febrúar 2007

Iðnmennt kaupir útgáfugrunna LMÍ

Fyrirtækið Iðnmennt ses, sem meðal annars rekur bókaútgáfu undir merkjum IÐNÚ, hefur keypt útgáfugrunna sem notaðir hafa verið við útgáfu helstu ferðakorta frá Landmælingum Íslands. Grunnarnir voru boðnir út  og var Iðnmennt með hæsta tilboðið. Um er að ræða Vegaatlas 1:200 000, Ferðakort 1:250 000, Ferðakort 1:500 000, Ferðakortabók 1:500 000 og Ferðakort 1:750 000. Iðnmennt hefur jafnframt keypt eldri kortalager LMÍ. Eins og fram hefur komið tóku ný lög um landmælingar og kortagerð gildi 1. janúar 2007, en þar kemur meðal annars fram að Landmælingar Íslands skuli hætta sölu prentaðra korta. Stofnunin hefur með þessu hætt gerð, útgáfu og sölu ferðakorta sem hefur verið stór hluti starfseminnar um áratuga skeið.

Ný kortabók handa grunnskólum

Út er komin hjá Námsgagnastofnun aukin og endurskoðuð útgáfa af Kortabók handa grunnskólum. Bókin er átta síðum stærri en fyrri útgáfa. Bætt hefur verið við opnukorti af Íslandi fremst í bókinni og kort yfir landshlutana eru ítarlegri og auðveldari aflestrar en áður. Nokkrum þemakortum hefur verið bætt við alþjóðlega hlutann, m.a. um sólkerfið. Þá eru nafnaskrár ítarlegri en í fyrri útgáfum. Bókin er sem fyrr unnin í samstarfi við Liber – útgáfuna í Stokkhólmi en Íslandskort eru að mestu fengin frá Landmælingum Íslands og Jean-Pierre Biard kortagerðarmanni. Á bókarkápu er kort Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út í hollensku kortasafni árið 1590. Kortið var lengi undirstaða þeirra myndar sem birtist af landinu, skreytt fjölda mynda af ófreskjum og sæskrímslum og er skemmtilegt að bera það saman við nútíma kort og myndir.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .