna og samnýtingu upplýsinga. Í lýsigagnastöðlum á sviði landupplýsinga og sams konar stöðlum á ýmsum sviðum safnamála eru ólíkar áherslur. Þar eru ákveðin atriði oft sameiginleg, eins og til dæmis titill, efnisflokkur, höfundur, lýsing, tungumál og útgáfudagur, en þessi atriði eru skilgreind með mismunandi hætti og heita ólíkum nöfnum í hverjum staðli. Samþætting slíkra atriða í stöðlum gæti verið til mikils gagns við að samkeyra upplýsingar og auðvelda leitir í gagnagrunnum á Netinu. En hver staðall og vinna við hann er sjálfstætt verkefni og ekki nein formleg tengsl þar á milli. Því þyrfti að koma á samstarfsverkefnum milli þeirra sem semja staðlana.

Samstilling helstu kjarnaþátta úr landræna lýsigagnastaðlinum ISO 19115 annars vegar og almenna lýsigagnastaðlinum Dublin Core (DC) hins vegar er af mörgum talin nauðsynleg vegna samhæfingar í gagnaskráningu og upplýsingamiðlun og getur verið mjög þörf í mörgum verkefnum. Árið 2005 kom út bók rituð af þremur sérfræðingum við Zaragoza háskóla á Spáni og bar hún nafnið Geographic Information Metadata for Spatial Data Infrastructures. Í þriðja kafla bókarinnar, sem ber heitið Interoperability between metadata standards, er farið yfir lykilsjónarmið og rætt um þau vandamál sem misræmið leiðir af sér, en einnig bent á mjög áhugaverðar leiðir til úrbóta.

Efni bókarinnar leiddi af sér hugmynd um ákveðna aðferðafræði við gerð lýsigagnagrunns Orkustofnunar. Sú hugmynd var tekin enn lengra, þar sem einnig er fjallað um og bætt inn kjarnaatriðum úr INSPIRE Metadata Implementing Rules: Technical Guidelines based on EN ISO 19115 and EN ISO 19119.

Lýsigagnagrunnur OS er þannig uppbyggður að hægt er að slá inn kjarnaatriði allra þriggja staðlanna, alls 40 efnisatriði og síðan væri mögulegt að keyra út skrár eftir því á formi hvaða staðals þarf að birta færslurnar. Skráning skýrslna í INSPIRE verkefninu er til dæmis gerð samkvæmt DC kjarnaþáttum (efnisflokkun á forsíðu hverrar skýrslu), meðan skráning landrænna gagnasetta meðal annars í Landupplýsingagátt og INSPIRE Geoportal eru byggð á kjarna INSPIRE Metadata Implementing Rules. Níu efnisflokkar, þ.e. meirihlutinn af hinum 15 kjarnaþáttum í Dublin Core eiga samsvörun í efnisþáttum ISO Core og INSPIRE Core. Hins vegar er töluverður munur á því hver kjarnaatriðanna úr ISO Core eru tekin upp í INSPIRE Core. Lýsigagnagrunnur OS gefur því möguleika á að ná fram nokkuð heilsteyptri skrá sem fellur að öllum helstu alþjóðastöðlum sem nota þarf til lýsigagnaskráningar flestra stofnana sem varðveita landræn gögn.

Ekki er vitað um önnur slík verkefni, hvorki hér á landi né annars staðar. Hugmyndafræði lýsigagnagrunnsins hefur vakið áhuga annarra hér á landi, þar sem stofnanir eru oft í umtalsverðum erfiðleikum með að halda utan um gagnatöflur og landræn gagnasett í ýmsum útgáfum sem orðið hafa til í starfsemi þeirra. Verkefnið gæti ef vilji stendur til þess skapað ákveðin tækifæri sem fleiri stofnanir gætu nýtt sér, ef unnið yrði samstarfsverkefni um að taka það upp á næsta stig í þróun lausnar sem fleiri gætu notað við uppbyggingu sinna eigin lýsigagnagrunna.

Frekari upplýsingar: Geographic Information Metadata for Spatial Data Infrastructures. Nogueras-Iso, J., Zarazaga-Soria, F.J. og Muro-Medrano, P.R., 2005.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...